06.03.1973
Sameinað þing: 54. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2373 í B-deild Alþingistíðinda. (1806)

136. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ræða hæstv. iðnrh., Magnúsar Kjartanssonar, í útvarpsumr. í gærkvöld var óheiðarlegasta ræða, sem flutt hefur verið á Alþ. árum saman. Hann hóf ræðu sína á einstaklegan ósmekklegu tali um náttúruhamfarirnar í Vestmannaeyjum og örlög Vestmanneyinga, á slepjulegu tali, sem átti ekkert erindi inn í stjórnmálaumr. á hinu háa Alþ. En síðan kom kjarni ræðu ráðh. Hann var sá, að Íslendingar hafi vegna náttúruhamfaranna verið að þjappa sér saman í einn hóp, þeir hafi verið að verða að einni fjölskyldu, eins og raunar sjálfsagt var. En þá, sagði hæstv. ráðh., að nokkrir æfðir stjórnmálamenn stjórnarandstöðunnar hér innan veggja hins háa Alþ. hafi tekið höndum saman um að spilla þjóðareiningunni. Einhverjir góðir menn mér skildist sjálf ríkisstj., hafi gert tilraun til þess að bjarga áliti Alþ. á yfirborðinu, en það hefði ekki tekizt. M. ö. o.: þegar þjóðin lifir örlagaríka daga, örlagaríkar vikur, og vill standa saman, þá gerist það, að vondir menn í stjórnarandstöðunni á Alþ. taka höndum saman um það að spilla þessari einingu.

Ég ætla að leyfa mér að rifja upp — með leyfi hæstv. forseta — þau orð, sem hæstv. ráðh. lét um þetta falla, því að þau eiga sannarlega að geymast í þingsögunni. Þegar menn heyra þau aftur í dag, þá kannske skilja menn betur það, sem ég kem til með að segja hér á eftir. En hæstv. ráðh. sagði:

„Ég talaði áðan um samstöðu allrar þjóðarinnar. En það er hópur manna, sem hugsar á aðra lund en óbreyttir þegnar hins íslenzka þjóðfélags. Þetta eru hinir æfðu stjórnmálamenn, sá litli lokaði hringur, sem daglega hittist hér í sölum Alþ. Það kom fljótlega í ljós, að hinir æfðu stjórnmálamenn Sjálfstfl. og Alþfl. tóku að velta fyrir sér annarri hlið jarðeldanna á Heimaey en þeirri, sem þjóðin hugsaði um. Þeir lögðu ekki á ráðin um það, hvernig unnt væri að leysa þann stórfellda vanda, sem upp væri kominn, hvort ekki væri rétt að slíðra sverðin í hinu pólitíska pexi um stundarsakir, hvort stjórnin og stjórnarandstaðan gætu ekki unnið saman með heilindum. Það viðhorf varð hins vegar æ ríkara í hugum þeirra, hvernig hægt væri að nota náttúruhamfarirnar í Vestmannaeyjum, þau hrikalegu áföll, sem Vestmanneyingar og þjóðin öll hafa orðið fyrir, til þess að valda ríkisstj. sem mestum örðugleikum og helzt steypa henni.“ Og síðan sagði hæstv. ráðh.: „Þessi lítilsigldu viðhorf stjórnarandstöðuflokkana mögnuðust dag frá degi, löngunin til að nota jarðeldana í þeim tilgangi einum að koma pólitísku höggi á ríkisstj. og þegar á reyndi og ríkisstj. hafði frv. sitt tilbúið, kom í ljós, að Gylfi Þ. Gíslason var fallinn frá fyrri stefnu sinni og stjórnarandstaðan í heild neitaði allri samvinnu um lausn samkvæmt þeirri raunsæju stefnu, sem ríkisstj. hafði markað. Einni viku eftir að gosið hófst,“ heldur ráðh. áfram, „á sama tíma og fólkið í landinu var gagntekið brennandi vilja til þess að takast sameiginlega á við vandann, voru þannig allar líkur á því, að Alþingi Íslendinga riðlaðist í tvær stríðandi fylkingar og reynt yrði að nota náttúruhamfarirnar í lágkúrulegum pólitískum tilgangi. Ég efast um, að Alþingi Íslendinga hafi nokkurn tíma sett jafnmikið ofan í mínum huga:

Svo mörg voru þau orð.

