12.03.1973
Efri deild: 68. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2452 í B-deild Alþingistíðinda. (1856)

191. mál, Iðnrekstrarsjóður

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Frv. þetta til l. um Iðnrekstrarsjóð er þáttur í margvíslegum verkefnum, sem nú er unnið að á vegum iðnrn. í þeim tilgangi að auka framleiðni íslenzks iðnaðar í bráð og lengd, en eins og oft hefur komið fram, er núverandi ástand iðnaðarins á þessu sviði langt frá því að vera ákjósanlegt. Í reynd er það risavaxið verkefni að koma iðnaðinum í það horf, að hann geti staðizt í erlendri samkeppni, hvort heldur er á heimamarkaði eða á milljónamörkuðum þeirra stóru viðskiptaheilda, sem verið hafa að myndast umhverfis okkur á síðustu tímum. Mér þykir rétt að gera stutta grein fyrir þeirri vinnu, sem unnin hefur verið og enn er verið að vinna á vegum iðnrn. á þessum sviðum.

Í fyrsta lagi hefur mikið starf verið unnið við gerð iðnþróunaráætlunar fyrir Ísland, en hún miðast við árabilið 1973–1980. Það starf hefur einkum verið unnið af starfsmönnum frá UNIDO eða Iðnþróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna, en í des. 1970 hafði fyrrv. ríkisstj. formlega sent umsókn til Sameinuðu þjóðanna, þar sem óskað var aðstoðar við áætlanagerð og aðgerðir til að efla iðnþróunina. Í meðförum Sameinuðu þjóðanna var heildarverkefninu skipt milli tveggja undirstofnana Sameinuðu þjóðanna. Annars vegar var aðstoð við að móta og framkvæma áætlanir um eflingu útflutningsiðnaðar, en það kom, eins og fyrr segir, í hlut UNIDO með Iðnþróunarstofnun Íslands sem samstarfsaðila. Hins vegar var aðstoð við að móta og framkvæma áætlanir til að efla útflutning iðnaðarvara, en það verkefni var falið Viðskiptastofnun Sameinuðu þjóðanna með Útflutningsmiðstöð iðnaðarins sem samstarfsaðila. Ég vil láta það liggja á milli hluta, hvort þessi tvískipting verkefnanna hafi verið æskileg og hvort ekki hefði í reynd verið eins heilladrjúgt, ef Íslendingar hefðu fengið sér sína eigin erlendu sérfræðinga. En slíkar hugleiðingar eftir á eru tilgangslitlar.

Við þetta tækifæri ætla ég mér ekki að gera ítarlega grein fyrir iðnþróunaráætluninni, starfi við hana eða uppbyggingu á hlutverki hennar, enda mun gefast tækifæri til þess seinna. Áætlunargerðinni sjálfri er nú lokið, og var iðnþróunaráætlunin formlega afhent mér 28. febr. s. l. Mun hún þurfa staðfestingu UNIDO, og jafnframt er nú verið að þýða hana á íslenzku, og mun ég síðan kynna hana og dreifa hér á Alþ. Ég geri mér vonir um, að það geti orðið í lok yfirstandandi þings. Að sjálfsögðu verður jafnumfangsmikil áætlunargerð sem þessi ekki framkvæmd án fjármagns, og er iðnrekstrarsjóði þeim, sem þetta frv. fjallar um, m. a. ætlað það hlutverk að auðvelda þá fjármögnun á byrjunarstigi, þótt vissulega þurfi þar að koma til fleiri aðilar.

Í öðru lagi er á vegum rn. unnið að því að efla útflutning iðnaðarvara, eins og ég gat um að framan, og mun ég síðar koma að því verkefni sérstaklega. Það starf er fremur fólgið í margs konar aðgerðum, markaðsrannsóknum, þjálfun og heimsóknum til fyrirtækja en í skriflegum áætlunargerðum, þótt ýmsar uppástungur og hugmyndir liggi þegar fyrir.

