30.10.1972
Efri deild: 7. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í B-deild Alþingistíðinda. (182)

24. mál, tímabundnar efnahagsráðstafanir

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til þess að óska eftir því hreinskilningslega sagt, að hæstv. forsrh. svari nokkuð þeim fsp., sem til hans var beint hér í hv. d. af hv. 2. þm. Norðurl. e. Mér finnst það lágmark, að við þm. fáum upplýsingar frá hæstv. forsrh. um ýmis þau atriði, sem hv. 2. þm. Norðurl. e. vakti athygli á. Sannleikurinn er sá, að það vakti töluverða athygli, þegar hæstv. forsrh. ræddi hér nokkuð um frv. til l. um tímabundnar efnahagsráðstafanir, að hann sagði í öðru hverju orði, að það væri sín persónulega skoðun. Nú er það út af fyrir sig fróðlegt að vita persónulegar skoðanir hæstv. forsrh., en það er nauðsynlegt að undirstrika, að hæstv. forsrh. ber stjórnskipulega ábyrgð á verkum og skoðunum ríkisstj. í heild. Það er því krafa þm. almennt, að fram komi skoðun ríkisstj. sem slíkrar, fram komi sú stefnumótun af hálfu hæstv. ríkisstj , sem boðuð hefur verið, en lítið hefur sézt bóla á nema að því er snertir persónulegar skoðanir hæstv. forsrh.

Það var vakin athygli á því í umr. hér um þetta mál í fyrri viku, að núv. hæstv. ríkisstj. hefði haft mörg og stór orð um þann vanda, sem stæði fyrir dyrum við lok verðstöðvunar þeirrar, er sett var í nóv. 1970. Það bar mjög á góma í kosningabaráttunni fyrir alþingiskosningarnar 1971, hvaða úrræði væru til staðar til úrlausnar þeim vanda, er biði við lok þeirrar verðstöðvunar. Það var held ég ekki ofmælt, að það væri loforð núverandi stjórnarflokka að sjá svo um, að þeirri hrollvekju, sem þá mundi koma, yrði bægt frá dyrum Íslendinga.

Nú vildi ég gjarnan spyrja hæstv. forsrh.: Hvaða ráðstafanir hefur núv. stjórn gert í þeim efnum? Við höfum ekki orðið vör neinna sérstakra ráðstafana að þessu leyti. Og sannleikurinn er sá, að núv. stjórnarliðar kenna verðstöðvuninni 1970 eða lokum hennar nm verðhækkanir, sem síðan hafa orðið. Það var að vísu svo, að hv. 2. þm. Norðurl. e. fór nokkuð inn á þessi efni, og þess vegna er ekki ástæða fyrir mig að endurtaka mjög mikið af því í þessum umr. En ég vil þó taka það skýrt fram, að sé það rétt hjá hæstv. forsrh. og stjórnarliðum, að þær verðhækkanir, sem orðið hafa í tíð núv. stjórnar séu fyrrv. stjórn að kenna, þá er það þó alveg ljóst, að núverandi stjórn hefur mistekist að bægja hrollvekjunni frá dyrum íslendinga, mistekist að efna það loforð sitt.

Nú vil ég halda því fram, að lok verðstöðvunarinnar frá 1970 hefðu ekki þurft að vera neitt vandamál í sjálfu sér, nema til hefði komið málefnasamningur núv, hæstv. ríkisstj., sem að vísu hefur verið kallaður Ólafskver, en má miklu fremur kalla „óðinn til verðbólgunnar“. Þar er í flestum atriðum um að ræða þá loforðaskrá, sem gerir það að verkum, að eyðslan er aukin, útgjöld atvinnuveganna eru hækkuð og í kjölfar og samhliða fer hækkandi verðlag í landinu. Þetta hefur og orðið orð að sönnu í þeirri reynslu, sem við höfum vitnisburð um á liðnum mánuðum.