Einkenni þessara orða er tvennt: annars vegar lítilsvirðingin á Alþ. og hins vegar lítilsvirðingin á alþm. og starfi þeirra. Það er ekki nýtt, að þessi maður tali með fyrirlitningu um Alþ. Það er frægt, hvernig hann á sínum tíma tók til orða um alþingi götunnar annars vegar og Alþingi Íslendinga hins vegar. Það er engum blöðum um það að fletta, að innst inn í hjarta þessa hv. þm. leynist innileg fyrirlitning á starfsemi stofnana eins og Alþingis Íslendinga.

Hann vill láta stjórna þjóðfélaginu með allt öðrum hætti og hefur dáð stjórnarfar, sem einkennist ekki af lýðræðislegri löggjafarsamkomu, heldur allt annars konar valdaskipan. En þetta er þó aukaatriði. Lítilsvirðingin á Alþingi og ósannindin um Alþingi eru þó hégómi hjá þeim ósannindum, sem hann viðhafði um alþingismenn, störf þeirra og það, sem var að gerast þessa daga.

Hann teflir fram hvoru gagnvart öðru: vilja þjóðarinnar til einingar annars vegar og löngun æfðra stjórnmálamanna í stjórnarandstöðunni til þess að spilla þessari þjóðareiningu og koma illu einu til leiðar. Hann talar með fyrirlitningu um æfða stjórnmálamenn í sama skilningi og talað er um atvinnupólitíkusa. En hver er sá maður, sem þannig leyfir sér að tala? Ég fæ ekki betur séð en að hann sé eini atvinnupólitíkusinn hér á Alþingi, eini þm., sem aldrei hefur unnið ærlegt verk á starfsæfi sinni, nema það að standa í pólitísku stússi. Þetta hygg ég, að eigi ekki við nokkurn annan mann af þeim 60, sem nú eiga sæti á Alþingi. Það vita allir, sem til þekkja, að barnungur tók hann ofstækistrú á eina mestu óheillastefnu, sem komið hefur upp á 20. öldinni í stjórnmálum, kommúnismann. Hann hvarf frá námi til þess að geta gengið í þjónustu stjórnmálablaðs og stjórnmálaflokks, sem hann hefur helgað bókstaflega allt starf sitt síðan. Hann hefur ekki stundað neitt starf síðan, hvorki hér á Íslandi né heldur annars staðar, annað en pólitísk störf. Hann hefur ferðazt um hálfan heiminn sem gestur erlendra kommúnistaflokka og sem gestur ríkisstj. í kommúnistískum löndum. Aldrei hefur hann þó sinnt neinu opinberu starfi í þágu þjóðar sinnar utan landssteinanna, heldur verið erindreki síns blaðs eða síns flokks og gistivinur skoðanabræðra sinna annar staðar. Það er slíkur maður, sem telur sig þess umkominn að tala með fyrirlitningu um æfða stjórnmálamenn í merkingunni atvinnupólitíkusar. Manni þarf ekki að vera sérlega klígjugjarnt til þess að klígja við öðru eins og þessu. Nei, flestir gátu leyft sér að hreykja sér aðrir en þessi maður, með þessa fortíð og þessar skoðanir.