Í þriðja lagi eru hafnar aðgerðir innan einstakra iðngreina til að auka hagræðingu og framleiðni. Þetta eru skammtímaaðgerðir unnar í samvinnu við iðnþróunarsjóð. Hafa sérstakar iðngreinanefndir starfað að þessum verkefnum, og hefur starfi þeirra miðað vel. Það liggur í augum uppi, að starfsemi þessara n. hlýtur að falla saman við iðnþróunaráætlunina, þegar hún verður framkvæmd, og munu þá n. að öllum líkindum hætta störfum.

Í fjórða lagi er unnið að mörgum einstökum fyrirætlunum, svo sem athugunum á basaltframleiðslu, vinnslu á perlusteini, sjóefnavinnslu o. fl. Gosefnanefnd er starfandi á vegum rn. og nýlega voru sem kunnugt er samþykkt lög um stofnun undirbúningsfélags til þangvinnslu að Reykhólum við Breiðafjörð.

Í fimmta lagi hefur svo viðræðunefnd um orkufrekan iðnað verið að störfum á vegum rn., en hún kannar möguleika á samstarfi við erlenda aðila um að stofna stóriðjufyrirtæki hér í tengslum við virkjun hjá Sigöldu.

Allt er þetta þó í mynd sama verkefnið, efling íslenzks iðnaðar, og nauðsynlegt er að stjórna því þannig, að tryggt sé, að takmarkaðir fjármunir og sérfræðingar nýtist sem bezt. Sú hætta er einnig fyrir hendi, að um nokkra skörun verkefna sé að ræða, þegar margir aðilar annast ýmsar hliðar sama verkefnis. Rn. mun á næstunni gera ráðstafanir, sem koma í veg fyrir tvíverknað, og samræma meira en verið hefur ofangreinda starfsemi. Augljóst er, að vandaðar og vel unnar áætlanir eru lítils virði, ef framkvæmd þeirra er ekki tryggð sem bezt. Eins eru margvíslegar framkvæmdir gagnslitlar og jafnvel skaðlegar, ef þær hyggjast ekki á áætlunum og útreikningum.

Frv. það, sem hér liggur fyrir d., þar sem lagt er til, að stofnaður verði sjóður til skipulagsbreytinga í iðnaði, er beint áframhald þeirrar margvíslegu starfsemi, sem ég gat um að framan. Hann á að vera eitt af þeim tækjum, sem tryggja framkvæmd iðnþróunaráætlunar innar, en án fjármagns verður ekkert gert.

Eins og ég gat um í upphafi, er aukinn útflutningur iðnaðarvara eitt þeirra verkefna, sem nú er unnið að. Verulega aukinn útflutningur er forsenda fyrir þeirri iðnþróun, því að heimamarkaður okkar er allt of lítill til þess, að hagkvæm og ódýr framleiðsla geti átt sér þar stað í stórum stíl. Markaðsöflun og útflutningsstarfsemi eru því mjög mikilvægur þáttur í iðnþróun sérhvers lands, enda tilgangslaust að framleiða vöru, sem enginn vill kaupa, hversu mikil gæðavara sem það annars kann að vera. Mér þykir hæfa að geta þess hér, að fyrstu vikuna í apríl verður haldinn sérstök ráðstefna um útflutningsmál, þar sem sérfræðingar frá Sameinuðu þjóðunum munu halda fyrirlestra um hinar margvíslegu hliðar útflutnings og markaðsstarfsemi. Þátttakendur verða íslenzkir iðnrekendur og aðstoðarmenn þeirra. Einnig er fyrirhuguð sérstök áróðursherferð innanlands og utan til þess að örva útflutning og kynna íslenzkar vörur. Innganga okkar í EFTA og viðskiptasamningur okkar við Efnahagsbandalag Evrópu, sem nýverið hefur verið staðfestur, nema hlutverk útflutningsiðnaðarins enn mikilvægari. Sölu- og markaðsmál hafa hins vegar ætið verið í heldur lágu gengi hér á landi. En það á orsakir sínar í verðbólgu innanlands, sem hefur gert það að verkum, að hægt er að selja hvað sem er fyrir nærri því hvaða verð sem er. Þess vegna hafa íslenzkir iðnrekendur ekki beitt sér sem skyldi að því að afla markaða erlendis, og er nú svo komið, að við erum komnir nokkuð aftur úr og gera þarf stórátak til að bæta um á þessu sviði.

