13.03.1973
Sameinað þing: 57. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2484 í B-deild Alþingistíðinda. (1879)

174. mál, fyrirgreiðsla vegna hitaveituframkvæmda

Fyrirspyrjandi (Matthías Á. Mathiesen) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. svör hans. Hann minntist á það í svari sínu, að rn. teldi, að Hafnarfjarðarbær hefði nú þegar þær heimildir, sem til þyrfti í sambandi við hitaveituframkvæmdir. Ég veit, að bæjarstjórn Hafnarfjarðar sendi hæstv. ráðh. bréf og óskaði eftir því í bréfinu, að Hafnarfjarðarbæ yrðu veitt tilskilin leyfi, eins og það er orðað. Ég geri ráð fyrir því, að þessi beiðni sé sprottin af viðræðum, sem nokkrir fulltrúar sveitarstjórnanna hér sunnan Hafnarfjarðar áttu við hæstv. ráðh. fyrir nokkuð löngu, í byrjun jan. frekar en í des., og þar hafi verið talinn leika vafi á því, hvort Hafnarfjarðarbær hefði þau réttindi eða þau tilskildu leyfi, sem hann þyrfti í sambandi við hitaveituframkvæmdir. Mér þykir vænt um að fá staðfestingu á því hjá hæstv. ráðh., að þau leyfi eru fyrir hendi. Ef hins vegar verður farið út í þá samninga, sem rætt hefur verið um, verður að sjálfsögðu að gera breytingar á þeim leyfum, og ég tók svo eftir, að hæstv. ráðh. héti því, að ekki skyldi standa á þeim leyfum, ef um þau yrði sótt.

Varðandi síðari fsp. mína um, hvort og þá með hvaða hætti ríkisstj. hygðist beita áhrifum sínum, upplýsti ráðh. enn fremur, að í morgun hefði gjaldskrárnefnd ríkisstj. fallizt á að veita Hitaveitu Reykjavíkur 20% hækkun. Eins og hann las upp áðan, hafði Hitaveita Reykjavíkur eða forráðamenn hennar talið, að áður en samningar við Kópavog gætu tekizt, þyrfti breytingu á gjaldskrá Hitaveitu Reykjavíkur. Ég lít svo á, að með þessari hækkun sé það skoðun ráðh., að ekkert standi í veginum fyrir því, að umræddir samningar verði gerðir, ef talið er rétt að gera þá. Ef svo færi, að úr þessum samningum yrði ekki og viðkomandi sveitarfélög stæðu frammi fyrir því, að þau yrðu með einum eða öðrum hætti að fjármagna hitaveituframkvæmdir, t. d. ef Hafnarfjarðarbær teldi réttara að hefja hitaveituframkvæmdir og fá vatn frá Álftanesi, þá munu að sjálfsögðu þessi sveitarfélög þurfa á töluvert mikilli fyrirgreiðslu að halda. Ég skildi ræðu hæstv. ráðh. þannig, að á meðan ekki væri úr því skorið, hvort samningar við Hitaveitu Reykjavíkur tækjust teldi hann ekki ástæðu til að taka afstöðu til þess atriðis, sem ég spurði um í síðari hluta seinni fyrirspurnarinnar.