05.03.1973
Sameinað þing: 53. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2322 í B-deild Alþingistíðinda. (1794)

136. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Líklega hefur aldrei verið jafnófyrirleitin og ábyrgðarlaus stjórnarandstaða á Íslandi og sú, sem nú er. Ég átti sæti í vinstri stjórninni á árunum 1956–1958 og heyrði þá eins og fleiri sitthvað lítið fagurt úr stjórnarandstöðuhorni íhaldsins. En stjórnarandstaðan þá var hreinasti barnaleikur hjá því, sem hún er nú, og á ég þá sérstaklega við áróður stjórnarandstöðublaðanna. Nú eru líka komnir nýir herrar að blöðunum, menn með nýjar siðareglur, ef siðareglur skyldi kalla. Nú eru það siðareglur Eyjólfs Konráðs Jónssonar, ritstjóra Morgunblaðsins, sem látnar eru gilda í áróðursskrifum stjórnarandstöðunnar. Sjálfstfl. flytur nú till. um vantraust á ríkisstj. og styður hana með sams konar málflutningi og að undanförnu hefur birzt í Morgunblaðinu. Það er því ekki úr vegi að taka þennan málflutning til sérstakrar athugunar í tveimur þeim málaflokkum, sem nú eru þýðingarmestir í íslenzkum stjórnmálum, þar á ég við landhelgis- og efnahagsmálin.

Landhelgismálið er tvímælalaust stærsta mál þjóðarinnar í dag. Stefnan í því máli var mörkuð með einróma samþykkt á Alþ. 15. febr. 1972. Þá var útfærslan í 50 mílur ákveðin miðað við 1. sept. 1972 og einnig ákveðið að segja upp landhelgissamningunum við Breta og Vestur-Þjóðverja frá árinu 1961. Samstaða átti að vera um stefnuna í landhelgismálinu. En hver hefur verið afstaða Morgunblaðsins undanfarna mánuði og þá fyrst og fremst Eyjólfs Konráðs Jónssonar, aðalritstjóra Morgunblaðsins, sem augljóslega hefur skrifað þar mest um málið? Dag eftir dag hefur hann afflutt yfirlýsta stefnu Íslendinga í málinu. Hann hefur krafizt þess, að Hagdómstóllinn yrði látinn dæma um málið, þvert ofan í markaða stefnu. Og hann hefur hvað eftir annað ráðizt sérstaklega á þá fulltrúa Íslendinga, sem staðið hafa í samningaviðræðum við Breta um bráðabirgðalausn á málinu. Á sama tíma og samningamenn Íslands í viðræðunum við Breta og Vestur-Þjóðverja hafa lagt áherzlu á, að öll íslenzka þjóðin væri einhuga í landhelgismálinu og stæði fast á mótaðri stefnu, hefur Morgunblaðið þrástagazt á ósamkomulagi í ríkisstj. um afstöðu í landhelgismálinu og fullyrt, að ekki væri hægt að leysa deiluna við Breta og Vestur-Þjóðverja vegna djúpstæðs ágreinings í ríkisstj. Hér skulu tilfærð orðrétt nokkur dæmi um þessi skrif Morgunblaðsins, aðallega frá því í októbermánuði og nóvembermánuði s. l., en þá fóru einmitt fram hinar þýðingarmestu viðræður við Breta hér í Rvík um landhelgism. 21. okt. skrifar Ey. Kon. Jónsson í Rvíkurpistil M.bl. orðrétt.:

„En vegna þessa djúpstæða ágreinings í ríkisstj. og persónulegs metnaðar einstakra ráðherra verður nú enn að bíða og bíða, og enginn veit, hvort unnt verður að setja niður deiluna við Breta og Vestur-Þjóðverja, einfaldlega vegna þess, að ekkert er gert til þess að komast til botns í því máli. Ráðherrarnir þora varla að ræða málin sín á milli af ótta við, að upp úr sjóði. Meðan þessu fer fram, ríkir geigvænlegt hættuástand úti á miðunum, eins og forsrh. lýsti vel í þingræðu á Alþ. s. l. miðvikudag, og stórslys geta orðið hvenær sem er. Það hlýtur að vera krafa allrar íslenzku þjóðarinnar, að ráðh. geri það upp við sig, hvort þeir ætla að standa saman í landhelgismálinu eða ekki.“