Nú vildi ég spyrja hæstv. forsrh., hvað valdi því, að hann telji nú nauðsynlegt að taka kaupgreiðsluvísitöluna úr sambandi, þegar hann ræðir um væntanlegar efnahagsráðstafanir, en var á móti því, að svo litlu leyti sem verðstöðvunarl. frá nóv. 1970 gerðu ráð fyrir slíku. Þau gerðu ráð fyrir því, að frestað yrði greiðslu tveggja vísitölustiga til loka verðstöðvunar þá, 1. sept. 1971. Hæstv. forsrh. beitti sér gegn því. Þá hafði hann engan skilning á nauðsyn þessa. Í verðstöðvunarl. frá 1970 var gert ráð fyrir því, að tiltekin ein hækkun á áfengi og tóbaki kæmi ekki fram í kaupgreiðsluvísitölunni. Nú hefur hæstv. forsrh. sagt bæði í blaðaviðtali í Morgunblaðinu og túlka má orð hans í hv. þd. í síðustu viku á sömu lund, að það sé óheilbrigt, að verðhækkanir á áfengi og tóbaki komi fram í kaupgreiðsluvísitölunni. Ég vil spyrja hæstv. forsrh., hvað valdi skoðanaskiptum hans.

Það hefur verið sagt hér á þingi, bæði í Sþ. og hv. þd., að allir mögulegir mátar hafi verið nýttir um útreikning á kaupgreiðsluvísitölu og tengslum hennar við framfærsluvísitölu, það hafi ýmist verið boðað, að kaup skyldi greitt samkv. kaupgreiðsluvísitölu eða það hafi verið lagt á vald aðila vinnumarkaðarins að semja um grunnkaup með tilliti til þess framfærslukostnaðar, sem verið hefur á hverjum tíma, og allt þar á milli. Gott og vei. Það er sjálfsagt alveg rétt, að margar leiðir hafa verið reyndar í þessum efnum. En ég hygg, að við sjálfstæðismenn höfum ávallt verið sjálfum okkur samkvæmir og gert okkur grein fyrir því, að ekki væri unnt að haga svo kostnaði atvinnuveganna í landinu, að þeir stöðvuðust. Og við höfum viljað horfast í augu við vandann og gera þær samræmdu ráðstafanir, sem dygðu til þess, að fjármagnið leitaði til atvinnuveganna og atvinnuvegirnir blómstruðu, gætu umfram allt veitt trygga og örugga atvinnu, sem ein væri grundvöllur batnandi lífskjara í landinu. Þegar því hefur verið að skipta og nauðsyn hefur krafið, eins og talið var, þegar verðstöðvunarl. 1970 voru sett, þá var horfzt í augu við það, að ekki var unnt að greiða laun samkv. kaupgreiðsluvísitölunni að fullu. Það var frestað tveim vísitölustigum um nokkurra mánaða skeið, og það var tekin tiltekin hækkun á áfengi og tóbaki út úr vísitölunni. En núverandi hæstv. ríkisstj. fer hins vegar aftan að launþegunum og reynir að blekkja launþegana, kemur ekki beint framan að þeim og segir, hvað er nauðsynlegt í hverju tilviki. Þegar t.d. hæstv. forsrh. segir, að það kosti 1000 millj, kr. að halda vísitölunni í 117 kaupgreiðsluvísitölustigum, þá er þar ekki nema hálfsögð sagan. Það kostar e.t.v. þessa upphæð að því tilskildu, að fjárheimtan, hækkun söluskatts eða innflutningsgjald, sé ekki reiknað með í framfærsluvísitölunni eða kaupgreiðsluvísitölunni. Ef það ætti að afla fjár, sem nægilegt væri til þess að bera uppi þetta án þess að slíta þessi tengsl milli framfærslukostnaðar og vísitölunnar, þyrfti meira en tvöfalda þessa upphæð eða e.t.v. á 3. þús. millj. kr. Það er þess vegna ljóst, að það hefur ekki verið komið beint framan að mönnum, að það, sem hæstv. forsrh. meinar, er, að þarna geti komið til þess að fresta greiðslu eða fella niður — réttara sagt — greiðslu á um það 10 vísitölustigum, og það er í raun og veru það erindi, sem hann mun eiga við væntanlegt Alþýðusambandsþing. Það voru einu sinni borin fram slík tilmæli, og ég efast um, að þau tilmæli hafi í sjálfu sér haft í för með sér tilslökun af hálfu Alþýðusambandsþings. Þeim var hafnað. Ég skal engu spá um, hverjar móttökur málaleitan hæstv. forsrh. fær nú. Ég er ekki heldur að leggja neinn dóm á það, hvort hér sé um nauðsyn að ræða eða ekki. Ég hygg, að gögn málsins hafi alls ekki verið lögð fram í heild sinni og það sé nauðsynlegt, að svo sé gert. Það hefur t.d. verið nefnt til viðbótar þessum mismun á fjárþörf, sem um er að ræða eftir því, hvort taka á kaupgreiðsluvísitöluna úr sambandi eða ekki, og nemur þarna 1000–1500 millj., þá hefur hæstv. forsrh. ekki gefið neinar upplýsingar um, hvað ætlunin sé að gera varðandi þær niðurgreiðslur, sem þegar eru hafnar í sambandi við 15% hækkun fiskverðs núna 5. okt. s.l. og kosta ríkissjóð allt að 1000 millj. kr. á ársgrundvelli. Það er að vísu hugsanlegt, að hæstv. forsrh. ætli verðjöfnunarsjóði sjávarafurða að standa undir þessum greiðslum, en þá mun hann líka vera uppurinn. Þar byggir hann vonir sínar á skynsamlegri sjóðsmyndan fyrrv. hæstv. ríkisstj. Það má líka draga það í efa, að hæstv. forsrh. hafi af hreinskilni sagt, hve vandinn væri stór hér í hv. þd. í s.l. viku, þegar hann taldi ekki fram að mínu viti nægilega vel, að auðvitað er að lokinni þeirri verðstöðvun, sem nú stendur, eftir hækkunarþörf ýmissa þjónustugreina og atvinnuvega, sem selja vörur sínar og þjónustu á innlendum markaði og verða að fá þá hækkunarþörf uppi borna, ef sú þjónusta og þeir atvinnuvegir eiga ekki að því leyti að stöðvast. Og það var ekki heldur greint frá fjárþörf útflutningsatvinnuveganna og iðnaðar. Allt þetta gerir það að verkum, að við á þessu stigi fáum ekki upplýsingar frá opinberum aðila um það, hve vandinn er stór, og það að taka einn hluta vandans út af fyrir sig, eins og hæstv. forsrh. gerði, er auðvitað að taka vandamálin vettlingatökum. Hæstv. forsrh. gat um, að ýmsir opinberir aðilar, eins og sveitarfélög, hefðu viljað fá hækkanir á vörum sínum og þjónustu við lok verðstöðvunarinnar frá nóv. 1970, sem núv. ríkisstj. framlengdi frá 1. sept. fyrst til áramóta og síðan í raun fram til þessa.

