05.03.1973
Sameinað þing: 53. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2300 í B-deild Alþingistíðinda. (1788)

136. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Síðan æðsta stjórn íslenzkra mála fluttist inn í landið hefur aldrei setið hér að völdum önnur eins ríkisstj. og nú er á Íslandi. Það hefur aldrei áður gerzt í sögu íslenzks þingræðis, að áður en hálft kjörtímabil sé liðið, sé komið í ljós, að ríkisstj. hefur ekki aðeins brugðizt í viðureigninni við þann meginvanda, sem hún tókst á hendur að fást við, heldur beinlínis skert hagsmuni þjóðarinnar og rýrt álit hennar. En þetta hefur orðið hlutskipti þessarar ríkisstj. Það hafa orðið örlög Íslendinga að þurfa að þola slíkt. Það eru hörmuleg örlög, þegar þess er gætt annars vegar, að þjóðin hefur undanfarið búið við hærri þjóðartekjur en nokkru sinni fyrr, og hins vegar, að hún lifir nú hina vandasömustu tíma á sviði samskipta sinna við aðrar þjóðir.

Þegar núv. ríkisstj. var mynduð fyrir rúmu hálfu öðru ári, taldi hún þrjú mál vera meginviðfangsefni sín, stækkun fiskveiðilögsögunnar, nýskipan varnarmálanna og traust efnahagskerfi. Ég skal víkja að því, hvernig ríkisstj. hefur haldið á þessum mikilvægu málum.

Enginn ágreiningur er um það meðal Íslendinga, að nauðsyn hafi verið og sé á stækkun fiskveiðilögsögunnar við Ísland. Við Alþfl.-menn höfum talið og teljum, að miða hefði átt stækkun fiskveiðilögsögunnar við landgrunnið. Það er auðveldara að renna líffræðilegum rökum og þjóðréttarrökum undir rétt þjóðar til fiskveiða yfir landgrunninu en rétt hennar til þess að veiða út að vissum fjarlægðarmörkum frá grunnlínum. Ég tel lítinn vafa á því, að þegar að því kemur, að sett verða alþjóðalög um rétt ríkja til fiskveiða úti fyrir ströndum, þá verði þau lög í grundvallaratriðum byggð á rétti þjóða til landgrunnsins, bæði til þeirra verðmæta, sem felast í landgrunninu, og þeirra auðæfa, sem fólgin eru í hafinu yfir því, en eru auðvitað tengd landgrunninu sjálfu.

En látum það vera, þótt ríkisstj. hafi kosið að fara aðra leið í þessum efnum. Alþfl. hefur viljað stuðla að þjóðareiningu um þetta mál og því heils hugar stutt þá stefnu ríkisstj. að stækka fiskveiðilögsöguna í 50 mílur. Alþfl. hefur og forðazt allar deilur um meðferð málsins á innlendum vettvangi í því skyni, að aðstaða ríkisstj. gagnvart öðrum þjóðum mætti verða sem sterkust og henni veitast sem auðveldast að afla sjónarmiðum Íslendinga viðurkenningar. Nú er hins vegar ekki lengur hægt að komast hjá því að segja, að ríkisstj. hefur haldið illa á málinu. Í raun og veru hefur íslenzka fiskveiðilögsagan ekki stækkað neitt. Eftir að reglugerðin um 50 mílna landhelgi tók gildi, hafa erlend veiðiskip sótt meiri afla á Íslandsmið en á jafnlöngum tíma fyrir gildistöku reglugerðarinnar. Reglugerðin hefur fram til þessa því miður verið pappírsgagn eitt. Höfuðröksemd Íslendinga í landhelgismálinu hlýtur að sjálfsögðu að vera nauðsyn á friðun fiskistofna við Ísland og verndun uppeldisstöðva, sem verið hafa í hættu á undanförnum árum. Jafnhliða stækkun fiskveiðilögsögunnar hefði ríkisstj. að sjálfsögðu átt að heita sér fyrir aukinni verndun fiskistofna og friðun veiðisvæða. Ekkert hefur verið aðhafzt í þeim efnum. Þá hefur ríkisstj. í meira en ár átt í samningum við stjórnir Stóra-Bretlands og Þýzkalands, án þess að nokkuð gangi né reki. Og ef það kynni nú að reynast rétt, sem líklegt er talið, að ríkisstj. hafi ekki í hyggju að senda neinn málsvara til þess að flytja mál Íslendinga fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag, eftir að hann hefur kveðið upp úrskurð um, að hann hafi lögsögu í deilumáli Íslendinga, Breta og Þjóðverja um stærð fiskveiðilögsögunnar, þá er hætt við, að það verði Íslendingum til þvílíks álitshnekkis út um víða veröld, að erfitt verði fyrir að bæta síðar meir.

