08.03.1973
Neðri deild: 62. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2445 í B-deild Alþingistíðinda. (1852)

2. mál, Fósturskóli Íslands

Frsm. (Svava Jakobsdóttir) :

Herra forseti. Menntmn. hefur athugað frv. það til l. um Fósturskóla Íslands, sem hér liggur fyrir til 2. umr. Hún hefur rætt það á fundum sínum og kynnt sér umsagnir, er hv. Ed hafa borizt, en frv. hefur áður verið afgreitt þaðan. N. hefur orðið sammála um að flytja tvær brtt. við frv., eins og það liggur fyrir nú, og er önnur brtt. í samræmi við óskir Fóstrufélags Íslands. Þessar brtt. eru prentaðar með nál. á þskj. 342, og mun ég víkja að þeim efnislega síðar.

Megininntak þessa frv. er það, að Fóstruskóli Sumargjafar, sem rekinn hefur verið af Barnavinafélaginu Sumargjöf síðan 1946 með stuðningi ríkis og Reykjavíkurborgar, verði gerður að ríkisskóla og nefnist Fósturskóli Íslands. Var þessi breytta skipan mála löngu orðin tímabær að dómi þeirra, er til þekkja, og ber því sérstaklega að fagna því, að stjfrv. skuli hafa verið lagt fram og að svo mikil samstaða skuli hafa náðst um málið sem raun ber vitni. Skortur á sérmenntuðu starfsliði á dagvistunarheimilum, sérstaklega úti á landsbyggðinni, er tilfinnanlegur. Svo sem fram kemur í grg. með frv. hefur aðeins helmingur þeirra barnaheimila, sem starfrækt eru úti á landi og eru a. m. k. 20 talsins, fóstrulærðar forstöðukonur, og aðeins örfáar þeirra hafa með sér lærðar fóstrur til starfa. Þegar við bætist sú staðreynd, að fyrirhugað er stórt átak til aukinna bygginga dagvistunarheimila á landinu og að frv. þess efnis liggur nú fyrir hv. Alþ., þá liggur í augum uppi, að búa þarf að Fósturskólanum og fósturmenntun á þann veg, að dagvistunarheimilin geti gegnt hlutverki sínu sem bezt.

Ég held, að óhætt sé að fullyrða, að almenningi sé að skiljast æ betur gildi þeirrar menntunar, sem Fósturskólinn veitir. En útilokað er að efla skólann, svo að vel sé, nema honum sé komið á traustan fjárhagslegan grundvöll og honum séð fyrir viðunandi húsnæði, tækjum og útbúnaði, að ógleymdu nægu menntuðu starfsliði. Ég býst við, að öllum hv. þm. megi líka ljóst vera, að ekki er óeðlilegt, að fósturskóli sé ríkisskóli, þar sem honum er ætlað að mennta fólk hvaðanæva af landinu og sjá barnaheimilum alls staðar á landinu fyrir starfsliði. Þess má einnig geta, að starfssvið fóstra fer óðum stækkandi. Minna má á, að í grunnskólafrv. er ákvæði þess efnis, að fóstrur skuli starfa í heimavistarbarnaskólum og forskólum. Og í frv. því, sem nú liggur fyrir Alþ. um hlutdeild ríkisins í byggingu og rekstri barnaheimila, er gert ráð fyrir, að fóstrur starfi einnig á skóladagheimilum.

Ég sé ekki ástæðu til að rekja efni frv. mjög ítarlega. Því fylgir nákvæm greinargerð, og frv. var fylgt úr hlaði af hæstv. menntmrh. á sínum tíma. Ég vil aðeins minna á, að gert er ráð fyrir, að starfsemi skólans verði í mörgum greinum með svipuðu sniði og verið hefur að undanförnu. Megináherzla verður hér eftir sem hingað til lögð á að veita nemendum fræðilega þekkingu og starfsþjálfun til þess að stunda uppeldisstörf á þeim sviðum, sem skólanum er ætlað að fást við. Kveðið er á um endurmenntun og viðbótarmenntun fóstra og einnig gert ráð fyrir, að í reglugerð verði kveðið á um tengsl skólans við Kennaraháskólann, m. a. varðandi framhaldsmenntun fóstra. Þess má geta, að inntökuskilyrði eru hert. Nú er gert ráð fyrir, að krafizt sé stúdentsprófs eða kennaraprófs frá Kennaraskóla Íslands eða gagnfræðaprófs að viðbættu tveggja ára námi í framhaldsdeild gagnfræðaskóla eða viðbættu tveggja ára námi í öðrum skólum, t. d. verzlunarskóla, lýðháskóla eða húsmæðraskóla. Ég hygg, að það sé rétt, sem segir í athugasemdum um þessa gr., að óhjákvæmilegt sé að auka kröfur um undirbúningsmenntun til inngöngu í Fósturskólann, til þess að nemendur geti notið þeirrar menntunar, sem skólinn veitir, og rækt störf sín síðar með sem fyllstum árangri. Geta má þess, að hingað til, hefur verið áskilið að umsækjendur hafi lokið landsprófi miðskóla eða gagnfræðaprófi og þá að jafnaði með nokkrum viðbótum.

