13.03.1973
Sameinað þing: 57. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2487 í B-deild Alþingistíðinda. (1884)

174. mál, fyrirgreiðsla vegna hitaveituframkvæmda

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég skal ekki leggja dóm á það, hvort úrskurður hagrannsóknadeildar Framkvæmdastofnunarinnar er fullnægjandi að því er snertir það skilyrði, sem Alþjóðabankinn setur um arðgjöf Hitaveitunnar. Ég vonast til þess, að með skýrslu hagrannsóknadeildarinnar séu Hitaveitunni fengin nægileg gögn gagnvart Alþjóðabankanum í þessu efni. En Alþjóðabankinn gerði á s. l. ári ítrekaðar aths. við það, að Hitaveitan hefði ekki gjaldskrá og hefði ekki fengið leyfi stjórnvalda til þess að hafa gjaldskrá til að fullnægja lánasamningum. Það voru frestun og neitanir hæstv. ríkisstj. á síðasta ári og allt fram til dagsins í dag, þegar fsp. hv. þm. Matthíasar Á. Mathiesen kemur hér á dagskrá, sem hafa valdið töfum á framkvæmd samningsins við Kópavog og töfum á undirritun og frágangi á samningi við Hafnarfjarðarbæ. Ef svo hefði farið fram sem horfði, að Hitaveitan fengi ekki raunhæfa gjaldskrá, þá var í hættu stefnt, að Reykvíkingar fengju áframhaldandi hitaveitu í ný hverfi í borg sinni. En öllum þessum sveitarfélögum er það sameiginlegt hagsmunamál, ef til þess kemur, að sækja þurfi hitaorkuna lengra frá borginni en hingað til, að undir þeim dýru og miklu framkvæmdum standi stór og öflugur markaður. Þess vegna er það óhrakið, sem ég sagði hér áðan, að aðgerðaleysi hæstv. ríkisstj. í þessu brýna hagsmunamáli hefur frestað þessum hitaveituframkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu um eitt ár og jafnvel stefnt tengslum okkar og samningsaðstöðu við Alþjóðabankann í voða líka. að því er snertir lánsumleitanir okkar í sambandi við Sigölduvirkjun.