En mergur málsins er auðvitað þessi: Sagði maðurinn satt, eða sagði hann ósatt? Sagði hann satt í því, sem ég las eftir honum áðan um störf, skoðanir og athafnir „æfðra stjórnmálamanna“ (innan gæsalappa) í stjórnarandstöðuflokkum? Nei, því fer víðs fjarri, að það hafi verið orð eða atriði satt í því, sem hann sagði um þetta efni. Ég skal rifja upp í örfáum orðum það, sem raunverulega gerðist. Ríkisstj. gerði tvo flokka tillagna í Vestmannaeyjamálinu, í viðlagasjóðsmálinu. Hið fyrra var frv., sem samið var í tveimur útgáfum, og fékk 7 manna n. seinni útgáfuna senda sem till. ríkisstj. Í þessum till., þessu frv., fólst hugmynd um að fresta kauphækkunum frá 1. marz til haustsins og láta þær renna í viðlagasjóð. En í frv. fólst ekki bara þetta, það fólst líka í því ákvæði um vísitöluskerðingu, það fólst í þriðja lagi í því ákvæði um bann gegn grunnkaupshækkunum til hausts, og til viðbótar þessu ákvæði um 2% hækkun á söluskatti. Hvaða heilvita maður getur nú í dag haldið því fram, að þessar ráðstafanir allar hafi verið nauðsynlegar vegna Vestmannaeyjavandans? Ekki einu sinni hæstv. ráðh. getur verið svo ósvífinn að halda því fram, að vegna Vestmanneyinga hafi verið nauðsynlegt að skerða vísitöluna, að banna grunnkaupshækkanir og hækka söluskattinn um 2% til viðbótar kaupfrestuninni. Kaupfrestunin ein átti að gefa 2050 millj. kr. Það var nokkurn veginn sú upphæð, sem sérfræðingar höfðu talað um, að nauðsynleg væri vegna hörmunganna í Vestmannaeyjum. Kaupfrestunin ein var því nægileg til þess að leysa þann vanda, sem fyrir lá samkv. skýrslum sérfræðinganna, sem bæði ríkisstj. og við í 7 manna n. fengum afhentar. En ríkisstj. ætlaði að gera meira en þetta, henni nægði ekki að fá 2000 millj. kr. í viðlagasjóð vegna Vestmanneyinga. Hún vildi líka skerða vísitöluna. Gat það verið vegna Vestmanneyinga? Hún vildi líka banna grunnkaupshækkanir. Gat það verið vegna Vestmanneyinga? Og til viðbótar vildi hún hækka söluskatt um 2%, sem hefði gefið um 900 millj. kr. Þá var framlagið í sjóðinn orðið u. þ. b. 50% hærra en sérfræðingarnir töldu nauðsynlegt. Ekki hefur það verið vegna Vestmanneyinga. Vegna hverra var það þá? Það var vegna efnahagserfiðleika þeirra, sem ríkisstj. sjálf hafði skapað og áttu ekkert skylt við náttúruhamfarirnar í Vestmannaeyjum. Þeir voru komnir til, áður en eldgosið í Vestmannaeyjum byrjaði. En ríkisstj. vildi nota tækifærið, eins og ég hef hér oft bent á áður, til að leysa eigin vanda, um leið og hún leysti vanda Vestmanneyinga.

Þegar leitað var eftir afstöðu okkar í stjórnarandstöðuflokkunum, svöruðum við í þingflokki Alþfl. strax þannig, að okkur væri alveg ljós sú staðreynd, að á þessu ári gæti ekki orðið um raunverulega kjarabót íslenzkra launþega að ræða, fyrst og fremst vegna hörmunganna í Vestmannaeyjum, og að við værum reiðubúnir til þess að viðurkenna þá staðreynd. Ég lýsti því yfir á ráðherrafundi, eins og ráðh. tók fram í gær, fyrir hönd einhuga þingflokks Alþfl., að við fyrir okkar leyti værum reiðubúnir til að fallast á, að kaupgjaldshækkunin frestaðist til hausts, enda væru þá ekki aðrar ráðstafanir gerðar, sem væru Vestmanneyingum og þeim vanda algerlega óviðkomandi.