Skömmu eftir að gosið í Heimaey hófst og þegar sýnt var, að við yrðum fyrir verulegu útflutningstapi vegna þess, kallaði ég á minn fund 20 helztu útflytjendur iðnaðarvara og lagði til við þá, að þeir einbeittu sér að því að auka verulega útflutning iðnaðarvara á yfirstandandi ári til að vega upp á móti útflutningstapi því, sem Vestmannaeyjagosið hefði í för með sér. Rn. hafa þegar borizt svör frá ýmsum aðilum, þ. á m. frá 7 stærstu aðilunum, með grg. um útflutningsstöðu þeirra nú. Samkv. áætlunum þeirra búast þessi 7 fyrirtæki við því að geta aukið útflutning sinn úr 1000 millj. kr. í 1800 millj. kr. á næstu 12–18 mánuðum. En ef allur iðnaðurinn er talinn, telja sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna, að unnt sé að tvöfalda iðnaðarútflutninginn á 12–18 mánuðum eða úr 1200 millj., eins og hann var í fyrra, í ca. 2500 millj. En til þess að þetta geti orðið, þurfa fyrirtækin á ýmiss konar fyrirgreiðslu að halda, einkum í formi rekstrar- eða fjárfestingarlána; sem ætla má, að séu á bilinu 50–80 millj. kr. Iðnrekstrarsjóði er m. a. ætlað að hlaupa hér í skarðið, þótt hann ráði engan veginn einn við þetta verkefni.

Mér þykir rétt til fróðleiks að skýra mönnum frá aðalatriðunum í svörum þessara 7 stærstu útflytjenda um möguleika sína á að auka útflutning sinn á næstu 12–18 mánuðum:

Fyrirtækið Álafoss flutti út. á árinu 1972 fyrir 200 millj. kr. Fyrirtækið áætlar, að það geti aukið útflutning sinn upp í 400 millj. kr., á árinu 1973, þ. e. a. s. tvöfaldað framleiðsluna og aukningin verði 200 millj. Til þess að þetta sé mögulegt, telur fyrirtækið sig þurfa aukið rekstrarfé, sem nemi 50 millj. kr., og aukið fjárfestingarfé, sem nemi 30 millj. kr., og þurfi að bæta við sig um 20 manns.

Samband ísl. samvinnufélaga flutti út á árinu 1972 fyrir 340 millj. kr. Sambandið áætlar, að það geti aukið útflutning sinn á árinu 1973 í 500 millj. kr. eða um 160 millj. Til þess að svo geti orðið, þurfa fyrirtæki Sambandsins að auka rekstrarfé sitt um 8 millj. og fjárfestingarfé um 15–20 millj. og mannaflaþörf þeirra yrði 40–60 manns. Hér er átt við fyrirtækin á Akureyri.

Sölustofnun lagmetisiðnaðarins flutti út á árinu 1972 fyrir 200 millj. kr. Sölustofnunin áætlar, að hún geti aukið þennan útflutning í 400 millj. kr., á árinu 1973 eða um 200 millj. kr. án þess að þurfa á að halda auknu rekstrarfé eða auknu fjárfestingarfé. Hins vegar er mannaflaþörfin um 60 manns, og er það aðallega átt við fólk utan Reykjavíkur.

Kísiliðjan flutti út á árinu 1972 fyrir 195 millj. kr. Hún áætlar að geta aukið útflutning sinn á árinu 1973 í 300 millj. eða um 105 millj. kr., án þess að til þurfi að koma aukið rekstrarfé, fjárfestingarfé eða mannafli.

