05.03.1973
Sameinað þing: 53. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2310 í B-deild Alþingistíðinda. (1790)

136. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Fádæma smekklaus fannst mér ræða hæstv. iðnrh., að vera að blanda hörmungunum í Vestmannaeyjum inn í umr. um till., sem komin var fram í þinginu, áður en þær hörmungar hófust. Það hefur verið upplýst hér, og ég get endurtekið það, að það voru ekki stjórnarandstæðingar, sem réðu því, hvaða till. voru samþykktar til hjálpar Vestmanneyingum. Það var eins og áður, það var stjórnarliðið, sem var klofið. Hverjum dettur í hug, að Magnús Kjartansson væri svo viðkvæmur fyrir afstöðu okkar stjórnarandstæðinga, að ráðh. færu að hætta við að bera fram frv. sitt vegna þess, að við værum á móti því? Kemur ekki til mála. En það voru, eins og ég tók fram áður, þeirra eigin menn, sem brugðust.

Ráðh. talaði um erlenda dáta og herstöðvar. Hvers vegna eru erlendir dátar á Íslandi í dag? Það er vegna þess, að vinstri stjórnin vill hafa þá. Það væru engir erlendir hermenn hér í dag, ef vinstri stjórnin hefði sagt upp samningunum, þegar hún komst til valda. Við erum ekki fyrir austan járntjald. Ég las það í Þjóðviljanum fyrir 2–3 dögum, held ég, að Rússar hafa heimild til að kúga sína bandalagsmenn. En það veit allur landslýður, að ef ríkisstj. Íslands segir upp herverndarsamningnum, þá fara hermennirnir á tilskildum tíma.

Við höfum erlendar herstöðvar. Ég var staddur úti í Finnlandi nokkrum árum eftir stríð. Húsnæðismál bárust í tal. Þar voru öll loftvarnarbyrgi höfuðborgarinnar full af flóttafólki, af Finnum. Það flóttafólk var ekki að flýja náttúruhörmungar, náttúruhamfarir. Nei, það voru nágrannar þeirra, Rússarnir, sem höfðu flæmt þá frá sínu aðsetri til þess að setja upp — ekki erlendar herstöðvar, heldur herstöðvar á fyrrverandi finnsku landi, sem nú var orðið rússneskt. Kyrjálaeiðið og Viborg voru ein glæsilegustu héruð Finnlands. Það er nú rússneskt land, og þar eru herstöðvarnar. Þær eru ekki erlendar. Þar er ekki hægt að segja upp og láta herinn fara.

Ég sagði ykkur, hvernig stóð á því, að frv. ríkisstj. um hjálpina til Vestmannaeyja var ekki samþ. eins og það kom fram. Það var vegna þeirra eigin manna, en ekki stjórnarandstöðunnar. Hið sama er að segja um herinn og herstöðina. Þeir geta aldrei orðið samstæðir, þessir menn. Það er engin samstaða um neitt, og það er kannske fróðlegt vegna árása hæstv. iðnrh. á okkur stjórnarandstæðinga að gera sér svolitla grein fyrir því, hvernig þeim ríkisstj. hefur farnazt á Íslandi, sem kommúnistar hafa átt aðild að, — farnazt t. d. á sviði samvinnu og efnahagsmála. Efnahagsmálin, traust stjórn efnahagsmálanna er að sjálfsögðu alger forsenda þess, að þróun félagsmála, svo sem trygginga- og heilbrigðismála, húsnæðis- og atvinnumála, geti orðið með eðlilegum hætti og varanleg. Hver er nú efnahagsmálasaga þeirra ríkisstj., sem kommúnistar hafa átt aðild að? Þrisvar hafa kommúnistar verið í ríkisstj. á Íslandi undanfarna þrjá áratugi, í nýsköpunarstjórninni, sem tók við af utanþingsstjórninni 1944 og sagði af sér 1946, í gömlu vinstri stjórninni, sem var mynduð eftir kosningar 1956 og sagði af sér í árslok 1958, og í núv. vinstri stjórn, sem mynduð var í júlí 1971 og hefur ekki enn sagt af sér.

Nýsköpunarstjórnin var mynduð við alveg sérstakar aðstæður. Stríðsgróðinn var fyrir hendi í erlendum bönkum. En þegar hann var fullnýttur og erfiðleikar blöstu við, var ekki lengur samstaða um neitt. Þá hlupu kommúnistar úr stjórninni. En auðvitað var öðrum annarlegum ástæðum borið við.

Vinstristjórnarárin frá 1956–1958 eru mörgum í fersku minni enn í dag. Höft, ráðleysi, óstjórn einkenndu þau ár. Gengi íslenzkrar krónu voru svo mörg, að vart varð tölu á komið, gat m. a. byggzt á því, hvort það var þorskur eða langa, sem greiða átti. Eftir 2½ ár gafst stjórnin upp á sögufrægan máta. Þáv. forsrh. lýsti því yfir, að þjóðin væri stödd á barmi hyldýpis, engin samstaða, engin eining um úrræði til bjargar. Þá voru erlend herskip í íslenzkri landhelgi, og þó var hlaupizt frá ábyrgðinni.

Nú er komið allmikið á annað ár núv. ríkisstjórnartímabils, þriðju ríkisstj., sem kommúnistar taka þátt í. Hvernig er nú ástandið? Við blasir algert efnahagsöngþveiti, endurteknar gengislækkanir og óðaverðbólga, sem ekki á sinn líka, jafnvel verri en 1958, fjárlög úr öllu hófi og ríkisbáknið þanið út með viku hverri. Fáir eru nú svo svartsýnir að líta svo á, að ríkisstj. muni lafa út kjörtímabilið. Hvað má af þessu ráða? 1) Ríkisstj. með þátttöku kommúnista verður skammlíf ríkisstj. Sífellt ósamkomulag og sundurþykkja. 2) Ríkisstj. með þátttöku kommúnista kemur efnahagskerfinu á kaldan klaka á skömmum tíma.

Hvað er hér að gerast, hvaða árátta er þetta, að stefna undirstöðu eðlilegrar þróunar og velferðar í voða? Ég veit, að þetta er ekki liður í þeirri yfirlýstu stefnu kommúnista, að það beri að brjóta niður efnahagskerfi borgaralegs þjóðfélags í þeim tilgangi að ryðja sósíalismanum braut. Nei, það er ekki það. Hér er um eitthvað skelfilegt ólán að ræða, einhverja aðra ógæfu, sem við verðum að losna undan hið allra fyrsta.

Við sjálfstæðismenn vantreystum þessari ríkisstj. til þess að glíma við þau erfiðu viðfangsefni, sem fram undan eru, vandamál vegna náttúruhamfara, vandamál vegna aðfara erlendra aðila að lífshagsmunum okkar. Við þörfnumst í dag styrkrar, samhentrar stjórnar til þess að varðveita þau lífsgæði, er við höfum aflað með ærnu erfiði. Þess vegna vonast ég til, að till. sú, sem hér er til umr., verði samþykkt.