13.03.1973
Sameinað þing: 57. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2499 í B-deild Alþingistíðinda. (1904)

296. mál, samkeppnishættir erlendra skipasmíðastöðva

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Hv. þm. Lárus Jónsson spyr: „Hyggst ríkisstj. ekki láta rannsaka samkeppnishætti erlendra skipasmíðastöðva út af því, sem nú er að gerast í þessu efni á Spáni, og meta samkeppnishæfni íslenzka skipasmíðaiðnaðarins gagnvart erlendum stöðvum?“

Eins og fram kom af ræðu hv. þm., dregur hann í efa, að í hinu spánska tilboði hafi verið um eðlilega samkeppnishætti að ræða. Hann telur, að þar hafi verið um að ræða raunveruleg undirboð. Ég hef borið þetta atriði undir Jón Sigurðsson ráðuneytisstjóra í fjmrn., en hann var formaður þeirra fjögurra manna n., sem fór til Spánar í febrúarmánuði á vegum fjmrh. og sjútvrh., og spurt hann að því, hvort hann telji, að þarna hafi verið um að ræða óeðlilega samkeppnishætti. Mat Jóns Sigurðssonar ráðuneytisstjóra er það, að hann telur, að kröfur og viðbrögð hinnar spænsku skipasmíðastöðvar gefi ekkert tilefni til sérstakrar rannsóknar á samkeppnishætti erlendra skipasmíðastöðva út af fyrir sig. Ekkert bendir til þess að hans mati, að hér hafi verið um undirboð að ræða.

Um þessa hlið málsins hef ég ekki ýkjamikið meira að segja. Ég hygg, að hv. fyrirspyrjandi gæti fengið um þetta vitneskju m. a. hjá flokksbræðrum sínum í fyrrv. ríkisstj., vegna þess að þessi samningur við Spánverjana var upphaflega gerður á árinu 1970, og ég þykist fullviss um það, að þeir ráðh., sem þá fjölluðu um málið, hafi talið sig hafa um það fulla vitneskju, að þarna væri um að ræða algerlega heiðarleg og eðlileg tilboð. Ég held, að hv. fyrirspyrjandi hljóti að hafa mjög greiðan aðgang að þessum fyrrv. ráðh.

Hitt er svo annað mál, að ég er þeirrar skoðunar, að það beri að meta hverju sinni samkeppnishæfni íslenzks iðnaðar og íslenzkra verktaka gagnvart erlendum aðilum, og það á að sjálfsögðu ekki sízt við um skipasmíðaiðnaðinn. Raunin hefur orðið sú, að oft hafa erlendir aðilar getað gert hagkvæmari tilboð á pappírnum og þeim hefur verið tekið samkv, einföldum útreikningum á þeim forsendum, enda þótt það sé augljós staðreynd, að þeir innlendir aðilar, sem við þá hafa keppt, hafa orðið að standa undir miklu meiri þjóðhagslegum skuldbindingum hér á landi en hinir erlendu aðilar. Ég er þeirrar skoðunar, að þennan þjóðhagslega þátt beri okkur að taka inn í dæmið. Það getur í mörgum tilvikum verið skynsamlegra að taka tilboði innlendra aðila en erlendra með tilliti til þess, að á starfsemi þessara innlendu aðila, hæði fyrirtækja og verktaka, hvílir þjóðfélagskerfi okkar að verulegu leyti. Þetta er atriði, sem ég hef minnzt á hér á þingi á undanförnum árum, ekki sízt í sambandi við það, þegar erlendum verktökum hafa verið falin ýmiss konar verk, sem ég tel, að innlendir verktakar hefðu getað tekið að sér.

Af þessari ástæðu skipaði ég í haust, 13. nóv., þriggja manna n., sem ég fól það verkefni að kanna og meta frá þjóðhagslegu sjónarmiði, að hve miklu leyti megi tefjast hagkvæmt að taka tilboðum íslenzkra aðila fremur en erlendra, þótt um einhvern verðmismun sé að ræða. Í þessari n. eiga sæti Árni Snævarr ráðuneytisstjóri, formaður, Páll Hannesson verkfræðingur og Guðmundur Ágústsson hagfræðingur. Í þessu sambandi má benda á það, að í sumum löndum eru ákvæði um það, að við opinberar framkvæmdir skuli taka innlendum tilboðum, þó að þau séu vissri prósentu hærri en tilboð frá útlendingum. Þetta er m. a. regla, sem gildir í Bandaríkjunum. Þessi n., sem ég gat um áðan, hefur nú þegar tjáð mér, að hún hafi aflað sér upplýsinga og gagna, og ég vænti þess, að hún geti skilað áliti fljótlega. Ég hef mikinn áhuga á því, að á grundvelli slíks undirbúnings væri hægt að setja einhverjar almennar reglur, sem tryggðu það, að tekið væri fullt þjóðhagslegt tillit til innlendra aðila í tilvikum eins og þessum, og undir það mundi að sjálfsögðu heyra samkeppnishæfni íslenzka skipasmíðaiðnaðarins gagnvart erlendum stöðvum og önnur atriði, sem þetta vandamál kunna að snerta.