Sláturfélag Suðurlands flutti út á árinu 1972 fyrir 55 millj. kr. Það áætlar að geta aukið útflutning sinn á árinu 1973 í 100 millj. eða um 45 millj. kr. án þess að til komi aukning á rekstrarfé, fjárfestingarfé eða mannafla.

Fyrirtækið Hekluvikur flutti út á árinu 1972 fyrir 20 millj. kr. Það fyrirtæki áætlar að geta aukið útflutning sinn í 80 millj. eða um 60 millj. kr., en þarf til þess aukið rekstrarfé, sem nemur 10 millj. kr., og tvo menn í viðbót.

Fyrirtækið Glit flutti út á árinu 1972 fyrir 3 millj. kr. Það áætlar að geta tífaldað útflutning sinn á árinu 1973 eða í 30 millj., þ. e. aukning um 27 millj. kr., en þá þurfi að koma. til aukning á rekstrarfé, sem nemur 10 millj. kr.

Samtals er þannig háttað um þessi 7 fyrirtæki, að þau fluttu út á árinu 1972 fyrir 1013 millj. kr., en telja sig geta aukið útflutning sinn á árinu 1973 upp í 1810 millj. eða um 800 millj. kr. Það má marka af þessum tölum, að útflutningsaukningin er fyrst og fremst bundin við hærra nýtingarhlutfall véla og mannafla. Sú fjármagnsþörf, sem ég vék að, er alls um 120 millj. kr., og með þeirri upphæð væri hægt að veita 120–140 manns atvinnu, en það þýðir, að það kostar 1 millj. kr. að auka vinnumagn um eina einingu, þ. e. a. s. um einn mann. Þetta er fjármagnskostnaður, sem er tiltölulega mjög lágur í samanburði við það, sem þarf að fjárfesta til að auka mannafla, bæði í sjávarútvegi og landbúnaði, þannig að þjóðhagslega yrði hér um mjög hagkvæma framkvæmd að ræða. Auk þessa er þörf á stórbættu skipulagi í sölustarfsemi, og ýta þarf undir áhuga allra til að auka útflutning okkar, því að hann er hornsteinn afkomu þjóðarinnar.

En þótt aukinn útflutningur skipi háan sess, eru mörg önnur verkefni. sem bíða óleyst og taka þarf sérstaklega til úrlausnar. Breyta þarf öllu innra umhverfi iðnaðarins hér á landi, hví að án meiri framleiðslu og betri gæða verður enginn útflutningur aukinn. Þær aðgerðir, sem nauðsynlegar eru til að tryggja þessa útflutningseflingu, koma fram í 6. gr. frv.: „að stuðla að aukinni ráðgjöf, þjálfun og tækniþjónustu með framlögum eða lánum til stofnana, sem starfa einvörðungu í þágu iðnaðarins; að auka framleiðni með stuðningi við aðgerðir, sem stefna að aukningu afkasta í iðnaði, meiri sérhæfingu í framleiðslu iðnfyrirtækja og virkari stjórnun þeirra; að hvetja til samvinnu og samruna iðnfyrirtækja með lánum eða styrkjum í þeim tilgangi að byggja upp stærri eða hagkvæmari rekstrareiningar, þó þannig að ekki verði dregið úr eðlilegri samkeppni innanlands.“ Þetta verður hins vegar ekki gert að óbreyttri fjárhagsuppbyggingu fyrirtækja, en hún er í flestum tilvikum slæm. Því er sjóðnum heimilað að kaupa hlutabréf í starfandi fyrirtækjum, taka þátt í stofnun nýrra og afla sér með öðrum hætti eignarhalds í fyrirtækjum. Hér er þó ekki á ferðinni nein þjóðnýtingarstefna, heldur á þetta að vera trygging fyrir því, að ýmis fyrirtæki, sem hafa lítið eigið fé, sem er forsenda fyrir endurbótum í ýmsum tilvikum, geti ekki staðið í vegi fyrir þeirri framleiðsluaukningu og þar með atvinnuaukningu, því að það er skylda ríkisins að tryggja fulla atvinnu, og til þess verður að hafa tæki.