En hvað gerðist svo seinna um þessa sömu helgi? Þessa yfirlýsingu gaf ég á laugardagsmorgni. Hvað gerðist svo um þessa sömu helgi? Gerðist það, að það hæfist hér upp samsæri innan Alþfl. eða innan Sjálfstfl.? Nei, það gerðist allt annað, og það veit hæstv. ráðh. jafnvel og ég. Þess vegna er það jafnósvífin ósannsögli og raun ber vitni um, að hann skuli þegja um það, sem gerðist. Það vita flestir þm. líka, ef þeir kæra sig um að vita það. Samt talar hæstv. ráðh. eins og hann talaði í gærkvöld. Það, sem gerðist, var það, að upp kom óeining innan stjórnarflokkana. Nokkrir þm. stjórnarflokkana neituðu að styðja það frv., sem okkur Jóhanni Hafstein hafði verið afhent á laugardagsmorgni. Það kom í ljós daginn eftir, á sunnudegi. Ef stjórnarflokkarnir hefðu staðið saman, ef um einingu af þeirra hálfu hefði verið að ræða, hefði verið alveg óþarfi í sjálfu sér að tala við okkur. Við þökkum fyrir, að það var gert. Við vildum gjarnan, — ég veit, að það sama á við um Sjálfstfl., — við vildum gjarnan láta það koma fram, að við vildum allir standa saman um að hjálpa Vestmanneyingum. En þó við hefðum verið með einhvern uppsteyt, sem við alls ekki vorum, sbr. það, sem ég 1ýsti áðan, þá hefði stjórnin auðvitað getað haft sinn vilja fram, ef hennar menn hefðu staðið saman. Það, sem gerðist hér innan veggja Alþ. eða meðal alþm., var því ekkert samsæri af hálfu stjórnarandstöðu á móti ríkisstj. Það, sem gerðist var einfaldlega það, að nokkrir stuðningsmenn ríkisstj. sögðu: Þessa leið samþykkjum við ekki. Ríkisstj. hefði getað reynt að spyrja okkur í Alþfl. og sjálfstæðismennina: Viljið þið samþykkja kaupfrestunina, þó að nokkrir af okkar eigin mönnum vilji það ekki? — Þeirrar spurningar var aldrei spurt. Við í Alþfl. hefðum tvímælalaust staðið við samþykkt okkar frá föstudeginum, sem ég lýsti á laugardagsmorgni á ráðherrafundi, að láta kauphækkunina 1. marz til hausts renna í viðlagasjóðinn. En eftir að upp var komið, að menn í stjórnarliðinu sjálfu, í tveim flokkum þar, vildu ekki á þetta fallast, þá féll ríkisstj. frá hugmyndinni. Ég þykist líka vita, að ef um samkomulag hefði orðið að ræða, þá hefði Sjálfstfl. getað fallizt á þessa lausn, — það er mér kunnugt um af umr. í 7 manna n. Það hefði m. ö. o. getað orðið samstaða, ef það hefði verið samstaða í stjórnarliðinu. En það var hún, sem á skorti. Það var hún, sem brást. Og samt sem áður leyfir þessi hæstv. ráðh. sér að viðhafa þau orð, sem hann viðhafði hér í gærkvöld. Samsærið, sem hér hófst, var innan stjórnarflokkanna, óeiningin var innan þeirra, en það var ekki deila á milli ríkisstj. og stjórnarandstöðu fyrst og fremst. Þetta er sannleikurinn í málinu.

