13.03.1973
Sameinað þing: 57. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2488 í B-deild Alþingistíðinda. (1887)

182. mál, öflun skeljasands til áburðar

Fyrirspyrjandi (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. landbrh. um öflun skeljasands til áburðar. Þegar kalið herjaði ræktunarlönd bænda hér á árunum, kom í ljós, svo að ekki varð um villzt, við rannsóknir okkar á áhrifum tilbúins áburðar, sem borinn var á ræktunarlönd langtímum saman, að þau voru ekki svo góð sem skyldi. Það fór fljótlega að bera á því, að glöggir bændur þóttust kenna, að aukin kalkgjöf á tún kynni að einhverju leyti að draga úr kalhættu.. Ég trúi, að síðar hafi þessi grunur verið staðfestur af sérfræðingum. Nú hafa um sinn verið hlýrri ár, en menn mega þó ekki láta slíkar sveiflur í árferði slæva áhuga og athafnir á þessum sviðum.

Alþ. hefur þegar að nokkru sýnt vilja sinn varðandi þessi efni. Við endurskoðun löggjafar um jarðrækt voru teknar upp greiðslur vegna kölkunar túna, en það var nýmæli. Og 8. febr. 1972 var samþ. á Alþ. ályktun um að „skora á ríkisstj. að láta rannsaka, hvar hagkvæmt sé að vinna skeljasand til kölkunar túna, og gera síðan ráðstafanir til þess að auðvelda öflun hans.“ Þannig hefur Alþ. þegar sýnt mikinn skilning á þessu efni.

Í ályktuninni er vikið að þessum tveimur atriðum, rannsókn á því, hvar hagkvæmast kynni að vera að vinna skeljasand til áburðar, en það efni hefur þegar verið notað og fengið frá Sementsverksmiðjunni á Akranesi, og svo hins vegar áskorun um, að gerðar verði ráðstafanir til að auðvelda öflun þess. Fsp. mín er þannig:

„Hvað líður framkvæmd ályktunar Alþ. frá 8. febr. 1972 um öflun skeljasands til áburðar?“