05.03.1973
Sameinað þing: 53. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2306 í B-deild Alþingistíðinda. (1789)

136. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Á þessum örfáu mínútum, sem ég hef til umráða, mun ég víkja að tveimur atriðum, í fyrsta lagi upphlaupi nokkurra flokkræðismanna í SF í Reykjavík, því að nauðsynlegt er, að almenningi sé gert ljóst, hvað hér er á ferðum, og í öðru lagi afstöðu minni til þeirrar þáltill., sem hér liggur fyrir um vantraust á ríkisstj.

Það er ekkert launungarmál, að miklar erjur hafa átt sér stað um nokkurt skeið í SF, og er síðasta dæmið tilræði 40 manna í s. l. viku við SF í Reykjavík, þar sem reynt var með einfaldri fundarsamþykkt á félagsfundi að vísa formanni úr félaginu og ógilda þannig allsherjaratkvgr. um stjórnarkjör, sem stóð í 2 daga í okt. s. l., og gilti sú kosning til eins árs. Þetta upphlaup er hrein lögleysa, og er ég að sjálfsögðu enn félagi í SF og formaður þess. Ég vil leyfa mér að vitna í yfirlýsingu stjórnar SF í Reykjavík. Þar segir:

„Stjórn SF í Reykjavík telur brottrekstur Bjarna Guðnasonar úr SF stangast á við lög félagsins og ekki vera í samræmi við grundvallarhugsjón SF. Stjórnin lítur því svo á, að Bjarni Guðnason sé eftir sem áður formaður SF í Reykjavík. Jafnframt lýsir stjórn SF yfir fullu trausti á Bjarna Guðnasyni og telur hann hafa starfað á Alþ. í samræmi við stefnu SF.“

Ég vil enn leyfa mér að vitna í yfirlýsingu stjórnmálanefndar SF í Reykjavík, og þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Fundur í stjórn SF í Reykjavík, haldinn 3. marz 1973, lýsir furðu sinni á framkomu og klofningsstarfi formanns heildarsamtakanna á fundi SF þann 1. marz s. l., þar sem gerð var tilraun til að víkja formanni SF í Reykjavík, Bjarna Guðnasyni, úr félaginu í Reykjavík. Fundurinn fordæmir þetta tilræði við Samtökin, sem voru stofnuð til að berjast gegn flokksræði og til að sameina alla einlæga vinstri menn í landinu:

Ástæðan fyrir þessu hernaðarástandi er sú, að 4 þm. SF undir forustu Björns Jónssonar, forseta Alþýðusambands Íslands, knúðu alla ríkisstj. til þess að fella gengi íslenzku krónunnar í des. s. l. og sviku þar með yfirlýsta stefnu SF og stjórnarsáttmálann. Það mætti spyrja Björn Jónsson, hvort þetta hafi verið gert að kröfu verkalýðshreyfingarinnar og hvenær gengisfelling hafi orðið eitt helzta baráttumál hennar. Í Reykjavíkurfélaginu voru hins vegar margir félagar, sem stóðu vörð um baráttumál Samtakanna og neituðu með öllu að taka undir gengisfellingarkröfu forustumanna SF. Af þessum sökum sagði ég mig úr þingflokknum, þó að það kæmi einnig til ágreiningur í sameiningarmálinu, þar sem ég vildi vinna að sameiningunni á málefnalegum grunni, en forustumenn SF lögð allt kapp á tryggingarframboð með Alþfl. Síðan hefur ekki aðförum linnt að Reykjavíkurfélaginu og málgagni þess.

Þetta síðasta upphlaup er vissulega alvarlegs eðlis, þar sem flokksræði er skefjalaust beitt af hálfu forustu í flokki, sem ætlaði að taka upp ný vinnubrögð og berjast gegn flokksræði. En það hefur líka sínar spaugilegu hliðar, að þetta skuli gerast í flokki, sem helgaði sig sameiningu vinstri manna. Hinn andheiti sameiningarmaður vinstri manna er nú í reynd orðinn þriggja flokka kljúfur. Hefur hann á gamals aldri reist sér veglegan pólitískan minnisvarða. Þessir 40 upphlaupsmenn hafa unnið sér til óhelgi, en reykvískir kjósendur og aðrir landsmenn munu gera sér fulla grein fyrir því, hvað er hér á ferðum, og þeirra verður dómurinn, áður en lýkur.

