05.03.1973
Sameinað þing: 53. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2327 í B-deild Alþingistíðinda. (1795)

136. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Stefán Gunnlaugsson:

Herra forseti. Forsrh. sagði hér áðan, að verkafólk byggi nú við hátt kaupgjald og góð lífskjör. Ja, því getur hver og einn svarað fyrir sig, hvort svo sé. Hann reyndi að vitna því til staðfestingar í skýrslu, sem Björn Jónsson, forseti Alþýðusambands Íslands, lagði fram á þingi Alþýðusambandsins s. l. haust. En honum láðist að geta þess, að núv. ríkisstj., sem á sínum tíma studdi vissulega verkalýðhreyfinguna við gerð núgildandi kjarasamninga, hefði síðan alls 8 sinnum — ég segi: 8 sinnum — gert beinar tilraunir til þess að breyta þessum kjarasamningum eða beinlínis til þess að reyna að skerða þá. Það skyldi þó ekki vera, að Björn Jónsson væri einnig reiðubúinn til að staðfesta þetta.

Ráðh. þrír, sem hér hafa verið í ræðustólnum á undan mér, töluðu fjálglega um meintar ávirðingar fyrrv., ríkisstj. Rifjast við það upp fyrir mönnum hinn mikli áróður, sem núv. stjórnarflokkar héldu uppi í stjórnartíð fyrrv. ríkisstj. gegn stefnu hennar, einkum í efnahagsmálum. Formælendur Framsfl. Alþb. og SF voru ósparir á fögur fyrirheit í því sambandi. Ef þeir fengju aðstöðu til þess að stjórna, skyldi vissulega allt breytast til betra horfs. Komið skyldi í veg fyrir háskalega verðbólguþróun og gengislækkunum ekki beitt sem úrræði í efnahagsmálum, svo að minnt sé á tvennt á löngum loforðalista þessara flokka. Úrslit kosninganna urðu þau, að þeir fengu tækifæri til að sýna í verki, hvort þeim auðnaðist að standa við gefin loforð. Nú bráðum í tvö ár hafa þeir setið við stjórnvölinn, og hvernig hefur þeim tekizt? Í málefnasamningi ríkisstj. segir svo orðrétt á einum stað: „Ríkisstj. leggur ríka áherzlu á, að takast megi að koma í veg fyrir þá háskalegu verðlagsþróun, sem átt hefur sér stað í efnahagsmálum.“ Enn fremur segir: „Ríkisstj. mun ekki beita gengislækkun gegn þeim vanda, sem við er að glíma í efnahagsmálum.“ Það skal viðurkennt, að fögur fyrirheit og góður ásetningur eru út af fyrir sig ekki nægjanleg til þess, að því verði náð, sem að er stefnt í þessum efnum, ef ytri aðstæður eru þannig, að óframkvæmanlegt reynist. Því er rétt að kanna, hvort slíkar kringumstæður hafi verið fyrir hendi, sem hafi gert stjórnarflokkunum ókleift að koma í veg fyrir þær gengisfellingar og óðaverðbólgustefnu, sem hefur verið megineinkenni þróunar efnahagsmála í tíð núv. ríkisstj., — þróunar, þar sem dýrtíðar- og verðbólguhjólið hefur fengið að snúast hraðar en nokkru sinni fyrr. Hefur orðið verðfall á erlendum mörkuðum fyrir afurðir okkar, eins og var í tíð viðreisnarstjórnarinnar á árunum 1967 og 1968? Svarið er nei. Þvert á móti hafa orðið miklar verðhækkanir á helztu útflutningsafurðum. Þannig var verðmæti sjávarafurða árið 1972 11.4% meira en árið 1971, og miðað við árið 1970 er aukningin 21.7%. Verðmæti heildarútflutningsins hefur aukizt enn meira á þessu tímabili eða um 29.5%. Gengisfellingastefna núv. ríkisstj. á þannig ekki rætur að rekja til ytri aðstæðna, eins og þegar viðreisnarstjórnin neyddist til þess að framkvæma gengislækkun haustið 1968, vegna þess að verðmæti útflutningsafurða hafði minnkað um nær 50% af völdum verðhruns og aflabrests.

