30.10.1972
Efri deild: 7. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í B-deild Alþingistíðinda. (179)

29. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Flm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Á síðasta þingi lagði ég ásamt hv. þm. Páll Þorsteinssyni og Jóni Helgasyni fram frv. til l. um sama efni og það, sem nú birtist á 29. þskj. um breyt. á l. um rannsóknir í þágu atvinnuveganna. Frv. fór til sjútvn. og var sent út til umsagnar. Umsagnir bárust nokkuð seint, en þær voru allar jákvæðar. Mælt var þó með nokkrum breytingum á upprunalegu frv. Við flm. féllumst á að gera þær breytingar, og var málið þannig afgreitt frá hv. sjútvn. til hv. d. í lok þings. En það fékk ekki framgang vegna tímaleysis.

Nú leggjum við fram þetta sama frv., eins og það breyttist í meðferð hv. sjútvn., og gerum okkur þá jafnframt vonir um, að það fái fljóta afgreiðslu. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um þetta frv. Ég hef áður flutt það mál hér í hv. d. Ég vil aðeins leggja áherzlu á það, að ég hygg, að mönnum sé nú jafnvel enn augljósari en áður nauðsyn þess, að þjónusta sú, sem hér um ræðir, flytjist út í dreifbýlið, í landshlutana. Mönnum er vel kunnugt um þær miklu kröfur, sem gerðar eru til sjávarútvegsins og þær stórkostlegu endurbætur, sem fram munu fara á frystihúsum á næstunni. Menn þekkja einnig þær kröfur, sem verða gerðar um hollustuhætti og eftirlit með þeirri mikilvægu framleiðslu, sem þar á sér stað. Það er vafalaust og hygg ég, að enginn hreyfi þar mótmælum, að til þess að vel megi takast, verður eftirlit með þessari framleiðslu að aukast og ekki siður leiðbeiningastarfsemi og þjónusta hvers konar við þá, sem í þessari framleiðslu eiga.

Á einum stað á landinu hefur brautin verið rudd með samkomulagi fiskframleiðenda og Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins fyrir hönd ríkisvaldsins. Það er í Vestmannaeyjum. Eins og frá hefur verið skýrt í fjölmiðlum hefur þegar verið sett á fót þar rannsóknarstofa með samvinnu þessara aðila. Hygg ég, að fiskiðnaðurinn hafi greitt stofnkostnaðinn, en hið opinbera greiði reksturskostnað. Stöðin er rekin af Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og sérfræðingar, sem þar starfa, eru henni tengdir.

Mér sýnist þarna um svo athyglisverða framkvæmd að ræða, að ástæða sé til þess, að löggjafarvaldið lýsti yfir þeim vilja sínum, að svipað sé gert á fleiri stöðum í þessu landi.

Í upprunalegu frv. höfðum við flm. gert ráð fyrir því, að tilgreindir yrðu ákveðnir staðir, þar sem slíkar stöðvar skyldu settar á fót í fyrstu atrennu. Í umsögnum, sem bárust, var talið, að slíkt þyrfti nánari athugunar við og væri eðlilegra, að það væri á valdi sjútvrh. Á þetta höfum við fallizt, en ég vil lýsa þeirri skoðun minni, að ég tel lágmark, að ein slík stöð komi upp í landsfjórðungunum, e.t.v. á Vesturlandi, þó að þeir hafi nú betri aðgang en aðrir að Reykjavík, en örugglega á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum.

Ég vil einnig vekja athygli á þeirri staðreynd, að svipaðar kröfur um hollustuhætti eru og munu vera vaxandi í ýmsum öðrum matvælaiðnaði. Svo er í sambandi við sláturhúsin, sem eru nú óðum endurbyggð. Svo er einnig í sambandi við mjólkurvinnslustöðvar og yfirleitt allan annan matvælaíðnað. Ég tel vafalaust, að meiri þjónusta við þessar atvinnugreinar verði nauðsynleg í náinni framtíð. Því er í frv. jafnframt vakin athygli á því, og raunar lögð á það áherzla, að stöðvar þessar veíti einnig öðrum matvælaiðnaði þjónustu eins og þær geta og þörf krefur.

Loks vil ég geta þess, sem raunar ætti að vera augljóst, að jafnvel lítill þáttur, sem þessi, með einum til tveimur sérfræðingum og lítilli rannsóknarstofu getur haft hin mikilvægustu áhrif í átt til góðrar byggðaþróunar á litlum stöðum úti um land. Það er oft ótrúlegt, hve slíkur jafnvel lítill kjarni getur skapað í kringum sig.

Á Ísafirði er nú kominn menntaskóli, sem vex og dafnar vel. Stofa sem þessi ætti að mínu viti að vera í tengslum við þennan skóla. Sérfræðingar gætu veitt þar kennslu og nemendur fengið nokkra þjálfun. Á slíkri rannsóknarstofu gætu þeir kynnzt gæðaeftirliti, þessum mikilvæga þætti nútíma atvinnuvegar.

Ég hef með frv. í þessari d. hreyft þeirri hugmynd, að fiskvinnsluskóli yrði stofnaður á Ísafirði. Það er ljóst, að þegar slík rannsóknarstofa er komin, er aðstaða öll til slíkrar kennslu stórum betri. Þannig getur þetta þróazt stig af stigi og orðið ekki lítill þáttur í heilbrigðri byggðaþróun. M.a. af þessari ástæðu leyfi ég mér að vona, að mál þetta fái góða og skjóta afgreiðslu í hv. d., og leyfi mér að leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. og sjútvn.