08.03.1973
Neðri deild: 62. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2443 í B-deild Alþingistíðinda. (1849)

23. mál, framkvæmd eignarnáms

Frsm. (Ólafur G. Einarsson) :

Herra forseti. Á þskj. 326 er prentað álit allshn. þessarar d. um frv. til l. um framkvæmd eignarnáms, en frv. þetta hefur verið samþ. í hv. Ed. N. varð sammála um að mæla með samþykkt frv., en einstakir nm. áskildu sér rétt til að flytja brtt. eða fylgja þeim.

Gildandi lög um framkvæmd eignarnáms eru frá árinu 1917 og því ekki óeðlilegt, að nauðsyn beri til að aðlaga löggjöf um þetta efni breyttum tímum. Þetta frv. á sér þann aðdraganda, að stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga fór þess á leit við fulltrúa þingflokka haustið 1969, að flutt yrði á hv. Alþ. till. til þál. um, að fram færi endurskoðun á lögum um framkvæmd eignarnáms. Sú þáltill. var flutt og samþ. í aprílmánuði 1970. Ástæðurnar fyrir þessum tilmælum stjórnar sambandsins voru einkum þær, að mjög mikið misræmi var í einstökum eignarmötum, sem fram höfðu farið vegna ýmissa sveitarfélaga í landinu, einkum að því er varðar greiðslur fyrir eignarnumin lönd og jarðir, einnig það, að hvergi var að finna á einum stað matsgerðir. Þá má einnig nefna ófullkomin ákvæði í lögum um gerð og frágang matsgerða og engin ákvæði um rökstuðning fyrir matsgerðum.

Ég sé ekki ástæðu til að rekja efnisatriði þessa frv., enda var það gert við 1. umr. af hæstv. dómsmrh. Hins vegar vil ég nefna þau atriði, sem n. dvaldist helzt við, og skýra sjónarmið n. um þau atriði, sem gerðar hafa verið aths. við í umsögnum um frv.

Eins og fram kemur í nál., var frv. sent til umsagnar þriggja aðila: Búnaðarfélags Íslands, Sambands ísl. sveitarfélaga og Hús- og landeigendasambands Íslands. Tveir hinir fyrrnefndu mæltu með samþykkt frv., en Hús- og landeigendasambandið gerði aths. við nokkur ákvæði þess.

2. gr. frv. gerir ráð fyrir, að sérstök matsnefnd ákveði eignarnámsbætur og formaður matsnefndar sé skipaður til 5 ára í senn af ráðh. og varamaður hans einnig, en formaður matsnefndar kveður aftur til 2 eða 4 hæfa og óvilhalla menn til þess að framkvæma einstök möt. Það var gerð aths. við þetta af Hús- og landeigendasambandinu, en nm. voru sammála um, að það væri ekki ástæða til að breyta þessu ákvæði. Með þessu mundi skapast ákveðin festa, og þess vegna er n. þessu ákvæði samþykk.

Þá var einnig aths. við 6, gr. frv., en gr. er svo hljóðandi:

„Nú hefur aðili, sem heimild hefur til eignarnáms, tekið umráð eignar, og getur þá eigandi og aðrir rétthafar krafizt fyrirtöku máls, sbr. 5. gr.

Þarna kom fram ósk um að bæta inn í, þar sem segir „tekið umráð eignar“, að þar skyldi standa: „tekið eða skert verulega umráð eignar“. En gr. virðist fela þetta í sér. Ef tekin hafa verið umráð eignar, þá hafa þau náttúrlega verið skert, þannig að það virðist ekki ástæða til að kveða þarna öðruvísi að orði en gert er.

10. gr. var einnig nokkuð rædd í n. vegna aths., sem fram höfðu komið, en þær aths. lutu einkum að því, að lagt er á vald matsnefndar að kveða á um, hve mikið eignarnemi skuli greiða eignarnámsþola af þeim kostnaði, sem eignarnámsþoli hefur haft af rekstri máls og hæfilegur verður talinn að dómi matsnefndar. 10. gr. er tvímælalaust til mikilla bóta frá því, sem er í gildandi lögum. Þarna er kveðið á um það, að bótafjárhæðin skuli vera sundurliðuð, og lýst grundvelli útreikninga og það skuli tekin afstaða til ágreiningsatriða.

Í 3. mgr. 12. gr. er talað um, að þegar fasteign eða hluti fasteignar er tekinn eignarnámi, geti matsnefnd ákveðið, að eignarnámsþola verði bætt tjón hans að einhverju eða öllu leyti með fasteign eða hluta fasteignar, sem eignarnemi getur ráðstafað. Þetta ákvæði má sjálfsagt túlka á ýmsa lund. En það er ákveðinn skilningur nm., að þetta geti aðeins átt við, þegar t. d. þarf að taka hluta af landi eða lóð og hægt að bæta það land, sem tekið er, með öðru landi, sem er þá áfast við hitt. Þetta getur átt við, þegar verið er að breyta lóðamörkum vegna breytinga á skipulagi, og þess vegna sýnist mér, að þetta ákvæði eigi fullan rétt á sér, og lýsi þessum skilningi nm. Það er ekki ætlunin með þessu að bæta t. d. töku lands með húseign. Það er alls ekki ætlunin.

Ég held, að það sé ekki miklu fleira, sem ástæða er til að nefna hér af þeim aths., sem fram hafa komið. Það var aths. við 15. gr., sem fjallar um fráhvarf eignarnema frá fyrirhuguðu eignarnámi. Ýmsir telja sjálfsagt slíkt ákvæði óeðlilegt. En það er þó svo, að veigamikil rök hníga í þá átt, að eignarnemi þurfi ekki að vera skuldbundinn að standa við eignarnámsáform sín og greiðslu eignarnámsbóta, þótt mat hafi farið fram. Það er einmitt, eins og segir í grg. með frv., oft undir úrslitum matsmáls komið, hvort hagkvæmt er eða forsvaranlegt að ráðast í þær framkvæmdir, sem eignarnám hefur verið heimilað til. Þess vegna er n. sammála þessu ákvæði þrátt fyrir aths.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál.