06.03.1973
Sameinað þing: 54. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2363 í B-deild Alþingistíðinda. (1802)

136. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Ég ætla að gera lítillega grein fyrir því, hvers vegna ég mun greiða atkvæði með vantrausti á ríkisstj. Það er ekki fyrst og fremst vegna landhelgismálsins, hvernig á því hefur verið haldið. Ég er að sumu leyti alls ekki óánægður með það, hvernig t. d. dómsmrh. hefur látið reka það mál undir sinni stjórn. Ég hef að vísu heyrt það töluvert gagnrýnt meðal almennings, að ríkisstj. hafi ekki notað sér þá aðferð að reyna að reka fleyg á milli Vestur-Þjóðverja og Breta í andstöðunni gegn okkur. Ég hef líka heyrt það töluvert gagnrýnt, að ekki skuli vera sótt og varið mál okkar fyrir Haagdómstólnum. Samt sem áður vil ég ekki taka þátt í deilum um það mál hér. Ég ætla ekki heldur að fara sérstaklega út í efnahagsmálin, þau hafa verið rædd mikið og skýrð á báða bóga. Ég tel að vísu, að þar hafi verið haldið mjög slælega á málunum, og það er ein ástæðan fyrir því, að ég greiði atkvæði með vantraustsyfirlýsingunni, en það koma fleiri ástæður til.

Þegar þessi ríkisstj. tók við völdum, var það eitt af hennar yfirlýstu málum, að hún skyldi hafa náið samstarf við verkalýðshreyfinguna og launþegasamtökin. Í dag lýsir forseti Alþýðusambands Íslands því yfir, að 8 sinnum á þessum stutta valdaferli sínum hafi ríkisstj. reynt að ganga af kjarasamningum á einhvern hátt ómerkum eða skemma þá fyrir verkalýðshreyfingunni. Er ekki nokkuð lítið skap hjá forseta Alþýðusambands Íslands, fyrrverandi forseta Alþýðusambands Íslands og formanni stærsta verkalýðsfélags á Íslandi að ætla að styðja slíka ríkisstj. áfram? En nú kem ég að því atriðinu, sem veldur því, að ég kvaddi mér hljóðs.

Eitt af því, sem þessi ríkisstj. þóttist ætla að standa vel að, betur en fyrrv. ríkisstj., var að vinna að byggðajafnvægi í landinu. Hvernig hefur hún staðið að því? Þar getur hver og einn þm. úr mismunandi kjördæmum svarað fyrir sig, en mig langar að rekja lítillega, hvernig að þeim málum hefur verið staðið í Norðurlandskjördæmi eystra. Allir vita, að fyrir Norðurlandskjördæmi eystra hafa verið kjörnir þrír framsóknarmenn af sex þm. Ekkert kjördæmi er líklega sterkara hvað Framsókn snertir heldur en einmitt það. Í þessu byggðarlagi er einhver blómlegasta atvinnustöð, sem SÍS rekur, og mér hefur skilizt og sjálfsagt fleirum en mér, að Framsfl. telji sér SÍS dálítið nákomið. En hvernig hefur verið búið að þessari stóru verkstöð á Akureyri? Það hefur verið búið þannig að henni, að í vetur varð hún fyrir milljónatjóni vegna raforkuskorts. Önnur stór verkstöð norður þar er bæjarútgerðin, sem ég kalla svo, en heitir Útgerðarfélag Akureyringa h/f. Það er rekið fyrst og fremst á snærum Akureyrarbæjar. Þar er stórt frystihús, sem hefur verið rekið með mikilli prýði, stundum svo, að þar hefur verið gróði, þegar víða annars staðar um land hefur allt verið að farast í tapi undanfarin ár. En nú er búið að binda togarana, sem öfluðu hráefna fyrir þetta hraðfrystihús, í 4 vikur, og togarasjómennirnir, sem voru á þessum skipum, eru komnir hingað og þangað annars staðar í atvinnu, og enginn veit, hvort hægt verður að koma þessari atvinnustofnun af stað, þó að togaraverkfallið leysist kannske næstu daga. Hvers konar byggðajafnvægisstefna er að halda þessu stóra hraðfrystihúsi í svelti? Og ekki er tölunni lokið með þessu. Við höfum þurft og barizt fyrir því undanfarið að fá endurbyggt sjúkrahúsið okkar á Akureyri. Maður skyldi halda, að framsóknarþm., sem eiga a. m. k. einn af sínum fulltrúum norðan úr Norðurl. e. í fjvn., hefðu staðið vel í ístaðinu þar í vetur. Ekki aldeilis. Það mátti heita, að alveg væri skorin niður fjárveiting til sjúkrahússins. Er ekki nokkuð lítið skap þessara þriggja ágætu framsóknarþm. að ætla nú áfram að styðja ríkisstj., sem hefur hegðað sér svona?