Þetta var boðskapur Morgunblaðsins 21. okt. 1972, þegar Íslendingar stóðu í miðri samningalotu við Breta og um sama leyti og brezkir landhelgisbrjótar reyndu sem ákafast að sigla á íslenzk varðskip. Auðvitað eru allar sögur Eyjólfs Konráðs í Morgunblaðinu um ósamkomulag ríkisstj. í landhelgismálinu algjör uppspuni. Ríkisstj. hefur verið sammála um öll tilboð til Breta til lausnar á deilunni og staðið saman um öll svör við tilboðum þeirra. Eyjólfi Konráð og þeim Morgunblaðsmönnum hefur að sjálfsögðu verið að fullu ljóst, hve háskaleg þessi skrif hafa verið fyrir málstað okkar Íslendinga. Það kemur m. a. skýrt fram í leiðara Morgunblaðsins 19. okt. en þar segir þá um það atriði orðrétt á þessa leið:

„Það er svo annað mál, að þetta opinbera rifrildi milli ráðherra um stöðu landhelgismálsins er afar óheppilegt. Það gefur andstæðingum okkar til kynna, að misklíð sé á ferðinni innan ríkisstj. í þeirri örlagaríku deilu, sem við nú stöndum í. Getur það haft slæm áhrif á samningsstöðu okkar, ef viðsemjendur eru þeirrar skoðunar, að þjóðareining sé að rofna.“

Já, Eyjólfur Konráð Jónsson vissi vel, að það gæti haft slæm áhrif á samningsstöðu okkar, ef viðsemjendur yrðu þeirrar skoðunar, að þjóðareining væri að rofna. Í því ljósi ber að skoða skrif hans, þar sem hann fullyrðir gegn betri vitund, að djúpstæður ágreiningur sé í ríkisstj. um málið, allt sé að sjóða upp úr milli ráðherranna og öll þjóðin krefjist þess, að ráðherrarnir komi sér saman í málinu eða víki, þar sem hann fullyrðir, að ekki sé hægt að leysa deiluna við Breta vegna ágreinings í ríkisstj.

Bretar hafa vissulega veitt þessum og öðrum hliðstæðum skrifum Morgunblaðsins eftirtekt. Í brezkum blöðum fóru að birtast greinar um, að raunverulega stæði deilan um fiskveiðiréttindi Breta við Ísland fyrst og fremst við nokkra harðlínumenn og þá helzt við sjútvrh. Bretar fóru að gæla við þá fullyrðingu Morgunblaðsins, að á Íslandi skiptust menn í tvo andstæða hópa í landhelgismálinu: Þá, sem væru, samkvæmt orðalagi Morgunblaðsins, hófsamir og vildu samninga, og hina, sem vildu ekki neina samninga. 22. okt. orðaði Morgunblaðið þetta þannig í leiðara sínum: „Þess vegna vill Morgunblaðið taka undir þau sjónarmið hófsamra afla innan ríkisstj., að fara ber að öllu með varúð og gát.“ Og 4. nóv. skrifaði Eyjólfur Konráð Jónsson í Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins orðrétt: „Þessi staða innan ríkisstj. veldur því, að eigi samningar að takast, verður stjórnarandstaðan og þá fyrst og fremst Sjálfstfl. að taka þar nokkra forustu og veita hinum hófsamari öflum í ríkisstj. þann stuðning, sem til þess þarf, að þau geti gert upp hug sinn.“

Er nú nema von, að Bretar með alla sína þrjósku bíði enn um sinn og haldi áfram landhelgisbrotum sínum, bíði betri samningamanna, bíði eftir því, að hinir hófsömu og samningaviljugu nái yfirtökunum samkvæmt kenningum Morgunblaðsins? Bretar vita fullvel, að Morgunblaðið er blað Sjálfstfl., stærsta stjórnmálaflokksins í landinu. Þeim er því nokkur vorkunn að trúa þessu og vilja af þeim ástæðum bíða enn og sjá, hvað gerist. Ég hef sagt áður og m. a. endurtekið í útvarpsumræðum, að ég tel, að þessi skrif Morgunblaðsins séu ekki í neinu samræmi við almenna afstöðu stuðningsmanna Sjálfstfl. til landhelgismálsins. Þessi skrif Morgunblaðsins túlka skoðanir Eyjólfs Konráðs Jónssonar, ritstjóra Morgunblaðsins, og e. t. v. nokkurra forustumanna flokksins. Þeir verða líka að bera ábyrgð á þessum skrifum, því að annars ættu þeir að hafa vit á því að stöðva slík skrif.

Þau dæmi, sem ég hef hér nefnt um áróður Morgunblaðsins gegn ríkisstj. í landhelgismálinu, eru aðeins sýnishorn af vinnubrögðum stjórnarandstöðunnar og áróðri hennar gagnvart ríkisstj. Í þýðingarmesta máli þjóðarinnar leyfir stjórnarandstaðan sér slík vinnubrögð og það þegar þannig stendur á, að þjóðin á í hörðum átökum við erlenda aðila, sem brjóta lög okkar, ráðast gegn löggæzlu okkar, reyna að sigla í kaf fiskibáta okkar og notfæra sér til hins ítrasta í yfirgangi sínum eldgoshörmungar okkar og leit varðskipanna að skipbrotsmönnum.