Eins og greint er í 5. gr., er fjármagn sjóðsins þannig til komið, að í hann á að renna gengishagnaður sá, sem heimilað var að taka í sambandi við gengislækkunina í des. s. l., og enn fremur gengishagnaður, sem verið hefur ónotaður á sérstökum reikningi hjá Seðlabankanum og kom til í sambandi við gengislækkunina 1968. Þá er þarna getið um framlög ríkissjóðs, án þess að nokkra upphæð sé hægt að tilgreina. Þegar verið var að semja þetta frv. í haust, stóð til og var raunar fastmælum bundið, að til sjóðsins rynni verulegt fjármagn úr ríkissjóði. Hins vegar er óvissan um stöðu ríkissjóðs þannig nú eftir náttúruhamfarirnar í Vestmannaeyjum, að það er mjög erfitt að leggja slíkar byrðar á ríkissjóð á þessu stigi málsins, þannig að þetta er haft þarna með sem tekjuliður, án þess að nokkur upphæð sé tilgreind á þessu stigi. Hins vegar hef ég haft samband við íslenzka forráðamenn Iðnþróunarsjóðs og hef spurt þá að því, hvort þeir muni ekki telja það vera eðlilegt verkefni fyrir Iðnþróunarsjóðinn að útvega Iðnrekstrarsjóði fjármagn, sem hægt yrði að nota þegar á þessu ári, því að það skiptir mjög miklu máli, að þessi sjóður geti tekið til starfa á þessu ári. Og undirtektir þeirra hafa verið svo jákvæðar, að ég hygg, að það sé alveg vafalaust, að Iðnþróunarsjóðurinn gæti komið í staðinn fyrir þær upphæðir, sem áður voru ætlaðar úr ríkissjóði, þannig að þessi sjóður gæti á árinu haft til umráða á annað hundrað millj. kr., en það er algert lágmark hygg ég, ef sjóðurinn á að gegna hlutverki sínu. Og í grg. með frv. koma fram ýmsar staðreyndir, sem ég hygg, að fróðlegt sé fyrir menn að velta fyrir sér. Ég vil t. d. benda á töflu á bls. 4 í kaflanum „Vandi iðnaðarins og staða hans nú.“ Þar segir, að stærð þess almenna vanda, sem við er að glíma, megi nálgast með því að bera saman vinnsluvirði á mannár í verksmiðjuiðnaði í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Íslandi á árabilinu 1968–1971. Af töflunni kemur í ljós, að á árinu 1968 var vinnsluvirði á mannár á Íslandi aðeins 35% af því, sem var í Svíþjóð, á árinu 1969 40% og á árinu 1970 49%. Við vorum þannig ekki hálfdrættingar í samanburði við þá Norðurlandaþjóð, sem lengst er kominn á sviði iðnaðar. Og þessi samanburður sýnir okkur einkar vel, hversu mikið verk er óunnið að því að auka framleiðni og hagkvæmni í fyrirtækjunum, og á það verður að leggja aðaláherzlu.

Í verksmiðjuiðnaði, og þá er fiskiðnaður ekki meðtalinn, störfuðu árið 1965 alls tæplega 13 þús. manns, en árið 1970 um 14 200 manns. Á þessum 5 árum hafði heildarmannafli í iðnaði því aukizt um 10%. Þetta er um 16% af heildarvinnuafli þjóðarinnar, en framlag iðnaðarins til þjóðarframleiðslu nam 15.8% árið 1969. Mannaflaþróun innan einstakra iðngreina var þó afar misjöfn. Mest var aukningin í efnaiðnaði, leðuriðnaði og ýmsum nýrri iðngreinum. Árið 1970 störfuðu í ýmiss konar matvælaiðnaði öðrum en lagmeti 2340 manns. Í vefja-, fata- og skóiðnaði um 20–30 manns og í málmiðnaði og bifreiðaviðgerðum um 4300 manns. Í öðrum iðngreinum, svo sem mjólkur- og sláturiðnaði, varð samdráttur í vinnuafli, en einnig í skóiðnaði og málmiðnaði, öðrum en smíði raftækja og samgöngutækja, þar sem mikil aukning varð.

