13.03.1973
Sameinað þing: 57. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2497 í B-deild Alþingistíðinda. (1900)

295. mál, afhending skuttogara fyrir Útgerðarfélag Akureyringa

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af fsp. hv. þm. Lárusar Jónssonar vil ég svara þessu:

Að tilhlutun fjmrh. og sjútvrh. voru málefni skipasmíðastöðvar þeirrar, sem smíðar áðurnefnda 6 togara fyrir Íslendinga, könnuð sérstaklega, eftir að borizt hafði bréf frá skipasmíðastöðinni, sem um var rætt í svari við fsp. hér á undan. Á grundvelli þeirrar athugunar vonast fjmrn. sterklega til, að skipasmíðastöðin afhendi þá togara, sem ætlaðir eru Útgerðarfélagi Akureyringa, á þeim tíma og á því verði, sem um var samið, þó að sjálfsögðu með tilliti til afhendingardráttar, sem verða kann vegna óviðráðanlegra atvika. Gera þarf ráðstafanir til þess að gæta hagsmuna íslenzka ríkisins til hins ítrasta, ef illa fer fyrir stöðinni. Fari þessir smíðasamningar ekki eins og til hefur verið ætlazt, er þegar kunnugt um tvo aðila, sem reiðubúnir eru til að taka að sér smíðina, en um verð og tímasetningu á þessu stigi er ekki ástæða til að ræða í sambandi við þessa fsp.

Ég vil geta þess til viðbótar þessu, að það liggur ekki endanlega fyrir enn þá, hvort skipasmíðastöðin á Spáni getur staðið við þann samning, sem hún hafði gert um smíði á þessum tveimur togurum. Hins vegar vil ég bæta því við í sambandi við það, sem fram kom í ræðu hv. 5. þm. Norðurl. e., Lárusar Jónssonar, hér áðan, að eins og honum er kunnugt um, var ástæðan til þess, að hætt var við þessa smíði á Akureyri, fjárhagserfiðleikar skipasmíðastöðvarinnar á Akureyri og sú áhætta, sem Akureyrarbær var í vegna þess samnings, sem hafði verið gerður um smíði á þessum tveimur togurum. En það er ekki endanlega öruggt nú, hvort Spánverjar geta tryggt, að smíði á þessum skipum verði hjá þeim.