06.03.1973
Sameinað þing: 54. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2366 í B-deild Alþingistíðinda. (1803)

136. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Svo margt hefur þegar komið fram í þessum umr. í dag, sem ég ætlaði að ræða, að ég get mjög stytt mál mitt og mun gera það, þótt raunar kunni að vera ástæða til að hamra frekar á ýmsu því, sem hæstv. ríkisstj. er til ávirðingar og dregið hefur verið fram í þessum umr., ef það mætti verða til að opna augu þeirra, sem hafa ekki þegar áttað sig á, hvert stefnir undir núverandi stjórnarstefnu.

Ég get ekki látið hjá líða að lýsa undrun minni yfir málflutningi fulltrúa stjórnarflokkanna í útvarpsumr. í gærkvöld. Þótt ýmislegt hafi heyrzt úr þeirri áttinni undanfarin missiri, held ég, að sá málflutningur, sem þar var hafður í frammi, hljóti að slá öll fyrri met. Hæstv. forsrh. taldi þessa vantrauststill., sem hér er til umræðu, einbera sýndarmennsku, sem flanað væri að á þeim tíma, sem þjóðin þarf að standa saman, og að þjóðin ætlist til annars af þm. sínum en blása að ófriðareldi. Hæstv. samgrh. afgreiddi till. með því að lýsa fögnuði sínum yfir því, að hún skuli hafa komið fram, hann hafi verið farinn að óttast, að sjálfstæðismenn bæru traust til ríkisstj. Það er mesti misskilningur hjá hæstv. ráðherra. Sjálfstfl. hefur aldrei borið traust til þessarar ríkisstj. og allra sízt nú. Hæstv. ráðh. sagði einnig, að till. hafi verið flutt, þegar Bjarni Guðnason, hv. 3. landsk., sagði sig úr þingflokki SF, en ráðh. bendir um leið á, að lítið traust sé í hálmstrái. Þetta eru nafngiftirnar, sem fyrri samherjar fá. Eftir þeim orðahnippingum, sem farið hafa fram á milli þessara tveggja manna, kann þetta að vera gagnkvæmt álit. Það er rétt hjá hæstv. ráðh., að það er lítið hald í hálmstráum, en mér segir svo hugur, að það verði fleiri en hv. 3. landsk., sem verða hálmstrá í augum hæstv. ríkisstj. á næstunni. Þá taldi hæstv. samgrh. það gleðilegan tímamótaatburð, að Alþfl. hafi verið ófáanlegur til að standa að vantrauststill. Það hlýtur að hafa dregið nokkuð úr gleði ráðh., þegar form. Alþfl. lýsti því yfir nokkrum mínútum síðar, að Alþfl. styddi till. Það er satt að segja furðulegt, að hæstv. ráðh. skuli ekki vera betur upplýstur um fyrirhugaðar gerðir Alþfl. í allra nánustu framtíð. Er ekki stefnt að sameiningu? Eða er kannske verið að kljúfa Alþfl. einu sinni enn? E. t. v. tekst einhverjum ónefndum að verða fjögurra flokka kljúfur, áður en lýkur.

Hæstv. fjmrh. talar enn um blessun skattalagabreytinganna á s. l. vori fyrir allan landslýð og allt það hagræði, sem sveitarfélögin í landinu hafi hlotið fyrir tilverknað núv. ríkisstj. Það þarf satt að segja meira en meðalgamansemi til að halda svona löguðu fram enn þá. En hér er ekkert gamanmál á ferðinni og ekki mál til að hafa í flimtingum.

Og hæstv. iðnrh. hefur mál sitt með þeim hjartnæmu orðum, að meðan þetta tilgangslausa málþras fari fram hér á hv. Alþ., haldi hraun áfram að renna í Vestmannaeyjum, og síðan gengur öll ræðan út á að reyna að sýna fram á, að stjórnarandstaðan hafi viljað nota það mál til að koma höggi á ríkisstj. Alþb. hafi hins vegar, til þess að rétta við sóma Alþ., fallist á leið út úr vandanum, leið, sem væri hins vegar leið verðbólgunnar. En Alþb. ber auðvitað enga ábyrgð á neinu því, sem miður fer.

Ég þarf ekki að ræða það hér, hverjir það voru, sem ætluðu að nota þessar hörmungar í Vestmannaeyjum sér til pólitísks framdráttar. Það hefur þegar verið gert og rakið rækilega á hv. Alþ., og það er algjör misskilningur hjá hæstv. ríkisstj. að halda, að henni muni haldast það uppi, án þess að á það sé bent.

Hæstv. ráðh. sagði, að form. Sjálfstfl. hefði beðið um frestun á umr. um þessa vantrauststill., þegar Alþ. kom saman eftir jólaleyfi, nú sé hins vegar rétti tíminn segir ráðh., fullur hneykslunar. Það er rétt, að sjálfstæðismönnum þótti eðlilegt að fresta umr. um vantraustið, meðan verið var að ráða fram úr vandanum vegna jarðeldanna í Vestmannaeyjum. Þótt sá vandi sé ekki að fullu leystur, þýðir ekkert fyrir hæstv. ríkisstj. að gera enn eina tilraunina til að lengja líf sitt með því að slá á þá strengi, að nú þurfi allir að standa saman og þá auðvitað um þessa ríkisstj. Stjórnin lifir nefnilega ekki á þessu óláni, og hún mun falla á eigin lánleysi.

Þetta, sem ég hef nefnt, er lítið dæmi um þann sérstæða málflutning, sem hér var hafður í frammi í gærkvöld. Það er ástæða til að líta nokkru nánar á þetta og skýra út með nokkrum orðum, hvers vegna þessi vantrauststill. er flutt. Hún er flutt vegna þess, að það er krafa þjóðarinnar, að þessi ríkisstj. fari frá. Þessi krafa er risin vegna þess, að það fer ekki fram hjá neinum, að ríkisstj. er óhæf til að stjórna landinu. Aðgerðir hennar í efnahagsmálum eru í hrópandi ósamræmi við gefin loforð. Meðferð stjórnarinnar á landhelgismálinu hefur orðið þjóðinni til vanvirðu, og úrslitum málsins hefur verið stefnt í beinan voða, annaðhvort vitandi vits eða með fávíslegum aðgerðum eða aðgerðaleysi. Þróun verðlagsmála er svo yfirþyrmandi, að engu tali tekur. Vegna þessa og skattamálastefnu stjórnarinnar berst atvinnureksturinn í landinu í bökkum. Allur almenningur stynur undir ofurþunga skattbyrðanna, — skattbyrðanna, sem eru afleiðing stöðugrar útþenslu ríkisbáknsins og sífellt aukinna afskipta ríkisins af högum borgaranna. Menn hafa sífellt minni ráðstöfunarrétt á aflafé sínu. Ríkið á að sjá fyrir öllu.

Þessi ríkisstj. á að fara frá þegar af þeirri ástæðu, að henni er ekki treystandi fyrir hinum mikilvægasta málaflokki, þar sem eru öryggis- og varnarmál. Yfirlýst ósamkomulag stjórnarflokkanna frá upphafi um þau mál hefur ekkert breyzt. Varkárari mönnum í ríkisstj. hefur að vísu tekizt að draga þessi mál á langinn, en það vill enginn bíða þess tíma, að skoðanir Alþb.-manna verði ofan á í ríkisstj. í þeim málum, eins og gerzt hefur í öðrum málum.

