13.03.1973
Sameinað þing: 57. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2497 í B-deild Alþingistíðinda. (1901)

295. mál, afhending skuttogara fyrir Útgerðarfélag Akureyringa

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson) :

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svörin. Ég vil aðeins gera smáathugasemd við það, sem hann sagði hér síðast, að ástæðan fyrir því, að þessi skip voru ekki smíðuð í Slippstöðinni á Akureyri, væri fyrst og fremst fjárhagsörðugleikar stöðvarinnar. Út af fyrir sig má segja, að það sé rétt. Hitt er annað mál, hvort hafi verið skynsamlega ráðið að semja þá við aðra skipasmíðastöð, sem vitað var að stóð ekki vel að vígi og hefur komið í ljós að allt er í óvissu um að geti afhent þessi skip, þótt úti á Spáni sé. Það er spurning, sem ég held að hæstv. ráðh. ætti að velta svolítið fyrir sér.

Ég vil aðeins að lokum segja það út af þessari sérstöku fsp. um afhendingu togara til Útgerðarfélags Akureyringa, að ég vænti þess, að sem skjótast takist samstarf milli Útgerðarfélagsins og stjórnvalda um það, að Útgerðarfélagið fái þessa togara. Eins og ég sagði áðan, er hér um mjög brýnt mál að ræða, þar sem aðeins einn togari félagsins er tiltölulega nýr, hin skipin eru þegar orðin úrelt og mjög dýr í rekstri. Hér er því um að ræða mál, sem þarf að hafa skjót viðbrögð við og búa þannig um hnúta, að öruggt verði, að þessi skip komi á sem allra skemmstum tíma.