13.03.1973
Sameinað þing: 57. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2495 í B-deild Alþingistíðinda. (1897)

294. mál, smíði skuttogara á Spáni

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Eins og hv. fsp. greindi frá, er á þskj. 335 fsp. frá honum til mín í þremur liðum.

Í fyrsta lagi er spurt um, hve hárri upphæð kröfur skipasmíðastöðvarinnar á Spáni nemi umfram upphaflega samið verð hvers togara, sem þar er í smíðum fyrir ríkissjóð. Svarið er á þessa leið:

Hér er um að ræða 6 togara. Samið var um smíði fjögurra þeirra á árinu 1970, en um tvo, sem áður var ætlunin að smíða í Slippstöðinni á Akureyri, var samið á miðju ári 1972. Skipasmíðastöðin, sem í hlut á, hefur ekki gert kröfu um viðbótargreiðslu vegna þessara skipasmíða. Hins vegar skrifaði hún bréf og skýrði frá 90 millj. peseta tapi, eða 150 millj. kr., á smíði fyrstu fjögurra skipanna og erfiðleikum á að fjármagna smíði síðustu tveggja skipanna, eins og fjármálum stöðvarinnar væri komið. Í bréfinu var orðuð sú hugmynd, að ríkissjóður bæri helminginn af tapinu, þ. e. 75 millj. kr., en hækkaði síðan verð togaranna tveggja um 12 millj. kr. hvors.

Spurt er í framhaldi af þessu: „Hvert verður endanlegt smíðaverð hvers skips, ef gengið verður að þessari kröfu?“ Því er fyrst til að svara, að ekki hefur verið til umr. að fallast á þessar hugmyndir skipasmíðastöðvarinnar. Henni hefur algerlega verið neitað, og skipasmíðastöðin mun skila 4 fyrstu togurunum á því verði, sem um var samið. Hins vegar, ef að þessum kröfum hefði verið gengið, mundi hvert skip hafa kostað um 204 millj. kr. Um síðari skipin er það að segja, að um þau er meiri óvissa, en ef að kröfum um þau ætti að ganga, mundi verðið á þeim með þeim breytingum, sem orðið hafa á þeim hlutum, sem voru keyptir fyrir þýzk mörk, sem búið var að kaupa til Akureyrartogaranna, verða um 250–260 millj. kr. á skip.

Þá er í þriðja lagi spurt: Hve hátt var tilboð Slippstöðvarinnar á Akureyri í smíði hliðstæðra skipa, reiknað á núgildandi verði? Svarið er á þessa leið: Framreikningur tilboðs af þessu tagi er alltaf erfiðleikum háður. Aðilar, sem á sínum tíma sömdu við Slippstöðina, hafa reiknað út, að sambærilegt smíðaverð hjá Slippstöðinni, miðað við samninga, væri nú nálægt 250 millj. kr. á skip.