13.03.1973
Sameinað þing: 57. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2491 í B-deild Alþingistíðinda. (1891)

293. mál, Tækniháskóli Íslands

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Svar við fsp. hv. 5. þm. Norðurl. e. er þetta, hversu greinargott sem hann metur það nú, þegar lesið hefur verið:

Í fyrra lið fsp. er vitnað til bráðbirgðaákvæðis í l. nr. 66 frá 1972, um Tækniskóla Íslands. Ákvæðið er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Menntmrh. skal beita sér fyrir því, að undirbúin verði ný löggjöf um skipulag verk- og menntunar á framhaldsskóla- og háskólastigi. Skal m. a. taka til athugunar, hvort ráðlegt sé, að stofnaður verði tækniháskóli og taki hann við öllu tæknifræðinámi, sem nú fer fram í Tækniskóla Íslands, og verkfræðinámi Háskóla Íslands. Ráðh. skal jafnframt láta rannsaka ítarlega, hvort ekki sé tiltækilegt, að tækniháskóli verði starfræktur á Akureyri.“

Í framhaldi af þessu lagaákvæði var 16. febr. s. l. skipuð n. til að annast það verkefni, sem framangreint ákvæði lýtur að. Í erindisbréfi n. segir m. a. á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Skal n. semja frv. að nýjum lögum um verk- og tæknimenntun á háskólastigi og taka m. a. til athugunar í því sambandi, hvort ráðlegt sé, að stofnaður verði innan vébanda Háskóla Íslands sérstakur tækniháskóli, er taki við öllu tæknifræðinámi, sem nú fer fram í Tækniskóla Íslands, og verkfræðinámi við Háskóla Íslands. Enn fremur skal n. semja frv. til l. um tækniskóla, er veiti tæknimenntun á framhaldsskólastigi. N. skal við gerð frv. taka mið af meginstefnu álitsgerðar verk- og tæknimenntunarnefndar um nýskipun verk- og tæknimenntunar á Íslandi frá því í júní 1971. Þá er n. falið að semja framkvæmdaáætlun, er feli í sér mat á helztu kostnaðaráhrifum, er leiða mundu af framkvæmd frv., ef að lögum yrðu. Loks er n. falið að rannsaka ítarlega, hvort tiltækilegt sé, að fyrrgreindar menntastofnanir, önnur hvor eða báðar, verði starfræktar á Akureyri, sbr. ákvæði til bráðabirgða í l. nr. 66 frá 1972, um Tækniskóla Íslands. Æskilegt er, að n. hraði störfum eftir föngum og skili frv. fyrir árslok 1973:

Hér lýkur tilvitnun í erindisbréfi n. Í n. eiga sæti Sveinbjörn Björnsson eðlisfræðingur, formaður, Bjarni Kristjánsson rektor Tækniskóla Íslands, Magnús Magnússon prófessor, deildarforseti verkfræði- og raunvísindadeildar Háskóla Íslands, Jóhannes Zoëga hitaveitustjóri, tilnefndur af Verkfræðingafélagi Íslands, og Jónas Guðlaugsson rafveitustjóri, tilnefndur af Tæknifræðingafélagi Íslands.

Í síðari lið fsp. hv. þm. er spurt um, hversu mikið landrými og aðstöðu mundi þurfa að ætla hugsanlegum tækniháskóla á Akureyri. Ljóst má vera, að á meðan sú könnun, sem stofnað hefur verið til samkv. framansögðu, er svo skammt á veg komin, eru lítil tök á að veita viðhlítandi svör um þetta atriði. Þess má þó geta, að í áætlunum um byggingar fyrir verkfræði- og raunvísindadeild Háskóla Íslands hefur verið rætt um samanlagt um það bil 2800 fermetra grunnflöt þriggja byggingaráfanga á lóð, sem væri um það bil 15 þús. fermetrar eða hálfur annar ha. að stærð. Hefur þá verið gert ráð fyrir, að samanlagður gólfflötur í húsunum þremur yrði um 7 þús. fermetrar, þannig að byggingarhlutfall lóðarinnar yrði tæplega 0.5. Í þessum áætlunum hefur verið gert ráð fyrir, að byggja mætti eitt hús til viðbótar með um 1000 fermetra grunnfleti eða 2000 fermetra samanlögðum gólffleti, og mundi þá byggingarhlutfallið hækka í 0.6. Leggja ber áherzlu á, að hér er að verulegu leyti um óstaðfestar áætlanir að ræða. Aðeins 1. áfangi byggðar fyrir kennslu í verkfræði- og raunvísindadeild er risinn af grunni og unnið er að hönnun 2. áfanga.

Loks má minna á, að í álitsgerð verk- og tæknimenntunarnefndar á sínum tíma var gert ráð fyrir, að jafnframt stofnun tækniháskóla yrði komið á fót tækniskóla, er veitti tæknimenntun á framhaldsskólastigi. Víða erlendis er gert ráð fyrir, að þörf sé mun fleiri manna með slíka menntun en sérfræðinga með tæknimenntun á háskólastigi, og er ekki ólíklegt, að svipuð þróun verði hérlendis, þannig að jafnvel reynist þörf á fleiri en einum tækniskóla. óháð því, hvað ofan á verður um hugsanlegan tækniháskóla, virðist því fyllilega raunhæft að gera ráð fyrir þeim möguleika, að fullkominn tækniskóli verði á Akureyri, en þar starfar nú sem kunnugt er undirbúningsdeild og raungreinadeild, miðaðar við núverandi skipan Tækniskóla Íslands. Er og í 7. gr. l. nr. 66 frá 1972, um Tækniskóla Íslands, kveðið á um, að stefnt skuli að því, að á Akureyri verði sjálfstæður tækniskóli.