Áróður stjórnarandstöðunnar um efnahagsmálin er af sama toga spunninn og áróður Morgunblaðsins í landhelgismálinu. Það er að vísu rétt, að miklar verðhækkanir ganga nú yfir og við ýmis vandamál er að glíma á efnahagssviðinu. Efnahagsvandamál eru ekkert nýtt fyrirbæri á Íslandi, og ættu þeir Gylfi Þ. Gíslason og Jóhann Hafstein að þekkja það. Nú eru þeir félagar hneykslaðir yfir miklum verðhækkunum og telja, að þær beri vott um, að ríkisstj. hafi enga stefnu í efnahagsmálum. Mikið má ástandið í dýrtíðar- og gengislækkunarmálum vera orðið slæmt, ef þessir tveir foringjar viðreisnarstjórnarinnar hafa raunverulega efni á því að kvarta og hneykslast. Þeir lækkuðu verðgildi íslenzkrar krónu gagnvart öllum erlendum gjaldeyri fjórum sinnum. Og í síðustu hrinunni lækkaði verðgildi krónunnar um helming. Í þeirra stjórnartíð óð dýrtíðin áfram risaskrefum og var meiri hér en í nokkru landi öðru í Evrópu. Síðustu 3 ár viðreisnarstjórnarinnar hækkaði verðlag hér um 18.6% að meðaltali á ári, eða frá 1. jan. 1968 til 1. nóv. 1970, þegar verðstöðvunin tók gildi. Þeir Jóhann og Gylfi geta því ekki gortað af stjórn sinni í efnahagsm. með slíka útkomu sem þessa.

En hvað hefur gerzt í tíð núv. ríkisstj. í dýrtíðarmálum? Á tímabilinu frá 1. nóv. 1970, þegar viðreisnarstjórnin setti verðstöðvun sína og hætti að mæla breytingar á vísitölu, og fram að 1. marz s. l. eru 28 mánuðir eða rúmlega 2 ár. Á þessum tíma hefur framfærsluvísitalan hækkað um 28 stig eða um 18%. Það jafngildir 7.7% á ársgrundvelli. Þessi hækkun framfærsluvísitölunnar er mikil, of mikil, þó að hún nái ekki helmingi af þeirri hækkun, sem varð í stjórnartíð þeirra Gylfa og Jóhanns. En hvernig stendur á þessari vísitöluhækkun í tíð núv. ríkisstj.? Í stuttu máli má segja, að ástæðurnar til þessarar hækkunar séu þessar: 1) Engar verðlagshækkanir á verðstöðvunartíma viðreisnarinnar. 2) Erlendar gengisbreytingar, sem urðu síðari hluta árs 1971 og á árinu 1972. 3) Erlendar verðhækkanir, þ. e. a. s. dýrtíð í öðrum löndum. Samkvæmt opinberum skýrslum kemur í ljós, að meðalverðhækkun á innfluttum vörum til landsins milli áranna 1971 og 1972 nam 9.25%. 4) Gengislækkun íslenzku krónunnar í desembermán. s. l. um 10.7%. 5) Kauphækkanir þær, sem samið var um í desembermánuði 1971 og áður hafði verið samið um við opinbera starfsmenn. 6) Hið nýja gengisfall dollarans nú nýlega.