Hins vegar erum við í Reykjavíkurfélaginu staðráðnir í að slá skjaldborg um stefnumál SF, svo sem sameiningu vinstri manna, baráttu gegn flokksræði og samtryggingarkerfi gömlu flokkanna. Jafnrétti er okkar einkunnarorð. Hér skal og minnzt á atriði, sem vinstri menn verða að hafa í huga, þótt þeir láti oft hægri mönnum eftir að ræða það. Hér á ég við heiðarleik í opinberu lífi og fjármálum. Ég hef aldrei getað sætt mig við það, að ráðh. skuli láta almenning að heita má gefa sér lúxusbíla, sem kosta á aðra millj., þegar þeir setjast í ráðherrastólana. Þetta er ekkert úrslitaatriði fyrir þjóðarbúið, en þó mikilvægt fyrir heiðarleik í opinberu lífi, því að eftir höfðinu dansa limirnir. Það mætti fleira nefna, en það liggur í augum uppi, að það eru oft smáatriðin, sem skapa trúnaðartraustið.

Núv. stjórn var sett á laggirnar eftir frægan kosningasigur vinstri manna í síðustu alþingiskosningum. Við hana voru bundnar miklar vonir, ekki sízt þar sem hún leysti af hólmi 12 ára viðreisn. Sú stjórn var tregðustjórn, sem taldi kyrrstöðu í utanríkismálum farsæla, felldi fjórum sinnum gengi íslenzku krónunnar, þegar á bjátaði í efnahagsmálum, og rauf gerða kjarasamninga með vísitöluráni. Nú skyldu málin tekin öðrum tökum og betri.

Þegar meta skal starf ríkisstj., liggur beint við að leggja til grundvallar málefnasamning hennar. Hverju hefur hún komið í verk? Hvað hefur hún vanrækt? Hvar hefur henni mistekizt? Hér er vitaskuld ókleift að ræða þessi mál öll til hlítar, og menn verða að hafa í huga, að það var aldrei ætlunin að framkvæma öll ákvæði málefnasamningsins á 1½ ári. Í málefnasamningnum eru boðaðar stórstígar umbætur á flestum sviðum þjóðlífsins. Í sumum greinum hefur verið náð settu marki, í öðrum greinum er unnið að framkvæmd þeirra. Ég vil sérstaklega nefna, að stefnan í utanríkismálum er ótvírætt sjálfstæðari og einbeittari en á tímum viðreisnar, og þessi ríkisstj. hefur haft forgöngu um útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 50 mílur og farið fram á endurskoðun varnarsamningsins við Bandaríkin. Þessi höfuðmál eru enn ekki útkljáð, hið síðara efalaust komið mjög skammt á veg. Vandasömustu málaflokkarnir eru án efa fjármálin, efnahagsmálin og atvinnumálin, og segir sig því sjálft, að vegur ríkisstj. fer mjög eftir því, hvernig til hefur tekizt í þeim efnum. En þar hefur sigið mjög á ógæfuhliðina. Þarf ekki annað en vitna í málefnasamninginn til að sýna, að þar hefur ríkisstj. lent á villigötum. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. leggur ríka áherzlu á, að takast megi að koma í veg fyrir þá háskalegu verðlagsþróun, sem átt hefur sér stað í efnahagsmálum undanfarin ár og leitt hefur til síendurtekinna gengisfellinga og óðaverðbólgu. Hún mun leitast við að tryggja, að hækkun verðlags hér á landi verði ekki meiri en í helztu nágranna- og viðskiptalöndum.“ Og enn fremur: „Ríkisstj. mun ekki beita gengislækkun gegn þeim vanda, sem við er að glíma í efnahagsmálum: Og loks : „Að gagngerð athugun fari fram á núgildandi verðlagningu á sem flestum sviðum í því skyni að lækka verðlag eða hindra verðlagshækkanir.“