Ég vil einnig benda mönnum sérstaklega á töflu, sem er að finna á bls. 5, en þar er á það bent, að verksmiðjuiðnaðurinn á Íslandi einkennist af mörgum litlum fyrirtækjum og tiltölulaga lágu tækni- og vinnslustigi. Um stór fyrirtæki með sjálfvirkri framleiðslutækni er varla að ræða. Þetta kemur í veg fyrir nauðsynlega sérhæfingu, en hún er forsenda mikillar framleiðni og samkeppnishæfni á mörkuðum. Ef menn líta á þessa töflu, kemur í ljós, að fjöldi fyrirtækja í iðnaði er alls 2157, en af þessum fyrirtækjum eru 743 eða rúmur þriðjungur, sem aðeins hafa í þjónustu sinni einn mann eða minna í heild, 1087 fyrirtæki, eða um það bil helmingur, hafa í þjónustu sinni 2 menn eða minna. Þetta eru afar lítil fyrirtæki, sem hljóta að eiga mjög erfitt uppdráttar, þegar að því kemur að takast á í fullri alvöru í samkeppni við vörur frá miklu stærri þjóðfélögum, þar sem fyrirtækin eru betur undir það búin að beita nútímatækni og nútímaaðferðum. Taflan sýnir, að vinnuafl í 86.6% allra iðnfyrirtækja er aðeins frá 1–10 mannár og í þeim vinna tæp 40% alls mannafla, 11.3% iðnfyrirtækja eru með vinnuafl, sem jafngildir 10–20 mannárum, en veita 37.6% mannaflans atvinnu, en það eru aðeins 2% stærstu fyrirtækjanna, sem hafa 23% vinnuaflsins í þjónustu sinni. Framleiðsla þessara fyrirtækja hefur verið svo til eingöngu fyrir heimamarkað. Innan við 10% af iðnaðarframleiðslunni er flutt út. Framleiðsla fyrirtækjanna er gerð eftir pöntunum, en ekki er framleitt á lager, eins og tíðkast í þróuðum iðnaði. Þetta bendir til árlegrar nýtingar véla og mannafla.

Iðnaðarhefð er hér hverfandi lítil og margar handiðnir týndar niður, þótt á síðustu árum hafi átt sér stað nokkur endurvakning þar.

Ungar iðnaðarþjóðir eiga alltaf í höggi við eitt vandamál, sem oft reynist örðugt fyrir þær að leysa, en það eru hvers konar aðstæður til iðnrekstrar. Framboð hráefna, vélakosts og sérstakra tækja getur verið illa skipulagt. Á vinnumarkaðinum er erfitt að fá nægilegt framboð sérhæfðs fólks, og fjármagnsmarkaðurinn býður ekki fram fjármagn til að fullnægja mismunandi og síbreytilegum þörfum fyrirtækjanna. Síðast, en ekki sízt skortir mjög á ýmsa ráðgjöf og þjálfun á sviði hagfræði, stjórnunar, tækni, markaðsmála, sem sérhæfð framleiðsla þarfnast. Þó að nokkur vísir sé hérlendis til þess að fullnægja þessum þörfum, skortir enn mjög mikið á, að nægilegt sé. Af þessum ástæðum hefur n, á vegum iðnrn. unnið að athugun á samhæfingu á tækniþjónustu iðnaðarins, og hefur hún nýlega skilað áliti til rn., en ráðgert er að leggja fram frv. til l. um það efni á næsta þingi.

