08.03.1973
Neðri deild: 62. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2440 í B-deild Alþingistíðinda. (1842)

170. mál, orkulög

Stefán Gunnlaugsson:

Herra forseti Ég skal ekki lengja þessar umr., en vil bara láta það koma fram hér, að ég er algerlega ósammála því viðhorfi, sem kom fram hjá hæstv. ráðh. varðandi það, að einhverja brýna nauðsyn beri til þess, að ríkið sölsi algerlega undir sig umráðarétt sveitarfélaga til hagnýtingar á jarðhita. Sveitarfélögin og ríkið eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta í þessum efnum, og ég er þess fullviss, að sveitarfélögin og ríkið geta komið sér saman um það, hvernig hagnýtingu þessara auðæfa verði bezt fyrir komið á komandi árum.

Brtt. mín er aðeins við 1. gr. þessa frv. Í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að til vinnslu jarðhita með borunum á háhitasvæði þurfi leyfi Alþ., þannig að sveitarfélag gæti ekki, þrátt fyrir það að mín brtt. yrði samþ., farið að virkja eða bora á háhitasvæði, án þess að samþykki Alþ. kæmi til. Enn fremur er gert ráð fyrir því í 3. gr. frv., að ríkið hafi rétt til að láta rannsaka eða leyfa rannsóknir á jarðhita með borunum og á annan hátt, hvar sem er á landi hér, þannig að þótt mín brtt. yrði samþ., væri á engan hátt verið að leggja stein í götu þess, að meginhugsunin, sem liggur að baki þess frv., nái fram að ganga. Ég virði hana, þ. e. að þessar auðlindir verði hagnýttar með sjónarmið almennings og þjóðarheill fyrir augum. En ég get á engan hátt séð nauðsyn þess, að ríkið sölsi undir sig á þann hátt, sem þarna er lagt til, þau réttindi, sem sveitarfélög eiga, til þess að því takmarki verði náð.