Alþingi Íslendinga samþykkti aðild að dómstólnum og samþykkt hans, um leið og það samþykkti aðild Íslendinga að Sameinuðu þjóðunum skömmu eftir stríð. Að sjálfsögðu getur þjóðin neitað því, að dómurinn hafi lögsögu í máli, sem hana snertir. Hún getur einnig neitað að hlíta úrskurði dómsins, af því að hann sé byggiður á röngum forsendum. En ef Íslendingar sendu nú engan fulltrúa til þess að flytja mál sitt, þá yrði það í fyrsta skipti í sögu dómsins, sem slíkt gerðist. Það gæti og engu öðru áorkað en að skaða málstað okkar sjálfra, fyrir utan þann álitshnekki, sem fyrr sagði. Málflutningur fyrir dómnum fæli ekki í sér neina viðurkenningu á réttmæti úrskurðar dómsins á sínum tíma, enda hefur íslenzk ríkisstj. mótmælt lögsögu dómsins. Ef við á hinn bóginn trúum á réttmæti málstaðar okkar, eins og við að sjálfsögðu gerum, þá getur málflutningur aldrei orðið til annars en góðs eins. Og jafnvel þótt við þættumst hafa ástæðu til þess að óttast, að dómurinn kynni að verða okkur óhagstæður, þá er málflutningurinn samt gullvægt tækifæri til þess að koma því til leiðar, að dómsuppkvaðning dragist. En öllum er ljóst, að tíminn vinnur með málstað Íslendinga í þessu máli, eins og fjölmargir atburðir á alþjóðavettvangi hafa raunar leitt í ljós.

Það er mjög líklegt, að væntanleg hafréttarráðstefna Sameinuðu þjóðanna geri ályktanir um fiskveiðiréttindi strandríkja, sem gætu haft veruleg áhrif á niðurstöðu dómsins. Ef íslenzka ríkisstj. sendir engan fulltrúa til þess að flytja hinn réttmæta málstað Íslands fyrir dómnum, gæti svo farið, að dómurinn felldi úrskurð sinn jafnvel þegar á þessu ári og þá einungis eftir að hafa hlýtt á málflutning hinna færustu málflutningsmanna af hálfu Breta og Þjóðverja. Ég vil ekki trúa því, fyrr en ég tek á, að íslenzku ráðh. séu svo skammsýnir og ábyrgðarlausir að vilja hætta á það, að Alþjóðadómurinn felli úrskurð í þessu lífshagsmunamáli Íslendinga, jafnvel þegar á þessu ári, eftir að hafa hlýtt á einhliða málflutning af hálfu Breta og Þjóðverja og án þess að hagnýta sér það tækifæri, sem gefst til þess að draga úrskurð dómsins á langinn um 2–3 ár, eins og eflaust væri hægt með hyggilegum málflutningi. En Íslendingar eiga á að skipa einum færasta sérfræðingi veraldar í málum, er lúta að fiskveiðilögsögu, og væri honum vel treystandi til þess að halda á réttmætum málstað okkar gagnvart málstað Breta og Þjóðverja. Hér er sannarlega ekki um neitt smámál að ræða. Hér er um að ræða mál, sem örlög Íslands geta verið undir komin um langan aldur. Hér mun á það reyna, hvers konar menn sitja við völd á Íslandi.

Þá mun ég víkja fáeinum orðum að varnarmálum. Þó að ekkert hafi verið um þau mál rætt að ráði í kosningabaráttunni sumarið 1971, ákvað ríkisstj. samt að stefna að því, að varnarliðið skuli hverfa úr landinu í áföngum og á kjörtímabilinu. Alþfl. er þeirrar skoðunar, að tímabært sé að endurskoða varnarsamninginn frá 1951 og það skipulag á vörnum Íslands og aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu, sem þá var samið um. Þm. Alþfl. hafa flutt till. um, að athugað skuli, hvort hugsanlegt sé, að gegna megi nauðsynlegum eftirlitsstörfum varðandi Norður-Atlantshaf á Íslandi, án þess að hér sé til frambúðar vopnað erlent lið. Alþfl. styður af alhug þá viðleitni, sem á sér stað til minnkunar á vígbúnaði í Evrópu. Hann styður þá stefnu, að friður sé varðveittur og valdajafnvægi haldið með samningum, en ekki hernaðarbandalögum. En meðan valdajafnvægið er byggt á varnarbandalögum, eins og nú á sér stað, telur Alþfl. Íslendinga eiga heima í hópi vestrænna þjóða beggja vegna Atlantshafs og gerir sér ljóst, að Ísland hefur mikilvægu hlutverki að gegna varðandi eftirlitsstörf og verndun friðar og jafnvægis á norðanverðu Atlantshafi. Íslendingar eiga ekki að skorast undan skyldum sínum á þessu sviði sjálfs sín vegna og annarra. En athuga þarf gaumgæfilega, hvort ekki er hægt að gera það með öðrum og brotaminni hætti en átt hefur sér stað undanfarna tvo áratugi, í stað þess að vísa varnarliðinu á brott á þessu kjörtímabili, án þess að nokkuð sé fyrir því hugsað, hvað koma ætti í staðinn. Það væri ábyrgðarleysi og glæframennska.