Það er svo annað mál, að þær till., sem hæstv. ríkisstj. lagði fyrir 7 manna n., eftir að hún hafði fallið frá kaupfrestunartill. sinni, voru ekki heldur að öllu leyti aðgengilegar fyrir okkur í stjórnarandstöðunni. Ríkisstj. hugðist hækka söluskatt um 3%, en ekki fresta neinum opinberum framkvæmdum. Þetta var óaðgengilegt frá sjónarmiði okkar í Alþfl., og það reyndist líka óaðgengilegt frá sjónarmiði Sjálfstfl. Það, sem umr. þróuðust smám saman upp í, var sú till. Alþfl. að hækka söluskattinn ekki nema um 2%, en fresta hins vegar opinberum framkvæmdum um 450 millj. kr. Þetta voru þau tvö deilumál, sem síðast stóðu eftir, að samkomulag var orðið um útsvarshækkunina, um eignarskattshækkunina og aðstöðugjaldshækkunina. Það var deilan um þetta: Á að hækka söluskattinn um 3% eða 2%, og á á móti þessu að fresta opinberum framkvæmdum um 450 millj. kr. eða einhverja lægri tölu eða ekki neitt? Ríkisstj. stóð á því til síðustu stundar að krefjast þess, að söluskatturinn hækkaði um 3%, en opinberum framkvæmdum yrði ekki frestað. Þarna var um að ræða deilu á milli stjórnarflokka annars vegar og stjórnarandstöðu hins vegar. En ríkisstj. gaf sig þarna fyrir stjórnarandstöðunni, eins og hún áður hafði gefið sig gagnvart eigin mönnum. Hún féllst á að hækka söluskattinn ekki nema um 2%, en frestaði opinberum framkvæmdum um 160 millj. kr. og tók 160 millj. kr. úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Það, sem við vildum hafa 450 millj., varð ekki nema 320 millj. En á þetta samkomulag féllumst við í stjórnarandstöðunni, þannig að um allsherjarsamkomulag varð að ræða undir forustu hæstv. forseta Sþ.

Á þessa deilu minntist hæstv. ráðh. ekki. Af hverju ekki? Af því að hún var deila á milli stjórnar annars vegar og stjórnarandstöðu hins vegar um það, hvort söluskatturinn skyldi hækka um 2% eða 3%. Stjórnin vildi hækka hann um 3%, við í stjórnarandstöðunni aðeins um 2%. Um þetta þagði hæstv. ráðh., og hefur honum þó ekki getað verið ókunnugt um staðreyndir í þessu máli, hvað hvor vildi á þessu sviði. En það mun ekki þýða að reyna að leyna þjóðina því, að það er stjórnarandstöðunni að þakka, að söluskattur er nú ekki 3% hærri en hann var fyrir nokkrum vikum, það er ekki ríkisstj. að þakka, að svo er. Það er stjórnarandstöðunni að þakka, að hann hækkaði ekki nema um 2%, en ekki, eins og stjórnin vildi, um 3%.

Þessi málflutningur af hálfu hæstv. iðnrh. er einsdæmi. Það er einsdæmi, að ráðh. leyfi sér að segja Alþ. og þjóðinni beinlínis ósatt, vísvitandi ósatt um atburði, sem hér gerðust fyrir örfáum vikum og eru á vitorði flestra þm., allra þeirra, sem vilja vita sannleikann í málinu. Það er einsdæmi, að þegar uppreisn verður í liði ríkisstj. og hún verður af þeim sökum að breyta till. sínum, þá skuli einn maður í ríkisstj. leyfa sér að steinþegja um þessa staðreynd, en brigzla síðan stjórnarandstöðuflokkum, stjórnarandstæðingum, um óheilindi, rangindi og fláræði. Sérstaklega er þetta ósmekklegt og óviðeigandi eftir þær undirtektir, sem ríkisstj. hafði fengið af hálfu stjórnarandstöðuflokkanna beggja og þá ekki sízt af hálfu míns flokks, sem hafði mjög skjót viðbrögð í frammi gagnvart miklum vanda og svaraði að því er ég taldi þá og tel enn, mjög jákvætt. Þetta eru þakkirnar, sem Alþfl. vegna ábyrgrar stjórnarandstöðu fær eftir á, að það er sagt algerlega og vísvitandi ósatt um afstöðu hans og honum brigzlað um óheilindi og fláræði. Þetta er málflutningur, sem er engum ráðh. og engri ríkisstj. til sóma. Hafi Alþ. sett niður undanfarna viku, hefur það aldrei sett jafnmikið niður og í gær við það, að slík ræða var flutt héðan úr sölum Alþ. til þjóðarinnar allrar.