Svo segir hæstv. forsrh., að það detti víst engum í hug, að stjórnarflokkarnir hlaupi frá hálfunnu verki, þeir séu siðferðilega bundnir við að uppfylla gefin loforð. Hvers konar siðferðismat er þetta? Ríkisstj. hefur þegar svikið fjöldann allan af gefnum loforðum. Má ég nefna aðeins í því sambandi gengisfellingar og óðaverðbólgu. Það er mikill misskilningur að halda, að kjósendur í landinu vilji prófa það lengur, hvort stjórnin geti staðið við eitthvað af því, sem hún lofaði í upphafi. Vegna þessa vill meiri hl. þjóðarinnar, að þessi stjórn fari frá. Þessi vantrauststillaga er flutt til þess að flýta fyrir falli stjórnarinnar. Hún stendur ef til vill af sér atkvgr. að lokinni þessari umr., en það dettur hins vegar engum í hug, að hún sitji út allt kjörtímabilið, nema þá e. t. v. hæstv. ráðh, sem með því sýna, hversu gjörsamlega óvitandi þeir eru um álit almennings á gerðum þeirra.

Vegna þess, hvernig komið er eftir þennan tiltölulega stutta tíma, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur setið að völdum, vill Sjálfstfl. þingrof og nýjar kosningar. Þessi krafa er örugglega studd af meiri hl. kjósenda í landinu. Þeir vilja fá tækifæri til þess að gera upp reikningana við núv. ríkisstj. Og þetta tækifæri mun gefast fljótlega, þótt ríkisstj. standi af sér atkvgr. um þessa till. Og þetta tækifæri mun gefast, þótt stjórnarandstaðan kæmi þar hvergi nærri, vegna þess að sprengingin mun koma að innan. Óánægjan heldur áfram að magnast innan stjórnarflokkanna sjálfra. Hv. 3. landsk., Bjarni Guðnason, sættir sig illa við flokksræðismennina. Hann situr hjá við afgreiðslu þessarar till. og greiðir atkv. hér á eftir eins og honum sýnist, eftir því sem hann sagði í umræðunum í gærkvöld. Og honum sýnist, að ekki eigi að styðja mál, sem eru ekki í samræmi við málefnasamninginn margnefnda. Kannske fara að koma fram mál frá stjórninni, sem verða í samræmi við hann. Þeir hv. þm., Björn Jónsson og Karvel Pálmason, eru þegar farnir að hlaupa út undan sér og eru að mynda þriðja flokksbrotið í minnsta þingflokknum. Af eðlilegum ástæðum munu stjórnarflokkarnir halda áfram að greinast í fleiri og fleiri hluta.

Hæstv. forsrh. sagði í gærkvöld, að óviðráðanleg atvik geti gert það æskilegt að færa eitthvað út stjórnargrundvöllinn, m. ö. o. að taka fleiri flokka inn í ríkisstj. Þetta er nú í annað skipti á tiltölulega skömmum tíma, sem hæstv. ráðh. lætur opinberlega í ljós hugleiðingar um það, að eitthvað verði að gera, til þess að tryggð verði áframhaldandi vera a. m. k. einhverra ráðh. í núv. ríkisstj. Fyrst var það till. um, að ráðh. yrðu kjörnir hlutfallskosningu á Alþ. Það mundi tryggja Framsfl, nokkuð öruggt sæti í ríkisstj., þótt því sé reyndar valt að treysta eftir þegar unnin afrek. Nú er verið að biðla til stjórnarandstöðuflokkanna, annars eða beggja, — ég veit það ekki, — um að koma inn í ríkisstj., að því er manni skilst vegna óviðráðanlegra atvika, sem gert hafa stjórnin valta í sessi. Sannleikurinn er sá, að hér hafa engin óviðráðanleg atvik átt sér stað. Það, sem veldur, er stjórnleysi og úrræðaleysi hæstv. ríkisstj. Þessi tilmæli benda hins vegar til þess, að hæstv. ráðh, sé sú hugsun afar ógeðfelld að þurfa að yfirgefa ráðherrastólana. En Sjálfstfl. vill nýjar kosningar, til þess að hægt verði að þeim loknum að snúa við af þeirri óheillabraut, sem gengin hefur verið undanfarin misseri.