Vil ég þá víkja, að brtt. n. Fyrri brtt. varðar 5. gr. frv., og leggur n. til, að 2. málsl. þeirrar gr. orðist svo, með leyfi hæstv. forseta.: ,.Ráðh. er heimilt að ákveða með reglugerð, að skólinn haldi námskeið fyrir aðstoðarfólk, sem ráða þarf að dagvistunarheimilum, meðan skortur er á fóstrum: Ákvæði þessa efnis voru ekki í upphaflega frv., en var bætt inn í meðförum hv. Ed., og var það gert að tilmælum stjórnar Barnavinafélagsins Sumargjafar. Í frv., eins og það liggur fyrir nú eftir afgreiðslu í hv. Ed., er orðalagið hins vegar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Jafnframt skal skólinn, svo fljótt sem því verður við komið, annast menntun fólks, er sé til aðstoðar fóstrum. Um námstíma og starfssvið skal kveða nánar á í reglugerð.“

Það kom í ljós, að Fóstrufélagið lýsti sig andvígt ákvæðinu, eins og það stendur nú. Menntmn. Nd. barst bréf frá Fóstrufélaginu, og þar segir svo, orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Við teljum eðlilegt, að á vegum Fósturskóla Íslands séu haldin námskeið fyrir aðstoðarfólk, sem ráða þarf að barnaheimilum, meðan skortur er á fóstrum. Við teljum, að með þessu sé verið að leysa tímabundinn vanda og sé óeðlilegt að binda slíka starfsemi með lögum, en eðlilegra sé að veita skólanum slíka heimild með reglugerð. Við óskum því eindregið, að þessi viðbót verði felld úr frv.“

Sem frsm. þessa máls var mér falið að hafa samband við skólastjóra Fóstruskólans og bera þessa breytingu undir hana, og kom í ljós í samtali okkar, að hún var á sömu skoðun og Fóstrufélag Íslands, að eðlilegra væri að veita heimild um námskeið með reglugerð. Taldi hún skólann vanbúinn að taka að sér að svo stöddu menntun annarra en fóstra og yrði skólinn fyrst og fremst að einbeita sér að því verkefni sínu að mennta fulllærðar fóstrur. N. var líka sammála um, að núv. orðalag þessa málsl. 5. gr. væri ekki nógu skýrt og eðlilegra væri eins og Fóstrufélagið bendir á, að menntun þessa fólks færi fram á námskeiðum, en ekki, eins og orðalagið gæti gefið til kynna, með setu í sjálfum skólanum á nánast sama grundvelli og þeir nemendur, sem ætla sér að ljúka þar fullu námi. Rök stjórnar Sumargjafar fyrir þeirri breytingu, sem lögð var til upphaflega við hv. Ed., voru þau, að mikil vöntun væri á menntuðu starfsfólki á barnaheimilum og ekki væri nauðsynlegt, að allir starfsmenn á barnaheimilum hefðu jafnmikla menntun að baki, heldur væri rétt að gera ráð fyrir fóstruliðum, sem störfuðu með fulllærðum fóstrum. Með þeirri brtt., sem n. leggur nú til, hefur hún í rauninni ekki hafnað þessum rökum stjórnar Sumargjafar, en afmarkað skýrar, hver háttur skuli hafður á þessari tegund menntunar, sem hlýtur að gera nokkuð aðrar kröfur en skólinn sjálfur.

Önnur brtt. n. er á þá leið, að orðin „eða persónuleikapróf“ falli niður úr síðustu málsgr. 10. gr.gr. fjallar um inntökuskilyrði í Fósturskólann, og er gert ráð fyrir, að ákveða megi í reglugerð, að nemendur gangi undir hæfnipróf eða persónuleikapróf. Því er ekki að leyna, að það bögglaðist nokkuð fyrir brjóstum nm., hvers konar próf þetta væri og á hvern hátt mætti mæla persónuleika. Töldu ýmsir, að hæfnipróf hlyti að fela í sér mælingu á öllum þeim verðleikum, sem æskilegt væri, að þessi starfsstétt byggi yfir, og ekki væri rétt að leiða í lög svo þokukennt hugtak sem persónuleikapróf. Var mér þó sem frsm. falið að ræða þetta nánar við skólastjórann, en hún átti einnig aðild að samningu frv. Ég hafði samband við hana til þess að fá á þessu nánari skýringu. Fór svo, að sá nm., sem harðastur var í andstöðu sinni við þetta umrædda persónuleikapróf, fékk stuðning skólastjórans. Upplýsti hún, að próf þessi væru enn ekki til hér á landi, þau hefðu hins vegar eitthvað verið notuð í Finnlandi, og hefði hún haft hug á að innleiða þau hér einhvern tíma í framtíðinni, þess vegna hefði n, sett þetta inn í frv. Hins vegar sagðist hún fyrir sitt leyti geta fallizt á, að hæfnipróf væri nægjanlegt og hlyti að ná til allra þeirra þátta, sem nauðsynlegir væru í mati á nemandanum, og mætti persónuleikaprófið falla burt sér að meinalausu. Að þessum upplýsingum fengnum var n. sammála um þessa brtt.

Herra forseti. Ég hef rakið hér nokkur helztu efnisatriði frv. og brtt. n. Eins og nál. ber með sér, er n. sammála um að mæla með því, að frv. verði samþ. með umræddum breytingum.