30.10.1972
Neðri deild: 7. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í B-deild Alþingistíðinda. (189)

Umræður utan dagskrár

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ástæðan til þess að ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár, er þessi:

Útvarpið okkar og sjónvarpið fluttu í gær frétt eina frá Bretlandi, sem var þess eðlis, að miklu skiptir, að við Íslendingar gefum henni gaum og réttir aðílar bregði við skjótt af okkar hálfu að gera við hana aths., svo að um munar. Það var haft eftir talsmanni togaramanna í Grímsby, að við Íslendingar hefðum borið ábyrgðina, ef slys hefði orðið í óveðri því, sem núna fyrir helgina gekk yfir brezka togaraflotann út af Vestfjörðum. Ég kynnti mér í morgun, hvernig þessi frétt var tilkomin, og fékk að vita það, að útvarpið okkar hafði fengið hana frá Manchesterskrifstofu brezka stórblaðsins Daily Mail. Fréttin birtist í Daily Mail í morgun, og núna áðan hafði ég samband við blaðið og einn af rítstjórum þess las hana fyrir mig. Hér er um að ræða yfirlýsingu frá félagi yfirmanna á togurum í Grímsby, en yfirmenn þessir eru um 250 talsins og leiðtogi þeirra, eins og hann er nefndur í fréttinni, Jack Evans að nafni, segir orðrétt:

„Ef skipin hefðu sokkið og menn farizt með þeim, hefði það verið helbert morð („plain murder“). Um það hefði ekki verið hægt að viðhafa neitt annað orð. Það hefði verið við Íslendinga að sakast og þá eina.“

Ritstjóri sá, sem ég ræddi við, sagði, að yfirlýsing þessi mundi hafa verið send öllum helztu blöðum Bretlands og víðar um heim og væri eflaust nú þegar á síðum þeirra margra.

Tilgangurinn með þessu er augljós: að telja fólki trú um, að við Íslendingar mundum láta okkur einu gilda, þó að vetrarveðrin hér norður frá yrðu brezkum togarasjómönnum að fjörtjóni. Svo mikið sé hatur okkar í þeirra garð vegna landhelgisdeilunnar. Þannig á að hafa af okkur æruna í augum brezks almennings og almennings víðar um heim og blása að sama skapi að glóðum haturs í okkar garð. En alvarlegast af öllu er það, að þarna er reynt að varpa fyrirfram sökinni á okkur Íslendinga vegna þeirra slysa, sem í framtíðinni kunna að henda brezka togara hér norður frá. Það er verið að plægja hatursakurinn. Það er verið að undirbúa jarðveginn, svo hægt verði að snúa til áfellis og fordæmingar okkur Íslendingum hverju því óhappi eða slysi, sem kann að henda brezka togara á miðum okkar og við strendur landsins. Þetta er fyrirboði þess, sem ætlunin er að segja, ef slys ber að höndum. Og ætlunin er að segja: Þetta skip hefði ekki sokkið, þessir menn hefðu ekki drukknað, ef íslendingar hefðu ekki gerzt svo ósvífnir að færa út landhelgi sína. — Og það verður talað um morðingja.

Hér er ekkert hégómamál á ferðinni. Við verðum, Íslendingar, tafarlaust að reka aftur þessar svívirðulegu ásakanir. Það ríður á, að þeir sem standa í forsvari fyrir okkur gagnvart umheiminum, fordæmi þær og sýni fram á þau augljósu sannindi, að ef brezkir togaramenn stofna sér í óþarfa háska hér við land, þá er ástæðan einfaldlega sú, að þeir og stjóravöld þeirra neita að virða lög þeirrar bjóðar, sem byggir landið. Hver brezkur togaraskipstjóri ber sjálfur ábyrgð á sinni áhöfn, og ef hann veigrar sér við að leita hér vars, vegna þess að hann hefur brotið lög okkar, þá á hann við engan að sakast nema sjálfan sig og stjórnvöld lands síns, sem með þrjózku sinni við að viðurkenna sjálfsagðan rétt okkar Íslendinga og með ýmsum öðrum hætti fremur hvetja en letja brezka togaraskipstjóra til að fara fram með sem mestum glæfraskap á miðum okkar. Og það má gjarnan fylgja með, að okkur Íslendingum finnst það koma úr hörðustu átt, þegar brezkir togaramenn saka okkur um ábyrgðarleysi og tillitsleysi gagnvart lífi þeirra. Eða hefur reynsla brezkra togarasjómanna verið sú? Ætli hitt sé ekki líklegra, að ótrúlega víða á hinum brezka togaraflota megi finna menn, sem ekki mundu draga lífsanda í dag, ef ekki hefði komið til þrek íslenzkra manna og óbugandi vilji þeirra til að bjarga mönnum, brezkum jafnt sem öðrum, úr sjávarháska. Og einnig mætti minna á það, að margir hinna íslenzku varðskipsmanna, sem brezkir togarasjómenn leggja nú meiri fæð á heldur en nokkra menn aðra, hafa hlotið beiðursmerki fyrir það einmitt að bjarga brezkum togaramönnum úr sjávarháska og hætt til þess lífi sínu.