13.03.1973
Sameinað þing: 57. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2496 í B-deild Alþingistíðinda. (1898)

294. mál, smíði skuttogara á Spáni

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svörin. Í svari hans kom fram, að síðari togararnir, ef þeir hefðu verið smíðaðir á Spáni, mundu kosta um 250–260 millj, kr., en ef þessir togarar hefðu verið smíðaðir samkv. samningi við Slippstöðina, mundu þeir kosta um 250 millj. kr. Þetta eru fróðlegar upplýsingar í sjálfu sér. En ég verð að gera athugasemdir við síðari töluna í þessu svari. Mér finnst hún heldur hærri en ég hafði gert mér í hugarlund og komið hefur fram a. m. k. hjá forráðamönnum Slippstöðvarinnar á Akureyri. Út af fyrir sig er kannske hægt að segja, að báðar tölurnar séu ekki alveg nákvæmar, en þær sýna þó, að þetta tilboð, sem þótti alveg sérstaklega hagstætt á Spáni, er í raun réttri mjög hliðstætt því, sem innlend skipasmíðastöð gerði á sínum tíma og þótti miklu verra aðgöngu.

Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á þessu og eins því, að það hefur oft verið rætt um það í blöðum hér innanlands, að það hafi komið fram ýmsir gallar í skipum, sem innlendar skipasmíðastöðvar hafa smíðað, en nú um nokkurt skeið hefur þurft að gera verulegar lagfæringar á því eina skipi, sem komið hefur frá Spáni, en ég hef hvergi séð á það minnzt í íslenzkum fjölmiðlum. Hér tel ég, að sé mál, sem íslenzk stjórnvöld þurfi að athuga vel, hvort ekki er í raun og veru affluttur málstaður íslenzkra skipasmíðastöðva í samanburði við það, þegar verið er að ræða um innlendar stöðvar, bæði að því er varðar verð og framleiðslugæði stöðvanna.