Af þessari upptalningu er sýnt, að fjárhagsmálin, efnahagsmálin og verðlagsmálin hafa losnað úr böndum. Á þessum stjórnarárum hefur verið góðæri í landinu, og verðmæti útflutningsafurða hefur stöðugt aukizt eða um 22% á s. l. tveimur árum. Næg atvinna hefur verið í landinu. Í stað þess að hafa gát á útgjöldum hins opinbera og sporna gegn þenslu í þjóðfélaginu, hafa fjárl. tekið stórstökk frá 11 milljörðum 1970 upp í 22 milljarða 1972. Þótt töluvert af þessu sé arfur frá viðreisn og stafi af nýrri verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, kann þetta ekki góðri lukku að stýra. Fjárlög eiga að hækka árlega í samræmi við þjóðartekjur, en hér hafa þau tvöfaldazt á þessum stutta tíma. Fjárfestingarútgjöld hins opinbera hafa farið úr hófi fram, og skort hefur sparsemi og ráðdeildarsemi. Ríkisstj. hefur staðið að þremur gengisfellingum. En vart verður henni legið á hálsi fyrir þá fyrstu og síðustu, þar komu til ytri orsakir. En gengisfellingin um 10.7% í des. var nánast ófyrirgefanlegt glapræði, hvernig sem á er litið. Með henni klippti hún á þann streng trúnaðar, sem ríkti á milli stjórnarinnar og vinstri manna í landinu, sýndi, að hún kunni engin önnur ráð til lausnar efnahagsvanda en hið gamla bjargræði viðreisnar. Þar með hafði hún í raun gefizt upp við að vera vinstri stjórn og var orðin ný gengisfellingarstjórn. Og að sjálfsögðu fylgdu engar hliðarráðstafanir. Vandanum var ýtt á undan sér, ekki leystur, heldur magnaður. Gengisfelling er afleiðing dýrtíðar og leiðir til enn meiri dýrtíðar. Hún er enn forkastanlegri, þegar hún er sprottin af heimatilbúnum vanda í góðæri. :Með hinum háu fjárl. og gengisfellingunni í des. stuðlaði ríkisstj. sjálf að þeirri háskalegu verðlagsþróun, sem nú á sér stað í landinu.

Efnahagskerfið sjálft virðist kalla árvisst á gengisfellingar, en við því er ekki reynt að hagga. Þess vegna virðist koma í sama stað niður, hvort hér situr að völdum hægri stjórn eða vinstri. Þegar rekstrargrundvöllur fiskiðnaðarins er brostinn að sögn eigenda, verður ríkissjóður eða almenningur að hlaupa stöðugt undir bagga. Aldrei virðist hvarfla að ríkisvaldinu að gera gagnkröfur um endurskipulagningu fiskvinnslustöðva, og svipuðu máli gegnir um togaraflotann, sem nú hefur legið margar vikur bundinn við bryggjur. Það virðist nokkurt öfugmæli, að hið opinbera láni 90% við kaup nýrra skuttogara og skuli síðan þurfa að greiða að einhverju leyti rekstrarkostnað þeirra. Hér er eitthvað að í meira lagi. Það dugir ekki lengur að grípa til deyfilyfja. Hér verður að grípa til hnífsins og skera á meinið.

Í umr. utan dagskrár á Alþ. 22. febr. komst ég svo að orði, með leyfi hæstv. forseta: „Þegar litið er á málin í heild, gengisfellinguna í des., gengisfellinguna í s. l. viku og launahækkanir fram undan um næstu mánaðamót, þar sem laun hækka milli 12 og 13.7%, er ljóst, að fram undan eru einhverjar mestu víxlhækkanir kaupgjalds og verðlags allt frá stríðslokum. Það má ætla, að framfærsluvísitalan hækki um hvorki meira né minna en 20% frá 1. nóv. 1972 til jafnlengdar 1973, og ég þarf ekki að tíunda það fyrir þingheimi þær afleiðingar, sem slík verðlagsþróun hefur fyrir hina margumtöluðu og þýðingarmiklu útflutningsatvinnuvegi og jafnframt fyrir allt efnahagslífið. Ég á t. d. bágt með að sjá, hvernig íslenzkur iðnaður og einkanlega sá hluti hans, sem ekki er samkeppnisfær á erlendum mörkuðum, komi til með að standa undir þeim rekstrarkostnaði, sem af þessu leiðir, og hið sama gildir að sjálfsögðu um aðrar atvinnugreinar. Vil ég t. d. minna á hækkandi rekstrarvörur bænda o. s. frv. Hið ömurlega er, að þegar allar þessar verðhækkanir eru komnar inn í verðlagið, má ætla, að útflutningsatvinnuvegirnir standi það illa að vígi, að gengisfellingaröflin knýi þá fram enn eina gengisfellingu.

