07.03.1973
Efri deild: 66. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2389 í B-deild Alþingistíðinda. (1815)

Umræður utan dagskrár

Þorv. Garðar Kristjánsson; Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir svar hans og sérstaklega það, sem kom fram í hans ræðu, að hann er mér sammála um, að það sé rétt að hafa skynsamlega og jafna verkaskiptingu á milli deildanna. Ég átti raunar ekki von á öðru en að hæstv. forsrh. lýsti þessari skoðun, því að ég minnist þess, að hann hefur sjálfur staðið í stjórnarandstöðu og í þeim sporum, sem ég stend nú, og haldið fram því sjónarmiði, sem ég hef hér verið að túlka.

Ég lít þannig á, að hæstv. forsrh. hafi ekki verið að bera brigður á þær upplýsingar, sem ég gaf hér áðan. En það er rétt, að þær tölur, sem ég nefndi, eru ekki miðaðar við allt þinghaldið í ár. Og það er að sjálfsögðu ágætt að gera heildarskýrslu, það kann að breyta einhverju. En hugboð mitt er, að það breyti ekki neinu verulega í þessu efni. Það er staðreynd, að vinnubrögð ríkisstj. hafi verið óeðlileg í þessu efni á öllu þinginu. En hæstv. forsrh. sagði og lagði áherzlu á, að hann teldi, að hann sjálfur hefði gætt sín í þessum efnum. Ég vil ekki bera brigður á það. Ég vil enn fremur segja það, að það urðu þau mistök í því, sem ég sagði áðan, að ég nefndi frv. um framkvæmd eignarnáms sem dæmi um verkefni Nd. Það er rétt, að það frv. var borið fram í Ed. og er í mínum frumgögnum fært þannig.

En hæstv. forsrh. getur ekki látið sér nægja, að varðandi þau frv., sem hann ber fram, gæti jafnvægis í þessum efnum. Það getur verið fullkomlega óviðunandi ástand, þó að svo sé háttað. Hæstv. forsrh. ber skylda til þess að sjá svo um, að hans undirmenn í ríkisstj. hagi störfum þannig í þessum efnum, að úr verði bætt. Það er það, sem máli skiptir, og það er með það í huga, sem ég geri aths. Ég vil mega treysta því, að það verði einhver lagfæring í þessum efnum.

Ég skal að öðru leyti ekki fjölyrða um annað í þessu sambandi. Hæstv. forsrh. ræddi nokkuð um samanburð á Nd. og Ed. og sagði lofsamleg orð um þessa hv. d. í því sambandi. Allt, sem hæstv. ráðh. sagði um það, er til stuðnings því sjónarmiði, að það ætti að treysta Ed. fyrir meiru en raun hefur orðið á undanförnum vikum.

Hæstv. forsrh. sagðist ætla að leiða hjá sér það, sem ég vék að varðandi það ástand, sem skapazt hefur í þinginu vegna yfirlýsingar hv. þm. Bjarna Guðnasonar. En þó að hæstv. ráðh. vildi leiða þetta hjá sér, fannst mér hann gefa nokkuð athyglisverða yfirlýsingu í því efni. Það má segja, að það sé óbein yfirlýsing, þegar hann sagði, að það mætti þá jafna metin milli d. með því að fá hér harðan dómara í þessari d. úr stjórnarandstöðunni. Þetta er algerlega rétt, ef hæstv. forsrh. lítur svo á, að hv. þm. Bjarni Guðnason sé þegar kominn í stjórnarandstöðuna. Annars er ekki hægt að líkja þessu saman. En ég held, að hæstv. forsrh. þurfi ekki að óttast það, að stjórnarandstaðan í þessari d. muni ekki gegna sinni frumskyldu, að berjast móti ríkisstj. og gagnrýna hana.

Fleira, sem hæstv. forsrh. sagði, var á sömu lund. Mér fannst það ekki vera rök gegn því, sem ég var að ræða, heldur því til stuðnings, ef eitthvað væri. Hann sagði m. a., að það væru fleiri menn í Nd. og þeir töluðu meira. Það virðist þá rökrétt, ef við höfum þetta í huga, að leggja ekki svo mikið á þann hóp manna, sem þarf að tala svo mikið og miklu meira en þarf að ræða í þessari d. Hæstv. ráðh. talaði um, að störf d. færu ekki einungis eftir því, hvað ríkisstj. legði til málanna eða legði fram af frv., heldur líka eftir þmfrv. Það er alveg rétt. Ég fór ekki nákvæmlega út í þau litlu störf, sem fram hafa farið í þessari hv. d. eftir jólaleyfið. Ég taldi ekki ástæðu til þess að vera að tíunda það, en bróðurparturinn af því, sem hér hefur verið fengizt við, er meðferð á þmfrv. En ég skal ekki vera að lengja þessar orðræður með því að fara að rekja nánar, hvaða frv. þetta eru og hve miklar umr. hafa verið um þau. Það hafa sáralitlar umr. verið um annað.

Með því að ég fór ekki að tíunda öll þau mál, sem hér hafa komið fyrir, þá nefndi ég ekki stjfrv. um lögreglustjóra á Höfn. Það er alveg rétt, að hæstv. ríkisstj. hefur borið það frv. fram, eins og við vitum allir. Hins vegar var nokkuð sögulegt, þegar það kom til 1. umr. Það var í upphafi ekki mælt fyrir því, því að hæstv. forsrh. var ekki viðstaddur í d., hvort sem það hefur verið vegna þess að hann hefur verið önnum kafinn í hv. Nd., eða af öðrum ástæðum. En ég minntist ekki á einstök mál, vegna þess að ég vildi ekki tefja umræðu þessa of lengi. Ég hygg, að það verði að líta svo á, að það sé vegna hugsunarleysis, hirðuleysis og skipulagsleysis í vinnubrögðum, sem hæstv. ríkisstj. hefur viðhaft þessi vinnubrögð, að fela þessari hv. d. svo lítil verkefni. Ég hygg, að það hafi komið fram. Hitt, hvort hér er eitthvað meira, sem býr undir, og eitthvað í sambandi við ástandið á stjórnarheimilinu og yfirlýsingu eins af fyrrv. stjórnarstuðningsmönnum, skal ég láta ósagt. Ég bíð þess að sjá, hverju fram vindur í þeim efnum.