Flestar eru þær ástæður, sem hér eru greindar, fyrir utan valdsvið íslenzkra stjórnvalda, núverandi ríkisstj. getur ekki borið ábyrgð á þeim. Vitanlega er ekki hægt að kenna núv. ríkisstj. um verðhækkanir, sem raunverulega höfðu átt sér stað í tíð fyrrv. stjórnar, en höfðu ekki komið formlega fram vegna verðstöðvunarinnar. Og ekki er hægt að kenna núv. ríkisstj. um verðbólguna í viðskiptalöndum okkar. Árið 1971 hækkaði t. d. innanlandsverðlag í Bretlandi um 11% og í Þýzkalandi um 7.7%. Í þessum löndum, sem eru okkar helztu viðskiptalönd, hefur verið gífurleg verðbólga undanfarin ár. Og er hægt að kenna núv. ríkisstj. um hrollvekjuna frægu, sem mest var talað um í síðustu kosningum? Hver var annars sú hrollvekja, sem Ólafur Björnsson prófessor talaði þá um? Hún var fólgin í afleiðingum þess óleysta efnahagsvanda, sem viðreisnarstj. skildi eftir sig og þá blasti við öllum. Þessi hrollvekjuvandi var m. a. sá, að fyrirsjáanlegt var, að kaup alls verkafólks yrði að hækka á árinu 1971, eftir kosningarnar þá. Fyrrv. ríkisstj. hafði samið um kauphækkun til opinberra starfsmanna. Þá kauphækkun þurfti auðvitað að greiða, og einnig að ætla öðrum vinnustéttum í landinu hliðstæða kauphækkun. Hluti af hrollvekjunni var einnig það, að búið var að samþykkja í tíð fyrrv. ríkisstj. allverulega hækkun á tryggingabótum almannatrygginganna, en átti eftir að borga þessa hækkun. Við öllum þessum fjárhagsvanda tók núv. ríkisstj., og þessi vandi var ekki leysanlegur nema með auknum ríkistekjum og með hækkun á kaupi, sem hlaut að þýða einhverja hækkun á verðlagi. Og svo þegar afleiðingar alls þessa koma fram, þá hneykslast þeir Gylfi Þ. og Jóhann og þykjast alveg hissa á því, hvað er að gerast.

Tillaga Sjálfstfl. um vantraust á ríkisstj. og málflutningur sá, sem henni fylgir, er gott dæmi um vinnubrögð stjórnarandstöðunnar nú. Þeir, sem frægir voru fyrir gengislækkanir og lækkuðu gengi krónunnar fjórum sinnum gagnvart öllum erlendum gjaldeyri, ásaka nú ríkisstj. fyrir gengisfellingu. Þeir, sem áttu met í verðhækkunum og stóðu fyrir helmingi meiri verðlagshækkunum, en nú eiga sér stað, þykjast hneykslaðir á hækkandi verðlagi. Og þeir, sem sjálfir heimta nú, m. a. í borgarstjórn Reykjavíkur, helmingi meiri verðhækkanir á rafmagni, á hitaveitugjöldum, strætisvagnagjöldum, gatnagerðargjöldum og yfirleitt öllum gjöldum til borgarinnar en þeir fá heimild fyrir hjá stjórnvöldum, þeir tala nú manna mest um hroðalegar verðhækkanir? Og þeir, sem ekkert aðhöfðust í landhelgismálinu á 12 ára stjórnarferli sínum og gerðu skaðræðissamningana við Breta og Vestur-Þjóðverja árið 1961, — samningana, sem mest þvælast fyrir okkur í dag, ásaka núv. ríkisstj. fyrir stefnuna í landhelgismálinu. Nú vilja þeir lúta dómstólnum í Haag, sem úrskurðað hefur Bretum rétt til fiskikvóta í okkar landhelgi og telur, að samningarnir frá 1961 séu enn í gildi þrátt fyrir einróma yfirl. Alþ. um, að þeim hafi verið sagt upp.

Nú talar Sjálfstfl. um óstjórn í efnahagsmálum. Fyrir liggur þó, að framkvæmdir voru meiri í landinu á s. l. ári en nokkru sinni áður. Atvinnuleysi er ekkert. Gjaldeyrisstaða þjóðarinnar batnaði á s. l. ári um rúml. 800 millj. kr. þrátt fyrir minni fjármagnsflutning til landsins en áður. Nú stendur yfir stórfelld endurnýjun fiskiskipaflotans, endur- og nýbygging frystihúsa, stórfelld efling iðnaðarins í landinu, og meiri framkvæmdir í landbúnaði eru nú en áður.

Það er að vísu rétt, að núv. ríkisstj. á eftir að leysa mörg vandamál, þ. á m. að tryggja fullnaðarsigur í landhelgismálinu og ná tökum á verðbólguvandanum. En hvað mundi taka við, ef gömlu viðreisnarkempurnar, Gylfi og Jóhann, tækju við stjórnartauminum í dag? Hvað haldið þið, launþegar í landinu, að þá gerðist í launmálum ykkar? Hvað haldið þið, hlustendur góðir, að þá gerðist í landhelgismálinu, þegar svo er komið, að Gylfi Þ. Gíslason segir hér í umræðum, að útfærslan í 50 mílur sé einskis virði, sé aðeins pappírsgagn? Hvað haldið þið, að þá taki við í þróun verðlagsmála? Og hvað yrði þá um uppbyggingu atvinnulífsins í höndum landsmanna sjálfra? Það er satt að segja ótrúlegt, að margir landsmenn vildu í raun og veru viðreisnarpostulana aftur til valda í landinu eftir þá dýru reynslu, sem fyrir liggur af stjórnarstörfum þeirra. — Góða nótt.