Íslenzkur almenningur hefur nú fengið smjörþefinn af þessum hækkunum með hækkun búvöru 1. marz, þar sem m. a. nýmjólk hækkaði um tæp 44% og aðrar algengustu búvörur eitthvað minna. Kemur þetta að sjálfsögðu harkalega niður, einkanlega á barnmörgum fjölskyldum. Og þessar hækkanir verða reglulegar á þriggja mánaða fresti, þótt misjafnar verði. Óðaverðbólgan er skollin á, og ríkisstj. virðist láta reka á reiðanum. Þá er aðeins eftir að skerða kaupgreiðsluvísitöluna, og þá höfum við nýja viðreisn.

Ríkisstj, hefur m. ö. o. ekki staðið við sum meginstefnuskráratriði í stjórnarsamningnum. Hún hefur fellt gengið. Hún ætlaði að koma í veg fyrir háskalega verðlagsþróun, sem leitt hefur til síendurtekinna gengisfellinga og óðaverðbólgu. En samfara þessu hefur verið lögð of þung skattabyrði á herðar lágtekju- og miðlungstekjufólki. Skattalögunum verður að breyta. Furðumargir kunna lag á því að koma sér undan því að greiða eðlileg, opinber gjöld til almannaþarfa, og þá má spyrja: Hvers konar linka er það hjá vinstri stjórn að hafa ekki tekið þessi mál miklu fastari tökum? Loks vil ég minna á, að það ákvæði stjórnarsamningsins að gera ráðstafanir til að lækka óhóflegan húsnæðiskostnað almennings, sem fólk stynur nú undir, — og ætlunin var að hafa forgöngu um, að byggt yrði leiguhúsnæði, er lyti félagslegri stjórn, — hefur verið vanrækt, en einmitt þetta atriði hlýtur að vera meginverkefni vinstri stjórnarinnar.

Fáir munu hafa verið ákafari stuðningsmenn þessarar ríkisstj., fáir munu hafa átt meiri þátt í myndun hennar en ég. Því er ekki að leyna, að félagsleg vinnubrögð ráðh. SF eru með þeim hætti, að það er ábyrgðarhluti að styðja slíka menn til setu í ráðherrastólum. Þeir eru og lélegir ráðh., og hlutdeild þeirra í því að grafa undan stjórninni með gengisfellingarkröfu sinni er ekki lítil. Að öllu athuguðu styð ég aðeins ríkisstj, í þeim málum, sem eru í samræmi við málefnasamning hennar og stefnuskrá þeirra samtaka, sem ég er í, en greiði vitaskuld atkv. gegn þeim málum, sem brjóta í bága við þau. Ég er staðráðinn í að standa við þau fyrirheit, sem ég gaf kjósendum mínum í alþingiskosningunum, — hvort sem það snertir SF í Reykjavík, en allir vita, til hvaða átaka það hefur leitt í því félagi, — og þetta gildir einnig um þessa ríkisstj.

Vantrauststill. sú, sem hér er til umr., er borin fram af flokki, sem engin jákvæð úrræði hefur sbr. feril hans í fyrri ríkisstj. Till. er því tóm sýndarmennska og því ekki ástæða til þess að taka hana alvarlega, enda virðist mér Sjálfstfl. flytja þetta vantraust á núv. ríkisstj. vegna svipaðra eða sömu vinnubragða og úrlausna í efnahagsmálum, þ, e. gengisfellinga og verðbólgu, sem hann sjálfur beitti óspart í viðreisnarstjórninni. Ég mun því sitja hjá við atkvgr. um þessa vantrauststill.