Nei, staðreyndir þessa máls eru ofureinfaldar. Ríkisstj. hefði átt að hafa meiri hl. fyrir þeirri till., sem hún sýndi þm. En það er dæmi um vinnubrögð ríkisstj., að hún gáði ekki að því á laugardegi, hvort hún hefði meiri hl. fyrir frv., sem hún ætlaði sér að leggja fram á Alþ. á mánudegi. Hún gáði ekki að því. Hún talar ekki við sína eigin menn, ekki einu sinni við þá valdamestu í hópi þeirra, svo sem forseta Alþýðusambands Íslands. Hún hefur afhent formönnum stjórnarandstöðuflokkanna frv., áður en forseti Alþýðusambandsins sér það. Þetta eru auðvitað algerlega óverjandi vinnubrögð og ekki von, að vel fari, þegar slík vinnubrögð eru viðhöfð. Ef ríkisstj. hefði haft meiri hl. fyrir því, sem hún vildi gera, fyrir fyrra frv. umræddan laugardag, þá hefði það orði að lögum strax eftir helgina, hvað sem við segðum í stjórnarandstöðunni. En hún hafði ekki þann meiri hl. Það var auðvitað ástæðan fyrir því, að kauphækkuninni var ekki frestað. Og af hverju var vísitalan ekki skert? Ekki vantaði ríkisstj. viljann. En hún hafði ekki stuðning eigin manna til þess. Og af hverju voru grunnkaupshækkanir ekki bannaðar? Ekki vantaði ríkisstj. viljann. Það var af því að hennar eigin menn vildu ekki samþykkja, að það væri gert. Og enn má spyrja: Af hverju er áfengi og tóbak ekki tekið út úr vísitölunni? Stjórnarflokkarnir eiga að heita að hafa meiri hl. á Alþ. Það er ekki gert. Af hverju? Er það vegna andstöðu okkar í Alþfl. eða Sjálfstfl.? Nei, auðvitað ekki. Það er vegna andstöðu manna innan stuðningsliðs stjórnarinnar sjálfrar. Þetta eru auðvitað augljósar staðreyndir. Það, sem veldur því, að ríkisstj. hefur ekki komið fram vilja sínum í hverju málinu á fætur öðru á undanförnum vikum, er ekki andstaða stjórnarandstöðuflokkanna, — auðvitað ekki. Það er andstaða manna innan stjórnarliðsins sjálfs. Það er þess vegna, sem mér blöskraði jafnmikið og mér gerði, þegar ég heyrði þá lýsingu hæstv. ráðh. hér í ræðustólnum í gærkvöld, að innan stjórnarandstöðunnar væru að verki öfl, sem hefðu viljað vinna gegn sjálfsagðri þjóðareiningu við lausn Vestmannaeyjavandans, þegar hann hélt því fram, að stjórnarandstöðuflokkarnir hefðu haft í frammi óþjóðhollt athæfi, þegar hann hélt því fram, að ástæðan til þess, að fyrsta hugmynd ríkisstj. hefði ekki náð fram að ganga, væri sök óþjóðhollra athafna af hálfu stjórnarandstöðuflokkanna. Þessi maður hlaut að vita það og hlýtur að vita það, að ástæðan til þess, að hugmyndin náði ekki fram að ganga, var andstaða meðal stuðningsmanna hans sjálfs, stuðningsmanna ríkisstj. hér á hinu háa Alþ. Óeiningin var m. ö. o., — og það verða síðustu orð mín,óeiningin var ekki milli stjórnar og stjórnarandstöðu í Vestmannaeyjamálinu, óeiningin var innan stjórnarflokkanna sjálfra. Þetta vissi og veit hæstv. iðnrh., Magnús Kjartansson. En hann kaus að segja þingi og þjóð ósatt.