Eins og fram hefur komið af þessum orðum, — er mikil þörf fyrir umbreytingar í iðnaði, svo að hann geti tekið við þeim aukna mannafla, sem nauðsynlegur er, ef halda á áfram að keppa að fullri atvinnu handa landsmönnum. Nauðsynlegt er að auka mjög verulega fjárframlög til tæknistofnana iðnaðarins, sem til stendur að sameina í Iðnþróunarmiðstöð Íslands. Þótt stefna beri tvímælalaust að því, að iðnaðurinn geti sjálfur greitt í sem mestum mæli þá þjónustu, sem honum er veitt, er ekki hægt að búast við því enn sem komið er, að hann greiði hana að fullu. Skilningur á þessari auknu þörf hefur ekki enn fengizt staðfestur á fjárl., og er því gert ráð fyrir, að veita megi fjárframlög úr sjóðnum til þeirra stofnana, sem starfa í þágu iðnaðarins, hvort heldur er um að ræða aðstoð við þróun framleiðslunnar eða við að koma vörum á markað. Ber að undirstrika það síðarnefnda vegna þess, hve útflutningsverzlunin er mikilvæg landsmönnum. Iðnaðurinn þarf á mjög skömmum tíma að laga sig að markaðsaðstæðum í Evrópu, en þær eru undirorpnar stöðugum breytingum. Stórir markaðir krefjast stórra framleiðslueininga á háu tæknistigi og mikillar sérhæfingar, þar sem knappar auðlindir hagnýtast sem bezt. Þess háttar framleiðslueiningar heyra hérlendis til algerra undantekninga, eins og ég vék að áðan. Ef fyrirtæki eða iðngrein á að geta staðið sig og aukið framleiðslu sína, verða þau að laga sig að þessum ytri aðstæðum, sem geta tekið á sig mjög misjöfn form. Skipulagsbreytingar innan fyrirtækja munu oft hafa í för með sér verulega fjárfestingu, svo sem breytingar á vélakosti, húsnæði, vinnutilhögun og mörgu fleiru. Þegar talað er um vandamál, sem tengd eru innri gerð fyrirtækja, er verið að benda á margs konar aðstæður, sem koma í veg fyrir umbreytingar og aðlögun, sem í sífellu þarf að eiga sér stað í atvinnulífinu. Breytingar eru í sjálfu sér ekki vandamál, heldur er aðlögun atvinnulífsins að ytri aðstæðum erfiðari og krefst stundum stærri fórna en æskilegt og nauðsynlegt er. Þetta gerist, ef lögmál efnahagskerfisins eru látin óheft. Ef leggja þarf niður fyrirtæki og stofna ný eða auka hagkvæmni í rekstri, myndast mörg vandamál, ekki sízt félagsleg, sem leysast ekki af sjálfu sér og þarfnast utanaðkomandi afskipta. Við samvinnu eða samruna margra fyrirtækja á að vera hægt að nýta sameinaðar auðlindir betur en einstök fyrirtæki geta gert. Það er ekki kappsmál að fá stór fyrirtæki. Samruni tveggja eða fleiri minni fyrirtækja gerir hins vegar oft kleift að ná hærra hagkvæmnistigi, en það getur leitt til lægri meðalkostnaðar eða til þess, að meðalkostnaður hækki minna en ella hefði orðið. Á þessu sviði er afar margt ógert hér á landi, og það hlýtur að vera eitt af helztu verkefnum ríkisvaldsins að aðstoða við að framkvæma þessa aðlögun á sem snurðulausastan hátt og án þess að valda samfélagslegu öngþveiti.