Það er út af fyrir sig auðvelt verk að samþykkja verðstöðvun. Hitt er annað mál, að slíkt hefur í för með sér, að eðlilegar verðlagsbreytingar þróast ekki, og verðlagsbreytingar geta orðið einnig til lækkunar. Það er svo, að frjáls verðlagsmyndun er æskilegust, en skilyrði frjálsrar verðlagsmyndunar er jafnvægi í þjóðarbúskap og jafnvægi í ríkisbúskap, að framboð og eftirspurn standist á. Núv. hæstv. ríkisstj. hefur gætt þess vandlega að stofna til misvægis, hefur gætt þess vandlega að útbúa og framkvæma svo fjárlög, að um halla á ríkisbúskap er að ræða. Okkur er öllum kunnugt um, að þau þrjú ár, sem ferill og fyrirætlanir hæstv. ríkisstj. taka til, þ.e. seinni hluta ársins 1971, árið 1972 og 1973, að því er gerð fjárlagafrv. snertir, byggist hún á því, að ríkisstj. ætlar viðskiptahalla upp á mörg þús. millj. kr. að ríkja hvert þessara ára. Að hluta til er þessi halli kominn fram, að öðru leyti er hann fyrirhugaður. Það er vitað mál, að í slíku árferði og við slíka stjórnarhætti er ekki frjáls verðlagsmyndun til staðar, og þá nýtum við ekki kosti frjálsrar verðlagsmyndunar, vegna þess að frjáls verðlagsmyndun ein er til þess fallin að sjá svo um, að allir framleiðsluþættir þjóðarinnar séu nýttir á sem beztan hátt; þ.e.a.s. að vinnu, vélum og fjármagni sé einbeitt í þeim atvinnugreinum, sem gefa mestan og beztan arðinn og geta þess vegna til langs tíma greitt launþegum hæsta kaupið.