Sannleikurinn er sá, að efnahagsvandinn er heimatilbúinn. Stjórnarflokkunum hefur ekki tekizt að standa við loforðin frá því um síðustu kosningar, og er þar langur vegur frá. Óðfluga stefnir í algert óefni í þessum málum. Holskefla dýrtíðar og verðbólgu flæðir nú yfir landið, og ríkisstj. fær við ekkert ráðið. Þær gífurlegu hækkanir, sem áttu sér stað fyrir nokkrum dögum á verði neyzluvara almennings, eru þær mestu, sem neytendur hér á landi hafa mátt þola, þegar mjólkin hækkaði í verði um hvorki meira né minna en 43.8% og allar búvörur, sem eru helztu nauðsynjavörur fólks, hækkuðu að meðaltali um 25%. En það eru ekki aðeins landbúnaðarvörur, sem hækka svo hrikalega í verði sem raun ber vitni, heldur verðlagið yfirleitt, af völdum þeirrar gengisfellingastefnu, sem rekin er í landinu. Þær gífurlegu dýrtíðar- og verðbólguöldur, sem fram undan eru, sýna, svo að ekki verður um villzt, að efnahagsmál þjóðarinnar stefna í algert öngþveiti. Þær launahækkanir, sem urðu í landinu s. l. mánaðamót, verða sjálfsagt til þess, að atvinnuvegirnir telja sig ekki geta staðið undir slíkum kostnaðarauka, þegar þær koma til viðbótar öðrum fyrirsjáanlegum rekstrarkostnaðarhækkunum.

Allt bendir til, að kaupgjaldsvísitalan hækki verulega 1. júní n. k. vegna hækkana á búvöruverði og verði ýmissa annarra vara, sem þar hafa áhrif á. Lauslegir útreikningar sýna, að hjá meðal verkamannafjölskyldu fer u. þ. b. helmingur kauphækkunarinnar, sem kom til framkvæmda um s. l. mánaðamót, í aukinn kostnað vegna kaupa á nauðsynjum, svo sem mjólk, kjöti, smjöri og þess háttar. Og allt útlit er fyrir, að þetta sé bara byrjunin. Á eftir fylgja fleiri verðhækkunarbylgjur á næstu vikum og mánuðum, eins og nú horfir, ef að líkum lætur. Sú kjaraskerðing, sem launþegar urðu fyrir vegna hinna miklu verðhækkana um s. l. mánaðamót, verður þeim óbætt í 3 mánuði, en þá munu þeim verða bætt 2 stig af þeim 3.5, sem hækkanir á landbúnaðarvörum hækka vísitöluna, en 1.5 stig verða þeir að bera bótalaust til frambúðar. Það mun láta nærri, að hinar stórkostlegu hækkanir á landbúnaðarvörum geri næstum að engu þá kauphækkun, sem fékkst samkv. ákvæðum um kjarasamninga 1. marz s. l. Sú kjarabót, sem launþegasamtök sömdu um fyrir meira en ári, er að hverfa í hít verðbólgu og ofsköttunar.

Margir velta nú fyrir sér, hvernig slíkt geti átt sér stað, að svo hrapallega skuli til takast hjá núv. ríkisstj. með stjórn efnahagsmála sem raun ber vitni. Ekki hvað sízt eru fjölmargir vinstri menn, sem studdu núv. stjórnarflokka í síðustu kosningum, eins og þrumu lostnir yfir, hversu stjórn efnahagsmálanna er í algerum molum hjá stjórnarflokkunum, sem ekki spöruðu stóryrðin, þegar þeir voru í stjórnarandstöðu og fundu stefnu þáv. ríkisstj. allt til foráttu, ekki hvað sízt í efnahagsmálum.

Það fer ekki á milli mála, að fjöldi vinstri manna hefur orðið fyrir sárum vonbrigðum með frammistöðu núv. ríkisstj. vegna þess, hversu gersamlega henni hefur mistekizt að leysa farsællega margvísleg viðfangsefni, sem að höndum hefur borið, og eru þar efst á blaði efnahagsmálin. Orsaka óstjórnarinnar virðist fyrst og fremst að leita í sundurlyndi og ósamstöðu innan ríkisstj. og stuðningsflokka hennar um stefnuna í hinum ýmsu málum og skorti á yfirsýn og samræmdum aðgerðum við framkvæmd mála, sem kemur til af því, að stjórnarflokkarnir virðast eiga erfitt með að vinna saman. Fyrsta árið, sem ríkisstj. sat að völdum, gerði hún enga tilraun til þess að hafa hemil á verðbólguþróuninni. Þá var allt látið reka á reiðanum í efnahagsmálum, en loforð gefin til allra um aukna hagsæld. Að þeim tíma loknum er eins og vaknað sé við vondan draum og augu stjórnarsinna opnist fyrir því, að eitthvað þurfi að sinna efnahagsstjórn landsins og gera ráðstafanir til að stemma stigu við óheillaáhrifum á þróun efnahagsmála í landinu, sem skapazt hafi vegna aðgerða ríkisstj. Áhugasamir stuðningsmenn ríkisstj. biðu spenntir eftir, að töfrabrögð hennar við þeim vanda, sem þarna var á ferð, væru kynnt alþjóð. Því hafði nefnilega oft verið lofað fyrir síðustu kosningar, að núv. stjórnarflokkar mundu ekki beita neinum viðreisnarstjórnarúrræðum um lausn efnahagsmála, þegar þeir kæmust í valdastólana. Burt með gengisfellingar, burt með blekkingar og kosningabrellur eins og þær, sem fólust í verðstöðvunaraðgerðunum, sögðu þáv. stjórnarandstæðingar. Þeir hefðu önnur ráð á takteinum, ef á þyrfti að halda, til lausnar efnahagsvandamálum. En þau birtust ekki. Þess í stað var tilkynnt um útgáfu brbl. um verðstöðvun til ársloka 1972. En ekki nóg með það, heldur bundu þeir kaupgjaldsvísitöluna við 117 stig og frestuðu greiðslu 2.5 vísitölustiga til áramóta. Sem sagt var gripið til úrræða, sem formælendur núv. stjórnarflokka höfðu fordæmt sem blekkingu, kosningabrellu og vísitölurán, þegar þeir voru í stjórnarandstöðu.

