08.03.1973
Neðri deild: 62. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2441 í B-deild Alþingistíðinda. (1847)

162. mál, fyrirhleðslur

Flm. (Stefán Valgeirsson) :

Herra forseti. Á þskj. 302 höfum við leyft okkur, ég og hv. 2. þm. Sunnl., Ágúst Þorvaldsson, að leggja fram frv. um fyrirhleðslur og lagfæringar á árfarvegum til að koma í veg fyrir landbrot. 1969 flutti ég frv. sama efnis. Þetta frv. var sent Búnaðarfélagi Íslands, og umsögn þess þá um málið var á þann veg, að Búnaðarfélagið taldi ekki ástæðu til að setja sérstök lög um þetta efni, heldur bæri að hraða endurskoðun á vatnalögum frá 20. júní 1923. Frá vegamálastjóra kom ítarlegt álit, þar sem fram kom á rökstuddan hátt, að þörf væri á fastari skipun um fjárveitingar og undirbúning framkvæmda varðandi fyrirhleðslu vatna og landbrot en er að finna í vatnalögum. Hins vegar kom fram í hans umsögn, að það frv., sem þá lá fyrir, mundi þurfa endurbóta við að hans dómi, þó að hann kæmi ekki á því stigi fram með ákveðnar till. í þessu máli. Landgræðslan taldi þá, að lagaákvæði um fyrirhleðslur og landbrot þyrftu umbóta við, annaðhvort í formi sérstakra laga eða með endurskoðun á vatnalögum. Eftir að þessar umsagnir bárust, var ekki samstaða um að mæla með því í landbn., og endirinn varð sá, að landbn. hv. Nd. lagði til, að þessu frv. 1969 væri vísað til ríkisstj. í trausti þess, að hún léti fara fram endurskoðun á VII. og XI. kafla vatnalaga með hliðsjón af því frv., sem þá lá fyrir, og það yrði svo lagt fyrir næsta Alþ., eftir að þetta var afgreitt. Nú eru liðin 4 ár, síðan þetta gerðist og ekkert hefur gerzt í málinu. Hins vegar hafa ýmsir aðilar skorað á mig að flytja þetta frv. aftur og þá með breytingum, sem væri álitið, að mundi geta orðið samstaða um. Ég ræddi þetta mikið við verkfræðinga hjá vegamálaskrifstofunni, og voru þeir þess mjög fýsandi, að þetta yrði gert, og eftir miklar vangaveltur gerðum við breytingar á þessu gamla frv. einmitt eftir tilvísun þeirra, sérstaklega Jóns Birgis Jónssonar verkfræðings. Þegar þetta frv. var lagt fram fyrir 4 árum, þá fylgdi því eftirfarandi grg. með leyfi forseta:

„Árið 1932 voru samþ. lög um fyrirhleðslur á vatnasvæðum Þverár og Markarfljóts. Þessi löggjöf mun hafa átt að þjóna tvennum tilgangi: bæta samgöngur og verja nytjalönd fyrir skemmdum af ágangi vatns á þessu svæði.

Árið 1945 voru samþ. lög um fyrirhleðslu Héraðsvatna norður af Vindheimabrekkum. 1. gr. þeirra laga hefst þannig: „Til þess að varna yfirvofandi stórfelldum skemmdum af ágangi vatns úr Héraðsvötnum vestan vatna, skulu gerðar fyrirhleðslur“ o. s. frv. Á þeim 24 árum, sem liðin eru síðan þessi löggjöf var sett, hefur orðið mikil breyting í ræktun og tækni hér á landi. Ræktunin hefur margfaldazt og færzt meira en áður niður á láglendið, eftir að hinar stórvirku skurðgröfur hófu þurrkun þess um allt land. Víða eru sléttir bakkar meðfram fallvötnum. Hafa þeir orðið mikils virði sem slægjulönd, fyrst sem áveitusvæði, en síðari árin hefur verið borinn tilbúinn áburður á þá með mjög góðum árangri, svo að uppskerumagnið hefur orðið lítið eða ekkert minna en af þeim svæðum, sem brotin hafa verið og sáð í. Í örum leysingum verða oft miklar skemmdir á þessum löndum, sem hægt væri að koma í veg fyrir í flestum tilfellum með þeirri tækni, sem við höfum nú yfir að ráða.

Víða hafa átt sér stað stórkostleg landbrot á liðnum áratugum, sem kunnáttumenn á þessu sviði telja, að auðvelt hefði verið að koma í veg fyrir, ef framkvæmdir hefðu verið gerðar í tæka tíð, t. d. með því að laga til árfarvegi.

Þó að engin löggjöf sé til nema bundin við þær takmörkuðu aðgerðir, sem að framan greinir, þá hefur verið veitt fé á fjárl. til varnaraðgerða að þessu leyti á öðrum stöðum á landinu. Stuðningur ríkisins við þær framkvæmdir hefur verið miðaður við ákvæði áðurgreindra laga.

En það, sem hefur hindrað skynsamlega framkvæmd og samræmdar aðgerðir í þessu efni, eru ákvæði í vatnalögunum, en sú löggjöf er frá árinu 1923 og er því að mörgu leyti úrelt miðað við nútíma aðstæður. Þar eru t, d. ákvæði, sem valda því, að einn landeigandi getur hindrað sjálfsagðar og eðlilegar framkvæmdir í langan tíma, þó að það hafi mikla eyðileggingu í för með sér á nytjalöndum annarra. Það sýnist því vera kominn tími til að setja löggjöf um þetta efni, sem sniðin er eftir þörf og kröfu okkar tíma og hvetur til virkrar varðstöðu um verndun gróðurlendis í byggð, ekki siður en á afréttarlöndum. Við höfum viðurkennt það í verki hin síðari ár, að þjóðinni beri að koma í veg fyrir uppblástur gróðurlendis, og nú er mikil breyting í landinu til að vinna að því, ekki sízt meðal ungmennafélaga, og þeirri hreyfingu ber vissulega að fagna. En það má ekki horfa á það aðgerðarlaust heldur, að fallvötn brjóti niður land í stórum stíl, og því mjög brýnt að setja löggjöf, sem hvetur og auðveldar framkvæmd í því efni. Því er þetta frv. fram borið.

Nú ættu ekki að vera nein vandkvæði á því að hindra landbrot með því að nota hinar stórvirku vinnuvélar til verksins.“

Ég sé ekki ástæðu til að fara út í hinar ýmsu gr. þessa frv., en meginstefnan í því er sú að gera þessa framkvæmd auðveldari. Í 3. gr. er lagt til, að í hverju sýslufélagi verði matsnefnd, sem meti, hvort aðgerða sé þörf í hverju tilviki. Er lagt til, að formaður þessarar n. sé tilnefndur af sýslunefnd, sem sé fulltrúi landeigenda, en aðrir í n. skulu vera formaður búnaðarsambands sýslunnar og jarðræktarráðunautur. En það er meginstefnan í frv., að hægt sé að hefja aðgerðir til að firra frekara tjóni.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. landbn.