06.03.1973
Sameinað þing: 54. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2379 í B-deild Alþingistíðinda. (1807)

136. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasyni fyrir að lesa hér aftur alllangan kafla úr þeirri ræðu, sem ég flutti hér í gær. Ég hef sannarlega ekkert við það að athuga, að það efni, sem í henni fólst, sé rifjað upp á nýjan leik, einmitt í því formi, sem ég flutti það. Vanstilling þessa hv. þm. sýnir mér einnig, og það er ánægjuefni, að hann á enn þá til dálítinn snefil af sómatilfinningu og samvizku. Þetta, sem ég sagði hér á þingfundi í gær, hefur greinilega komið við hann. Hins vegar er dálítið djúpt á hvoru tveggja hjá hv. þm., því að í gær svaraði hann einnig þessari ræðu minni, og ég tók alveg sérstaklega eftir því, hvernig orðalag hans var þá. Hann var þá að ræða um viðlagasjóðinn og lagasetninguna um hann. Og hann komst svo að orði: „Stjórnarandstaðan var ekki í neinni klípu. Það var ríkisstj., sem var í klípu.“ Þarna er um að ræða einhverjar mestu náttúruhamfarir, sem orðið hafa á Íslandi, gífurlegt áfall fyrir allan okkar þjóðarbúskap. En í munni þessa hv. þm. var þetta bara klípa ríkisstj. Þetta orðalag sýnir ákaflega vel viðhorf hins æfða stjórnmálamanns, sem getur ekki horfið úr því hlutverki. — (Gripið fram í.) Ég hlustaði á þetta með eigin eyrum. (Gripið fram í.) Hv. þm. sagði, að stjórnarandstaðan væri ekki í neinni klípu, það væri ríkisstj., sem væri í klípu. (GÞG: Það var ekki það, sem ég sagði áðan um efnahagsvandann, það er allt annað.) Er Vestmannaeyjavandinn og efnahagsvandinn tvennt ólíkt? Það er líka sú kenning, sem fram kemur hjá þessum hv. þm., að það sé tvennt ólíkt. Mér er spurn: Hver er skilningur hv. þm. á Vestmannaeyjum? Veit hann ekki, að Vestmannaeyjar hafa verið forustustöð í útflutningsiðnaði Íslendinga, að þar hefur verið framleiddur um 1/7, hluti af öllum útflutningsverðmætum í fiskiðnaði okkar? Veit hann ekki, að þegar slík miðstöð hverfur út úr efnahagskerfi þjóðarinnar, þá er þar um að ræða óhemjulegt efnahagsáfall fyrir þjóðina alla? Og það er eins fráleitt og nokkuð getur verið að ætla að skilja þetta tvennt að og tala um að hjálpa Vestmanneyingum, eins og hér er alltaf gert. Við verðum að hjálpa sjálfum okkur, þjóðin öll, allir Íslendingar. Við erum ekki að hjálpa Vestmanneyingum, við erum að hjálpa okkur sjálfum.

Ég sé ekki ástæðu til þess að svara þeim persónulega skætingi, sem hv. þm. hreytti í mig. Ég hef heyrt þennan hluta ræðu hans nokkrum sinnum áður hér á Alþ. Ég heyrði hann m. a. skömmu fyrir kosningarnar 1971. Þá var málflutningur af þessu tagi lagður undir dóm kjósenda hér í Reykjavík. Kjósendur áttu að dæma um okkur hv. þm. Gylfa Þ. Gíslason. Hann kom svo fram fyrir kjósendur hafandi verið ráðh. í 15 ár og þeirrar skoðunar, að hann ætti að vera ráðh., meðan hann gæti setið í stólnum. Hann hefur vafalaust litið þannig á, að hann væri sjálfkjörinn forsrh. á Íslandi. En kjósendur í Reykjavík reyndust vera æðimikið á annarri skoðun. Sá flokkur, sem þessi hv. þm. veitir forstöðu, og listi hans beið einhvern herfilegasta kosningaósigur, sem um getur í sögu þjóðarinnar. En sá flokkur, sem ég heyri til, vann mjög myndarlegan sigur, sem leiddi til þess, að núv. ríkisstj, var mynduð, en þessi hv. þm. varð að hverfa úr ráðherrastóll. Þetta er sá dómur, sem máli skiptir, þegar um slíkt er að ræða. Mér er alveg sama, hvað þessi hv. þm. segir um mig. Það eru kjósendur, sem skera úr um það, hvað máli skipti og hvað skipti ekki máli í þessu sambandi.