En ég er ekki búinn að skilja alveg við raforkumálin okkar norður frá. Núv. ríkisstj. tók við slæmum arfi eftir fyrrv. ríkisstj., það skal ég verða fyrsti maður til að viðurkenna. En sú deila var þó komin á það stig, að þar varð annaðhvort að hrökkva eða stökkva. Og ég trúi ekki öðru en að fyrrv. ríkisstj. hefði gert það. En þessi ríkisstj. hefur hvorki hrokkið né stokkið. Ég kalla það ekki að stökkva að byggja svolitla línuspotta suður á Sprengisandi til að vita, hvernig „hundurinn“ að sunnan mundi þola vetrarveðráttu á Sprengisandi. Ég kalla það ekki heldur að stökkva að senda nú í fyrri viku vinnuflokk suður í Laugafell, sem er ferðamannaskýli suður á fjöllum, láta hann búa til aðra línu til að vita, hvernig hún þyldi á þeim stað vetrarveðráttu. Þeir voru enn veðurtepptir í Laugafelli, þegar ég fór að norðan. Ég kalla það ekki heldur að stökkva að ætla þessum sömu mönnum seinna að byggja þriðja spottann vestur á Eyvindarstaðaheiði til að vita, hvernig veturinn hagaði sér gagnvart línu þar. Það virðist sem sagt algert ráðleysi ríkja þarna, algert ráðleysi — og þó, eitthvað býr þó víst í pokahorninu. Það á að neyða okkur Akureyringa til að skrifa undir samninga um það, að ekki verði Laxá rafvædd meira en 6.5 megawött í viðbót, þó að lög séu fyrir því, að það megi virkja þar allt upp í 12 megawött. Og það á ekki að láta þar staðar numið, heldur eigum við að borga 50 millj. í bætur fyrir skaða, sem enginn veit hver er og alls ekki er hægt að reikna út. Ekki nóg með það, það á að setja það á raforkuneytendur norður þar að byggja fiskveg úr Laxá neðri upp í Laxá efri, þó að aldrei hafi lax komizt og gengið upp í Laxá efri og enginn viti, hvort heppilegt sé að sleppa þangað laxi. Hinir ágætu byggðajafnvægismenn láta sig engu varða, þó að rafmagnið sé svo lítið, að bændur verði stundum að hlíta þeirri skömmtun, að þeir geta ekki mjólkað fyrr en einhvern tíma og einhvern tíman. Þeir láta sig engu varða, þó að SÍS hafi svo litla raforku, að það verði að byggja varastöð til að geta rekið verksmiðjur sínar norður frá. Þeir láta sig engu varða, þó að t. d. elliheimilin á Akureyri neyðist til þess í haust að setja upp vararafstöðvar, svo að ekki verði kuldi og myrkur einn góðan vetrardag á þeim, sem þar búa. Fleira og fleira mætti þannig telja upp. Þeir láta sig engu varða, þó að iðnrh. hafi lýst því yfir, sem einum af sínum vísa vilja, að hér verði notuð raforka til upphitunar sem allra mest og enginn bær á landinu sé líklegri en einmitt Akureyri til þess að geta notað sér slíkt. En alveg nýlega, rétt áður en ég fór suður, varð Rafveita Akureyrar að neita heilu byggðahverfi sem á að fara að skipuleggja og byggja ofan til í bænum, um raforku til upphitunar, og hefði það þó verið drjúgt, sem hægt hefði verið að nota af fyrirhugaðri raforku þarna um þessar slóðir.

Það er þetta, sem mér þykir kannske allra dapurlegast frá sjónarhóli þeirra, sem búa hingað og þangað um landið, að ríkisstj., sem þóttist ætla að styðja byggðajafnvægi í landinu, — og margir hafa sjálfsagt gert sér vonir um, að hún ætlaði að standa þar í ístaðinu, a. m. k. í Norðurl. e., hefur algerlega brugðizt í þeim málum, og hv. þm. Framsóknar úr því kjördæmi styðja þessa ríkisstj. og svo að ég endurtaki varðandi mál verkalýðsstéttarinnar og mál launþeganna: Forseti Alþýðusambands Íslands lýsti því yfir, að núv. ríkisstj. hafi átta sinnum á 1½ ári reynt að rjúfa á verkalýðshreyfingunni samninga. Ætlar hann samt að styðja ríkisstj.? Fyrrv. forseti Alþýðusambands Íslands situr í ráðherrastóli. Hvernig má það vera, að hann sitji þar kyrr, þegar þetta er upplýst? Formaður stærsta verkalýðsfélags á landinu situr hér innan dyra. Hvernig hugsar hann sér að styðja þessa ríkisstj. eftir þessa framkomu? Það verður gaman að sjá, hvernig atkvgr. fer fram, þegar að henni kemur.