Sem betur fer hefur ríkisstj. lítið aðhafzt í þessum efnum. En í stað þess að hefjast handa um raunhæfar viðræður við stjórn Bandaríkjanna um hugsanlegar breytingar á störfum þeim, sem nú eru innt af hendi á Keflavíkurflugvelli, hampar ríkisstj. enn ákvæðum stjórnarsáttmálans um brottflutning hersins, á kjörtímabilinu, þótt ekki túlki að vísu allir ráðh. orðalagið með einu og sama móti. Hefur þetta ekki orðið til þess að auka álit ríkisstj. og Íslendinga með öðrum þjóðum, heldur þvert á móti. Þegar við þetta bætist, að öldungis er óvíst, að ákvæði stjórnarsáttmálans um brottflutning varnarliðsins á kjörtímabilinu hafi stuðning meiri hl. þm., er allt háttalag ríkisstj. í þessum efnum enn þá hæpnara.

Þótt ríkisstj. hafi sannarlega ekki haldið vel á landhelgismálinu og varnarmálum þjóðarinnar, þá er það samt allt barnaleikur hjá því, sem hún hefur leitt yfir þjóðina á sviði efnahagsmála. Þegar hún tók við völdum, taldi hún stefnu sína í efnahagsmálum felast í þrennu. Hún kvaðst ætla að tryggja undirstöðuatvinnuvegunum heilbrigðan rekstrargrundvöll. Hún kvaðst ætla að sjá um, að verðbólga yrði hér ekki meiri en í nálægum löndum, og setti sér það mark að bæta raunveruleg kjör launþega um 20% á tveimur árum. Hafa verður í huga, að þau tæplega 2 ár, sem ríkisstj. hefur setið að völdum, hafa þjóðartekjur Íslendinga verið meiri en nokkru sinni fyrr. Raunverulegar þjóðartekjur voru í fyrra um 18% hærri en þær voru 1970. Samt er nú þannig komið, að alger ringulreið ríkir í íslenzkum efnahagsmálum. Það má í raun og veru segja, að landið sé stjórnlaust á því sviði. Engin samstaða virðist hjá stjórnarflokkunum um neina heildarstefnu, hvorki á sviði framleiðslumála, launamála, fjármála ríkisins né peningamála. Allt rekur á reiðanum. Hvort tveggja hefur verið gert til þess að rétta aðþrengdum útflutningsatvinnuvegum hjálparhönd, að lækka gengi krónunnar og greiða uppbætur. Niðurgreiðslur eru ýmist auknar eða minnkaðar.

Fjárlög fyrir þetta ár eru 90% hærri en þau voru 1971. Ríkisstj. setur fram hugmyndir um að skerða kaupgreiðsluvísitöluna, en fellur frá þeim. Hún gerir till. um að fresta grunnkaupshækkunum, jafnvel banna þær um skeið, en fellur frá því. Hún gerir till, um að hækka söluskatt um 3%, en verður að sætta sig við, að hann hækki ekki nema um 2%, en að dregið sé svolítið úr opinberum framkvæmdum og lagt fram fé úr atvinnuleysistryggingasjóði í staðinn. Það eina, sem hún virðist vera nokkurn veginn sammála um, er að halda uppi eyðslu og draga ekki úr útgjöldum hins opinbera. — Þetta er ótrúleg saga, en hún er samt sönn.