En stærsta kollsteypan í efnahagsmálastefnu ríkisstj. var þó sú ákvörðun hennar að fella gengi krónunnar í des. s. l. um tæp 11%. Að tveimur öðrum gengisfellingum hefur ríkisstj. staðið í valdatíð sinni, sem þó eru af öðrum toga spunnar en sú, sem framkvæmd var fyrir síðustu jól. Formælendur stjórnarflokkanna voru ekkert að klípa utan af því, þegar þeir á sínum tíma fyrir síðustu kosningar réðust harkalega á þá stefnu að lækka gengi krónunnar til lausnar á efnahagsvanda. Þá var því heitið, að ekki mundu þeir grípa til slíkra aðgerða. Það fyrirheit var staðfest í málefnasamningi ríkisstj. og margítrekað eftir það af formælendum ríkisstj.

Óstjórnarstefna ríkisstj. í efnahags- og fjármálum lýsir sér einnig með ýmsum öðrum hætti. Fjárlögin, sem afgreidd voru fyrir árið 1973, að upphæð 22 milljarðar kr., höfðu til að mynda tvöfaldazt á einu ári og eiga vafalaust eftir að stórhækka um næstu áramót. Og eins og nú horfir, lítur út fyrir mikinn halla í ríkisbúskapnum. Það má reikna með stórum greiðsluhalla hjá ríkissjóði svo og halla á viðskiptunum við útlönd. Ef svo heldur fram sem nú horfir og áfram verður fylgt þeirri stefnu, sem ríkisstj. hefur markað í efnahagsmálum, eykst spennan í þjóðfélaginu enn að miklum mun, og kapphlaupið milli verðlags og kaupgjalds vex hröðum skrefum. Hvort tveggja setur atvinnuöryggi, sem þjóðin hefur búið við, í mikla hættu. Sú háskalega þróun, sem nú á sér stað í þessum málum, krefst fjárframlaga í stórum stíl til að leysa alvarleg félagsvandamál, sem af henni leiða. Þegar hvergi er dregið úr eyðslu í staðinn, sem að gagni kemur til að mæta slíkum gífurlegum útgjöldum, verður afleiðingin enn vaxandi verðbólga, sem kallar á nýja gengisfellingu og nýja skuldasöfnun erlendis og getur endað í því, að efnahagskerfi þjóðarinnar fari úr skorðum.

Ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar ráða ekki við þann vanda, sem við er að etja. Stefna hennar hefur beðið skipbrot. Ákaflega miklu varðar fyrir þjóðina alla, að haldið sé traustlega og af festu í stjórnartaumana, ekki hvað sízt á vettvangi fjármála og efnahagsmála. Ríkisstj. hefur ekki getað staðið við þau loforð, sem gefin voru af stuðningsflokkum hennar fyrir síðustu kosningar og í málefnasamningnum. Hún er ekki vanda sínum vaxin. Henni ber því að fara frá. Ríkisstj. hefur mistekizt einnig á ýmsum öðrum sviðum, en ekki gefst tími til að fara út í það við þetta tækifæri. Þar með er ekki sagt, að henni hafi verið alls góðs varnað, svo slæmt er það ekki. Hún hefur beitt sér fyrir framgangi nokkurra góðra mála, sem Alþfl. hefur stutt af heilum hug. En hún hefur ekki reynzt þeim vanda vaxin að stjórna landinu. Hún tók við traustu atvinnulífi og blómlegum hag þjóðarbúsins á öllum sviðum. Eftir bráðum tveggja ára stjórnarferil blasa við erfiðleikar hvert sem litið er, svo að liggur við öngþveiti. Þjóðarheill krefst þess, að ríkisstj. víki frá völdum. — Ég þakka áheyrnina. Góða nótt.