07.03.1973
Neðri deild: 61. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2423 í B-deild Alþingistíðinda. (1830)

167. mál, Lyfjastofnun ríkisins

Stefán Gunnlaugsson:

Herra forseti. Hæstv. heilbr.- og trmrh. fór í upphafi máls síns hér áðan nokkrum almennum orðum um frv. um Lyfjastofnun ríkisins og einnig um frv. um lyfjaframleiðslu. Ég ætla ekki við þessa 1. umr. þessa máls að ræða ítarlega um það, en sem nm. í heilbr.- og trn. vil ég láta það koma fram hér nú, að við Alþfl.-menn erum þeirri meginstefnu og hugsun samþykkir, sem fram kemur í þessum frv. Það, sem mestu máli skiptir — í stuttu máli sagt — í sambandi við fyrirkomulag lyfjamála, er það, að hægt sé að tryggja almenningi á hverjum tíma, sem ódýrust lyf, að jafnan sé sem mest fjölbreytni í framleiðslu og framboði þeirra og þjónustan við almenning á þessu sviði sé eins góð og frekast er kostur.

Í grg. með þessum tveimur frv., sem ég geri hér að umtalsefni, eru leidd rök að því, að nauðsynleg sé endurskipulagning þeirra mála, sem þar er fjallað um. Í frv. um Lyfjastofnun ríkisins er gert ráð fyrir, að sú stofnun hafi einkarétt til þess að annast innflutning, útflutning og heildsölu lyfja og skyldra vara. Þó er ætlað, að innflutningur sérlyfja geti að einhverju leyti farið fram í gegnum umboðsmenn sérlyfjaframleiðenda. Í grg. er m. a. bent á það, að í Noregi hafi í 15 ár starfað ríkisfyrirtæki, sem hafi haft einkarétt svipaðan þeim, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., þó heldur víðtækari. Er talið að reynslan af þessu fyrirtæki sé góð. Þá kemur einnig fram í grg., að sú verzlun, sem hér um ræðir lúti alveg sérstökum lögmálum, sem sé á margan hátt mjög ólík þeim, er gilda um önnur verzlunarviðskipti, og er það vafalaust alveg rétt, þar sé t. d. ekki unnt að koma við frjálsari samkeppni í þeim mæli, sem. unnt er við kaup og sölu ýmissa annarra vara. Ýmislegt annað er tínt til í grg. til að renna stoðum undir það álit, að heppilegt sé að setja á stofn slíkt ríkisfyrirtæki, sem um ræðir í frv. Þess vegna get ég fyrir mitt leyti fallizt á þá skoðun, að það fyrirkomulag sé haft á í þessum efnum, sem lagt er til í höfuðdráttum í umræddu frv.

Ég vil taka það alveg sérstaklega fram að gefnu tilefni, að mér sýnist þetta frv. og grg. þess í alla staði mjög vel og vandlega unnin.

Margt svipað er að mínu mati um frv. til l. um lyfjaframleiðslu að segja. Það er einnig vel úr garði gert og fjallar um mál, sem í alla staði er tímabært, og hefði mátt koma fram fyrr hér á Alþ. frv. í svipuðum sniðum og þar er gert ráð fyrir, því að ástand lyfjaframleiðslu hér á landi er vissulega að ýmsu leyti ábótavant.

Ég skal ekki hafa mörg fleiri orð um þetta. Frv. um lyfjaframleiðslu gerir ráð fyrir, að ríkinu sé heimilt að gerast stofnaðili að fyrirtæki um lyfjaframleiðslu ásamt lyfsölu- og lyfjafræðingum og eigi þeir helming fyrirtækisins. En í þessu tilfelli er þó ekki gert ráð fyrir því, að ríkið hafi einkarétt, eins og í sambandi við Lyfjastofnun ríkisins. Sem sagt, ég tel einnig, að þetta frv. eigi fullan rétt á sér.

Ég vil að lokum taka það fram aftur, að við Alþfl.-menn munum fyrir okkar leyti stuðla að því, að þessi mál nái fram að ganga.