Hvernig hefur ríkisstj. tekizt að framkvæma það grundvallaratriði stefnu sinnar í efnahagsmálum að tryggja heilbrigðan rekstrargrundvöll undirstöðuatvinnuveganna? Ýmsar greinar sjávarútvegs eru nú reknar með tapi. Frystihúsin horfa fram á hallarekstur á síðari hluta ársins. Hið sama gildir um bátaflotann. Togaraflotinn hefur verið bundinn í meira en mánuð. Ítrekaðar gengislækkanir krónunnar duga ekki til þess að tryggja útflutningsatvinnuvegunum heilbrigðan rekstrargrundvöll, óðaverðbólgan innanlands hefur orðið yfirsterkari. Afkoma iðnaðarins var mjög erfið á s. l. ári. Forvígismenn íslenzks iðnaðar, bæði einkaiðnaðar og samvinnuiðnaðar, hafa lýst því yfir, að á þessu ári muni iðnaðurinn tapa. Samgöngufyrirtæki tapa. Mörg af opinberum þjónustufyrirtækjum tapa. Verzlunin á í miklum erfiðleikum. Landbúnaðurinn þarf á að halda gífurlegum verðhækkunum til þess að fá risið undir hækkandi kostnaði. Hver treystir sér til að segja, að undirstöðuatvinnuvegunum hafi verið tryggður heilbrigður rekstrargrundvöllur?

Hvernig hefur tekizt að sjá svo um, að verðbólga yrði hér ekki meiri en í nálægum löndum? Þegar ríkisstj. tók við völdum, var vísitala framfærslukostnaðar 155 stig. Eftir þær verðhækkanir, sem urðu 1. marz s. l., verður hún væntanlega um 194 stig eða 25% hærri. Í engu nálægu landi hefur verið um verðhækkanir að ræða, sem hafa farið nokkuð í áttina við þetta. Sem dæmi má nefna, að þegar ríkisstj. kom til valda, kostnaði mjólkurlítrinn 12.60 kr. Nú kostar hann 19.50 kr. Þá kostaði kjötkg. 124.50 kr., nú kostar það 190.40 kr.

En hefur ekki kaupmáttur launanna aukizt um þau 20%, sem lofað var? Auðvitað hafa stórhækkandi þjóðartekjur á undanförnum tveimur árum gert það kleift að auka rauntekjur launþega. Hins vegar er jafnan mjög erfitt að meta raunverulegt gildi kauphækkana í krónum vegna þeirra verðhækkana, sem sigla í kjölfarið. Nú fyrir nokkrum dögum hækkaði almennt kaupgjald í landinu um 12–13%. En það segir ekki alla söguna. Sama dag og kaupið hækkaði, hækkaði verð á landbúnaðarafurðum, sem svaraði rúmlega 3½ vísitölustigi. Enn fremur er vitað, að á næstu mánuðum muni verða mjög verulegar verðhækkanir, sem muni rýra kaupmátt, þess kaupgjalds, sem nú gildir. Þessar verðhækkanir munu enn leiða til nýrra kauphækkana og þannig koll af kolli. Það er fyrst og fremst þessi verðbólguþróun, sem veldur því, að undirstöðuatvinnuvegir Íslendinga munu verða að reikna með tapi á þessu ári. Einhverjar nýjar og róttækar efnahagsráðstafanir verða án efa nauðsynlegar í síðasta lagi á næsta hausti.

Annað eins og þetta hefur aldrei gerzt áður í sögu íslenzkra efnahagsmála. Mörgum stjórnum hefur mistekist viðureign við efnahagserfiðleika og verðbólguvanda, en engin ríkisstj. hefur gefizt eins gersamlega upp við að gera ákveðnar og raunhæfar tilraunir til þess að leysa vandann og þessi ríkisstj. Aldrei fyrr hefur komið eins fljótt í ljós um nokkurt stjórnarsamstarf og þetta, að það er í raun og veru ekki starfhæft. Vanmáttur ríkisstj, til þess að takast á við vandamál kom t. d. mjög skýrt í ljós í sambandi við erfiðleikana vegna náttúruhamfaranna í Vestmannaeyjum. Mér ofbauð að hlusta á hæstv. iðnrh. tala um hörmungarnar í Vestmannaeyjum hér áðan. Hver ætlaði að nota hamfarirnar í Vestmannaeyjum til að koma sér úr klípu? Ríkisstj. eða stjórnarandstaðan? Hver var í klípu? Auðvitað ríkisstj. Og það var hún, sem ætlaði sér að nota afleiðingar náttúruhamfaranna til að koma sér úr klípu.