Mér þótti ákaflega fróðlegt, þegar hv. þm. sagði, að það hefði legið fyrir, að bæði Alþfl. og Sjálfstfl. hefðu getað fallizt á meginatriðin í því frv., sem ríkisstj. hafði upphaflega samið. Þetta þótti mér ákaflega fróðlegt. En hann sagði, að viðhorfin hefðu gerbreytzt, þegar í ljós hefði komið, að ágreiningur hefði verið innan stjórnarflokkanna. Það er vissulega rétt, að það var ágreiningur um þetta innan stjórnarflokkanna, og það hefur oft komið upp ágreiningur innan stjórnarflokkanna. Ég hef verið óánægður með margt, sem gert hefur verið á vegum þessarar ríkisstj., en ég hef talið það alveg sjálfsagt mál að beygja mig fyrir — ja, flokksbræðrum mínum stundum og samstarfsmönnum til þess að halda stjórnarsamstarfinu áfram, vegna þess að þar hefur verið um að ræða stórmál, sem ég taldi miklu meiru skipta en slík minni háttar ágreiningsefni. Ég tel, að um þetta hefði einnig getað tekizt samstaða. En þá tók við þessi leikur hinna æfðu stjórnmálamanna.

Ég vil vekja athygli á, að því fer ákaflega fjarri, að þær till., sem við lögðum fram í þessu frv., væru í samræmi við almennar þjóðfélagslegar hugmyndir t. d. okkar Alþb.-manna. Þarna var verið að grípa til ráðstafana, sem menn grípa ekki til á eðlilegum tímum. Það var ekki auðvelt fyrir okkur að gera ýmsar þær till., sem í þessu frv. fólust. Við vorum þar ekki neitt að sýnast. Við vorum að leggja á þjóðina í landinu, almenning, líka það fólk, sem við erum hér sérstakir fulltrúar fyrir, þungar byrðar, vegna þess að við töldum það óhjákvæmilegt. Þetta var engin sýndarmennska. En það voru þessir æfðu stjórnmálamenn, sem sáu, að þarna væri kannske möguleiki á að komast inn í einhverjar sprungur í stjórnarsamstarfinu, og þá tóku þeir þetta fram yfir öll önnur viðhorf. Ég fylgdist nákvæmlega með þessu frá degi til dags, og ég verð að segja það, að það fór hreinlega hrollur um mig, þegar ég sá, hvernig reynt var að nota áföll af þessu tagi í mjög lágkúrulegum pólitískum tilgangi. Ég fylgdist með þessu dag frá degi, og það, sem ég sagði um þetta í gær, er allt staðreyndir.

Ég held, að þær umr., sem hafa farið fram á þinginu bæði í gærkvöld og nú í dag, séu í ákaflega miklu ósamræmi við viðhorf almennings utan þessara sala. Ég held, að við eigum öll að íhuga það í fullri alvöru, að sá hráskinnsleikur, sem nú er iðkaður í sölum Alþ., er ekki í samræmi við þá löngun almennings, að menn snúi nú bökum saman og komi sér á sem skemmstum tíma út úr þeim miklu örðugleikum, sem þjóðin á við að etja. Þegar það er búið, getum við farið að takast á á nýjan leik. En svona tilburðir, till, um vantraust, till. um, að nú skuli allt snúast um heiftarlega pólitíska baráttu í landinu á næstu mánuðum, að við sinnum ekkert um þessi alvarlegu vandamál, sem blasa við þjóðinni, — þetta átti allt að leysast upp í pólitískt þvarg og pex, — þær sýna ákaflega vel, hvað vissir menn hér á þingi eru orðnir fjarlægir þjóðinni og fjarlægir þeim vandamálum, sem við erum kjörnir á þing til þess að leysa.