07.03.1973
Neðri deild: 61. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2424 í B-deild Alþingistíðinda. (1831)

167. mál, Lyfjastofnun ríkisins

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Stefáni Gunnlaugssyni fyrir yfirlýsingu um eindreginn stuðning Alþfl. við þetta frv. og raunar frv. um Lyfjaframleiðslu líka. Ég hafði hugsað mér að mæla sérstaklega fyrir því, þegar þar að kæmi, því að þessi frv. eru það aðgreind, og ég tel eðlilegt, að fjallað sé um þau í tvennu lagi. Það kom einnig fram í ræðu Jóhanns Hafsteins, að hann taldi mjög eðlilegt, að þessi mál væru tekin hér til skoðunar. Andstaða við þetta frv. kom aðeins fram í ræðu hv. þm. Ellerts B. Schram.

Mér þótti að vísu dálítið fátæklegt hjá hv. þm. Jóhanni Hafstein, sem var heilbrrh. um langt skeið, að hafa hér eiginlega ekkert til mála að leggja nema vitna í ályktun frá Félagi ísl. stórkaupmanna. Hér er að vísu um að ræða mjög sérfræðilegt svið, og ekki þykist ég hafa mikla sérþekkingu á því, en engu að síður hljóta þeir menn, sem gegna störfum heilbrrh., að kynnast sínum málaflokkum æðimikið. Ég hefði talið, að það hefði verið fróðlegt að heyra meira um persónulegar skoðanir hv. þm. Jóhanns Hafsteins, einmitt vegna þessarar fyrri reynslu, sem hann hefur. Mér þótti það raunar einnig undarlegt, að hann sá sérstaka ástæðu til þess að vitna í þessar skýrslur lyfjavöruhóps Félags ísl. stórkaupmanna, fyrstu 4 liðina. Honum fannst afar merkilegt, að þeir byrjuðu á orðunum „það er rangt“ og „það eru bein ósannindi“. Mér fannst þetta, þegar ég las þetta plagg, vera til marks um heldur leiðinlegan málflutning, því að þessar athugasemdir eru á engan hátt rökstuddar. Þetta eru hreinir sleggjudómar og ekki gerð nein tilraun til að færa rök að þeim. Ég skal sem dæmi lesa hér lið 2, með leyfi hæstv. forseta: „Það er rangt, að í flestum tilfellum séu fleiri en einn innflytjandi frá hverjum framleiðanda, en hins vegar er rétt, að tilfellin eru of mörg reyndar, þó að það væri ekki nema eitt“. Þarna er því bent á, að hér sé um að ræða mjög slæmt ástand, en þetta byrjar á þessum mikla sleggjudómi. Raunar er það um þessa ályktun Félags ísl. stórkaupmanna að segja, að í henni er býsna mikill fróðleikur og viðurkenning á því, að nauðsynlegt sé að bæta þarna um á ákaflega mörgum sviðum. Í lokin eru taldar upp till, í 5 liðum um nauðsyn á breyttri skipan þessara mála, en í lokin er komizt svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Lyfjavöruhópur Félags ísl. stórkaupmanna telur, að auk þessa séu margir liðir lyfjaverzlunarinnar, sem enn mætti og þyrfti að athuga, og bendir á, að miklu meira máli skiptir, að heildarendurskoðun lyfsölu og lyfjamála sé framkvæmd og raunverulegar úrbótatill. lagðar fram, því að mál er, að núverandi skipulagsleysi finni, en ekki skiptir máli, hvort slíkar heildartill, komi fram nokkrum mánuðum fyrr eða seinna, innan hóflegs tíma þó:

Þannig er það viðurkennt af þessum hópi stórkaupmanna, að ástandið núna sé skipulagsleysi og sé mál, að því linni. Það er ekki hægt að fá öllu afdráttarlausari yfirlýsingu um það, hver nauðsyn er á nýrri lagasetningu.

Það hafa ekki komið mörg atriði fram, sem ég tel ástæðu til þess að svara. Hv. þm. Ellert B. Schram taldi, að ekki væri gengið hreint til verks, vegna þess að fallizt er á, að hér mættu vera umboðsmenn fyrir lyfjaframleiðendur. Ég vék að þessu atriði áðan, að sérfróðir menn telja að þetta geti verið nauðsynlegt í ýmsum tilvikum. Hann taldi, að það væri ekki mikill hvati að mega ekki fá álagningu, heldur þyrfti hún að vera í höndum þessa fyrirtækis, en þar er líkt á komið og með þá menn, sem hafa umboð hér fyrir vissar áfengis- og tóbakstegundir. Ég veit ekki betur en menn hafi sótzt mjög eftir því að verða slíkir umboðsmenn, þó að þeir fái ekki nema þá umbun, sem þeir fá frá framleiðendum erlendis. Menn hafa sótzt ákaflega mikið eftir því. Hins vegar hefur ekki verið hægt að komast hjá því, vegna þess að þessir framleiðendur vilja margir hverjir hafa sína umboðsmenn í löndunum og neita hreinlega að selja vöru, ef þeir hafa ekki aðstöðu til þess.