Hæstv. iðnrh. sagði ósatt um efni þess frv., sem ríkisstj. afhenti 7 manna n., sem Alþ. kaus til þess að gera till. í málinu. Þar voru ekki aðeins ákvæði um, að kaupgjaldshækkuninni 1. marz skyldi frestað, heldur einnig ákvæði um, að grunnkaupshækkanir skyldu bannaðar til septemberloka. Þar var ákvæði um, að kaupgjaldsvísitalan skyldi skert, að söluskattur skyldi hækkaður um 2 % og eignarskattur hækkaður um 30%, en hins vegar engin ákvæði um neina frestun á nokkrum opinberum framkvæmdum. Þingflokkur Alþfl. hefði út af fyrir sig getað fallizt á, að Vestmannaeyjavandinn væri leystur með því einu að fresta kauphækkuninni 1. marz til hausts, enda hefði það fært viðlagasjóði 2000 millj. kr. tekjur, eins og hann að lokum fékk. En þingflokkur Alþfl. neitaði algerlega að fallast auk þessa á bann við grunnkaupshækkunum og hækkun söluskatts og skerðingu kaupgreiðsluvísitölu. Jafnframt kom hins vegar í ljós, að innan stjórnarflokkanna sjálfra var alls ekki samstaða um það frv., sem ríkisstj. hafði afhent 7 manna n. Ríkisstj. hafði sitt eigið lið ekki til stuðnings við till., sem hún þó afhenti þm.

Næstu till. ríkisstj. voru þær, að hækka skyldi söluskatt um 3%, eignarskatt um 30%, útsvör um 10% og nokkur hækkun yrði á aðstöðugjaldi. Í hinni síðari till. ríkisstj. voru enn engar till. um frestun á opinberum framkvæmdum eða framlög úr nokkrum opinberum sjóðum. Þrátt fyrir 10 þús. millj. kr. hækkun á fjárl. á tveimur árum var ríkissjóður ekki talinn aflögufær um eina krónu.

Gagntill. Alþfl. voru þær, að söluskattur skyldi hækka um 2%, eða 1% minna en ríkisstj. lagði til, eignarskattur skyldi hækka um 30%, útsvar um 10%, aðstöðugjald skyldi hækka og opinberum framkvæmdum skyldi frestað sem næmi 450 millj. kr. eða sem svaraði lækkun söluskattsins úr 3% í 2%.

Eftir mikið þóf varð samstaða um þá till. Alþfl., að söluskattur skyldi ekki hækka nema um 2%, en opinberum framkvæmdum skyldi frestað sem næmi 160 millj. kr. og atvinnuleysistryggingasjóður skyldi leggja fram 160 millj. kr., þannig að heildartekjur viðlagasjóðs yrðu nokkru minni en upphaflega var gert ráð fyrir. En aðalatriðið var þó, að söluskatturinn var ekki hækkaður um 3%, eins og ríkisstj. hafði lagt til, heldur aðeins um 2%.

Menn hljóta að spyrja, hvernig í ósköpunum það geti gerzt, að ríkisstj. haldi jafnilla og álappalega á málum og raun ber vitni. Skýringin er sú, að þeir þrír flokkar, sem nú stjórna landinu, kunna ekki að vinna saman, þeir geta ekki unnið saman og að verulegu leyti vilja þeir ekki vinna saman. Auðvitað hafa stjórnmálaflokkar ólík viðhorf til ólíkrar stefnu, ekki sízt í efnahagsmálum. En þegar menn ganga til samstarfs, verða menn að kunna að koma sér saman um ákveðna stefnu og starfa síðan heiðarlega og ærlega að því að framfylgja henni. Þessir þrír flokkar hafa ekki kunnað að koma sér saman um neina stefnu, og það er ekki heldur unnið heiðarlega og ærlega saman. Þess vegna fór fljótt að bera á því, að þetta stjórnarsamstarf mundi ekki verða langlíft. Það hlýtur nú að vera orðið hverju mannsbarni ljóst, að því er í raun og veru lokið. Ríkisstj. er hætt að stjórna landinu, hún lætur reka á reiðanum.

Ég sagði fyrir skömmu hér á hinu háa Alþ., að dauðastríð ríkisstj. væri hafið, og ég vitnaði til fleygra orða Steins Steinarr, að það ynni enginn sitt dauðastríð. Dagar þessarar ríkisstj. hljóta senn að vera taldir. Því fyrr sem hún sjálf eða einhver af stuðningsflokkum hennar gerir sér ljóst, að hún veldur ekki lengur þeim vanda, sem hún tókst á hendur, því betra fyrir þjóðarheildina. Þessi ríkisstj. á ekki skilið traust, hvorki þings né þjóðar. Þess vegna munu þm. Alþfl. greiða atkv. með till. um vantraust á ríkisstj.