Það er þess vegna ekki eðlilegt ástand að kveða á um verðstöðvun til langs tíma. Verðstöðvun getur verið góð og gild um stuttan tíma, meðan verið er að aðlaga snöggar breytingar langtímaþróun. Þetta var tilgangur verðstöðvunarinnar í nóv. 1970, vegna þess að talið var, að kostnaðarhækkanirnar gætu jafnvel orðið til þess að stefna afkomu atvinnuvega landsmanna í hættu. Í þeirri von, að afurðaverð á erlendum markaði færi hækkandi, var dregið úr kostnaðarhækkunum eða hraða þeirra Þetta tókst. Hvort tveggja átti sér stað. Úr þessum hraða var dregið með verðstöðvun inni, og hækkandi verðlag á erlendum mörkuðum gerði atvinnuvegunum mögulegt að starfa með fullum afköstum.

Það var þess vegna lítill vandi á höndum við lok verðstöðvunarinnar, sem stofnað var til í nóv. 1970 og átti að standa til 1. sept. 1971. Þeim vanda átti núv. stjórn að vera viðbúin að mæta, og hún sannaði það með fyrstu aðgerðum sínum, að hún gerði ekkert úr þeim vanda. Hún flýtti, eins og kunnugt er, um einn mánuð greiðslu þessara tveggja vísitölustiga, og hún stofnaði til aukinna útgjalda atvinnuvegunum til handa, sem út af fyrir sig má segja, að hefðu verið góð og gild fyrir þá, sem þeirra nutu, ef atvinnuvegirnir hefðu haft efni á þeim: styttingu vinnutíma, lengingu orlofs, og síðan lofar hún 20% kaupmáttaraukningu. En þótt fyrri verðstöðvun ætti að gilda til 1. sept. 1971 með tilliti til þess, að sú ríkisstj., er tæki við að loknum alþingiskosningunum það vor, hefði ráðrúm til þess að marka sína eigin efnahagsstefnu, og þrátt fyrir það, að núv. stjórnarliðar töluðu margt og mikið um nauðsyn slíkrar stefnumótunar, þá var ekki um neina slíka stefnumótun að ræða, nema að því er varðaði málefnasamning ríkisstj., sem er samnefndur „óður til verðbólgunnar“, eins og ég gat um áðan. Ríkisstj. frestaði þessu til áramóta síðustu, kom þá með hæstu fjárlög, sem um getur, sem juku enn á spennuna. Ríkisstj. gerði ekkert um mitt þetta ár annað en samþykkja þessi brbl. um tímabundnar ráðstafanir, sem áttu ekki að standa nema til ársloka, og fól ákveðnum mönnum gerð valkosta. Enn hefur ekki bólað á þeirri álitsgerð, enn höfum við ekki séð nema að hluta til og á mjög ófullkominn hátt, hvað fyrir ríkisstj. vakir, ef dæma má persónulegar skoðanir hæstv. forsrh.

Nú liggur í augum uppi, að þessara úrræða er þörf. Um það er ekki deilt. Spurningin er þá: Er ætlun hæstv. ríkisstj. að koma fram með þessi úrræði til umr. á Alþ. nú næstu daga eða allra næstu vikur? Eða ætlar hæstv. ríkisstj. að reyna að fresta úrræðum, humma málið fram af sér, þar til síðustu daga þings fyrir jól, og afgreiða þá einhverjar þær ráðstafanir, sem grípa ekki á vandamálunum nema að litlu leyti og leyna þjóðina að öllu eða flestu leyti þeim vanda, sem hún stendur frammi fyrir af völdum núv. hæstv. ríkisstj.? Þær verðhækkanir, sem eftir eiga að koma og óhjákvæmilegar eru, eru af völdum núv. hæstv. ríkisstj., það má öllum vera ljóst. Þess vegna er það svo, að ríkisstj. er, þegar hún er að ræða þennan vanda og gera till. um lausn hans, að kveða niður sinn eigin draug. Ég vonast til þess, að hún hafi manndóm til slíks og henni takist það, en vinnubrögðin eru ekki efnileg.