Hv. þm. Ellert B. Schram taldi, að í þessu frv. fælist hækkun á verðlagi. Þetta er að sjálfsögðu algerlega fráleitt. Hvað verðlagninguna snertir eru allar forsendur fyrir því, að hægt yrði að selja lyf á lægra verði en nú er gert, að hægt yrði að gera hagkvæmari innkaup, draga úr tilkostnaði. Hins vegar er um það rætt í frv., að þarna eigi að gera auknar kröfur til eftirlits, öryggis og upplýsinga. Á þetta sama er lögð áherzla í samþykkt Félags ísl. stórkaupmanna. En þeir telja aðeins, að heilbr.- og trmrn. eigi að taka að sér þessi verkefni, þ. e. a. s. ríkið á að leggja stóraukið fjármagn fram til þess að rækja þessa þætti. Það virðist ekki vera neinn ágreiningur um það, að þessa þætti verði að rækja. Þeir eru hins vegar felldir inn í heildarkerfið í þessu frv., og ætlazt til, að þessi stofnun leggi til þessa þjónustu, sem virðist vera alger samstaða um að eigi að veita. Það getur að sjálfsögðu leitt til aukins tilkostnaðar, en hann ætti varla að vera umtalsverður. Ég tel, að það sé mjög skynsamlegt að afla fjármuna til hans einmitt með því að gera sjálfa lyfjaheildsöluna ódýrari en hún hefur verið.

Hv. þm. Ellert B. Schram taldi að þetta frv. væri sérstakt fóstur Alþb. og væri til marks um yfirgang þess í stjórnarsamstarfinu. Ég rakti það í ræðu minni hér áðan, að ég hefði skipað sérstaka n. til þess að gera till. um þetta frv., og taldi, hverjir áttu sæti í henni. Það eru Almar Grímsson deildarstjóri, Árni Einarsson framkvæmdastjóri á Reykjalundi, Einar Benediktsson lyfjafræðingur, dr. Kjartan Jóhannsson verkfræðingur og Steingrímur Kristjánsson lyfsali. Mér þætti gaman að heyra menn véfengja, að þetta séu menn, sem eru sérfróðir á þessu sviði og hafa fjallað um þetta mál af mikilli sérþekkingu. Ég hef ekki haft uppi neina minnstu tilburði til þess að reyna að pólitísk áhrif á þessa menn. Þeir hafa starfað samkv. erindisbréfi, en að öðru leyti hafa þeir fjallað algerlega faglega um þetta, og þetta er sameiginleg niðurstaða þessara manna.

Ég vil einnig mótmæla því, sem fram hefur komið, að í þessari n. hafi ekki verið menn, sem þekkingu hafi á lyfsölu. Einn nm. hefur starfað við lyfjaheildsölu í 6 ár, annar hefur starfað í lyfjabúðum sem lyfjafræðingur og staðgengill lyfsafa í 7 ár, og sá þriðji hefur verið lyfsali utan Reykjavíkur u. þ. b. 8 ár og í Reykjavík í 2 ár með 2 ára reynslu sem lyfjafræðingur.

Það hafa verið kannaðir allir þættir þessara mála. En það, sem hér er á ferðinni í sambandi við ágreining um þetta mál, er það grundvallarsjónarmið, hver eigi að annast þjónustu af þessu tagi. Um þetta er ágreiningur víða um lönd. Það eru til þjóðfélög, þar sem heilbrigðisþjónusta og heilsugæzla er í höndum einkaaðila og litið á það sem atvinnuveg og gróðaveg að stunda starfsemi af slíku tagi. Við Íslendingar og Norðurlandabúar og raunar flestar þjóðir í Evrópu erum andvígir þessari skipan. Með þeirri miklu þróun, sem orðið hefur á sviði heilbrigðismála og heilsugæzlu á Íslandi, er nú svo komið, eins og ég rakti áðan, að lyfsala og notkun lyfja verða ekki með neinu skynsamlegu móti skilin frá heilbrigðisþjónustu og heilsugæzlu. Það er óeðlilegt að setja þessi skil á milli. Það er mjög óeðlilegt, að þessi hluti af heilbrigðisþjónustunni sé stundaður í ábataskyni af aðilum, sem eru í þessu til þess að reyna að hagnast eins mikið á því og þeir hafa tök á. Ég tel, að þetta eigi að starfrækja á félagslegum forsendum, og það sjónarmið er í samræmi við breytingar, sem gerðar hafa verið t. a. m. annars staðar á Norðurlöndum, bæði í Noregi, þar sem heildsalan er í höndum ríkisins, og í Svíþjóð, þar sem ríkisvaldið og heildsalar hafa stofnað sameiginlegt hlutafélag, sem ríkið á mikinn meiri hluta í, um allsherjarviðskipti á þessu sviði. En eins og hv. þm. Ellert B. Schram sagði, þarna er um að ræða grundvallarágreining okkar á milli. Ég tel, að á slíku félagslegu sviði beri ríkinu skylda til að halda uppi þjónustu við þegnana og tryggja sem jafnastan rétt þeirra, en gróðasjónarmið eigi þarna engan rétt á sér.