13.03.1973
Sameinað þing: 57. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2489 í B-deild Alþingistíðinda. (1889)

182. mál, öflun skeljasands til áburðar

Fyrirspyrjandi (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin, enda þótt ég sé ekki alls kostar ánægður með þau. Ég hafði ástæðu til að halda, að hugað hefði verið að möguleikum á vinnslu skeljasands til áburðar víðar en hér í Faxaflóa í sambandi við landgrunnsrannsóknir, sem fram fóru á s. l. sumri. En um það kom ekkert fram í þessum svörum. Skeljasandur sá, sem Sementsverksmiðjan selur, er að vísu ódýr á tonn, en það þarf mjög mikið magn til kölkunar túna og flutningskostnaður verður þess vegna tilfinnanlegur. Ég vil leyfa mér að leggja áherzlu á það, að leitazt verði við að framkvæma þann þingvilja, sem fram kom í ályktuninni frá 8. febr. 1972, og þá bæði atriði ályktunarinnar: að gera sér grein fyrir, hvort ekki er hægt með viðráðanlegum kostnaði að ná upp þessu áburðarefni víðar en hér á einum stað, og svo hins vegar að gera frekari ráðstafanir en þegar hafa verið gerðar til þess að auðvelda bændum öflun þessa áburðar. Ég held, að hvarvetna, þar sem ræktunarmenning er á háu stigi, sé kölkun ræktunarlands talin mjög mikilvægt atriði og það sé því full ástæða til þess, að hið opinbera hafi meiri forustu um að rannsaka þörfina á kölkun ræktunarlands annars vegar og um aðgerðir til þess að fullnægja henni hins vegar.