Í sambandi við þá aðferð að stofna hér sérstakan iðnrekstrarsjóð, er rétt að geta þess, að fyrir eru í landinu 3 fjárfestingarsjóðir, sem auk viðskiptabankanna veita fjármagn til iðnaðarins. Þeirra elztur er Iðnlánasjóður. Hann veitir einkum stofnlán til véla- og tækjakaupa og til byggingar verksmiðju- og iðnaðarhúsa. Í lögum nr. 68 frá 1967 er Iðnlánasjóði heimilað að veita lán til endurskipulagningar iðnfyrirtækja svo og til hagræðingar í iðnrekstri. Voru í þeim tilgangi boðin til sölu vaxtabréf. Alls á sjóðurinn nú 7.1 millj. kr. útistandandi í hagræðingarlánum, þar af eru tæpar 6 millj, kr. fjármagnaðar með útgáfu vaxtabréfa. Reynt hefur verið að taka tillit til hagræðingaráforma við veitingu lána til vélakaupa og hagræðing orðið þannig tilefni til lánveitinga. Þetta er þá eingöngu við það bundið, að sótt sé um stofnlán til fjárfestingar í vélum eða tækjum. Samkvæmt heimild í lögum skal veita allt að 10% af árlegu iðnlánasjóðsgjaldi til almennra hagsbóta og hagrannsókna í iðnaði. Hefur fé þetta verið veitt til ýmissa verkefna á vegum hagsmunasamtaka atvinnurekenda. Meðal verkefna má nefna fjármögnun hagsveifluvogar iðnaðarins, en á s. l. ári nam framlagið til hagrannsókna 3.6 millj. kr.

Iðnþróunarsjóði er í sérstökum tilvikum heimilt að veita lán með sérlega hagstæðum kjörum eða framlög m. a. til tækniaðstoðar, rannsókna og markaðsathugana. Slík lán eða framlög mega samtals ekki nema meiru en 10% af stofnfénu eða um 120 millj. kr. alls. Af þessu hafa verið samþykktar 14 millj. kr., en þar hafa verið útborgaðar 11.9 millj, kr., sem skiptast á milli lána að upphæð 3.8 millj. kr. og styrkja 5.1 millj. Til þess að koma í veg fyrir skörun verkefna við Iðnþróunarsjóð er gert ráð fyrir, að hann tilnefni einn mann í stjórn Iðnrekstrarsjóðs.

Þriðji sjóðurinn, sem veitir lán til iðnaðarins, er Útflutningslánasjóður, sem stofnaður var með lögum nr. 47 1970. Hlutverk hans er fyrst og fremst að veita lán til að bæta samkeppnisaðstöðu íslenzks iðnaðar gagnvart erlendum iðnaði. Minni hætta er á skörun verkefna eða ósamræmdri lánastefnu við hann.

Af þessu yfirliti má sjá, að enginn þeirra sjóða, sem fyrir eru nú, gegnir sams konar hlutverki og Iðnrekstrarsjóði er ætlað að hafa. Sérstaka aðstoð til rannsókna og markaðsathugana er samkvæmt framansögðu hægt að veita úr Iðnþróunarsjóði, en bæði er, að ekki er beinlínis gert ráð fyrir hagræðingar- og framleiðniaukandi framlögum, og einnig mun sjóðurinn aðallega miða við hóp fyrirtækja eða eina iðngrein, þegar slík framlög eru veitt.

Vissulega hefði verið æskilegt að sameina eitthvað af fyrrnefndum sjóðum nú, og verður að stefna að því mjög bráðlega. Það þótti þó ekki tímabært nú, enda þarf að athuga það mál betur, og ég tel, að það sé mjög nauðsynlegt að geta tekizt á við þetta verkefni þegar á þessu ári. Hins vegar geri ég ráð fyrir, að þetta heildarverkefni geti fallið inn í þá heildarlöggjöf, sem áformað er að leggja fyrir næsta þing og getið var hér að framan.

Við samningu þessa frv. hefur verið haft samband við ýmsa forustuaðila í iðnaði, og þeir hafa látið í ljós mikinn áhuga á því, að þetta mál gæti náð fram að ganga á þessu þingi. Ég vona, að afstaða hv. alþm. verði á sömu lund og sú meginhugmynd, sem í frv. felst og hljóti hér góðar undirtektir.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. iðnn.