13.03.1973
Sameinað þing: 57. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2501 í B-deild Alþingistíðinda. (1906)

298. mál, sjálfvirk radíódufl í íslenskum skipum

Fyrirspyrjandi (Jónas Árnason) :

Herra forseti. Tveir hv. þm., Bjarnfríður Leósdóttir og Garðar Sigurðsson, fluttu og fengu samþykkta á síðasta þingi svo hljóðandi þáltill., með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir því, að sett verði inn í reglugerð um eftirlit með skipum ákvæði um, að öll íslenzk skip skuli hafa um borð sjálfvirk radíódufl til neyðarkallssendinga:

Í fsp. minni á þskj. 335 leyfi ég mér að beina þeirri spurningu til hæstv. samgrh., hvað liði framkvæmd þessarar ályktunar.

Það þarf ekki að fjölyrða um það, hver nauðsyn er á því, að þessum radíóduflum verði komið í skip. Nýleg dæmi sanna það, og eru dæmin um það reyndar orðin allt of mörg. Rétt er að geta þess, að hv. þm. Pétur Sigurðsson hefur flutt þáltill., sem mjög er skyld þessu máli. Í grg. með þeirri till. kemur fram sú hugmynd, að radíódufl af þessu tagi verði ekki aðeins í skipunum sjálfum, heldur verði einnig athugaðir möguleikar á því að koma þeim fyrir í björgunarbátunum, gúmmíbátunum, og útbúa þau þannig, að þau fari að senda, strax og bátarnir eru blásnir upp, þ. e. a. s. strax og þörf er á þeim vegna slyss. Ég tel þetta hina þörfustu till., og margt fleira er í henni, sem horfir til mikils öryggis fyrir sjómenn. Ég vænti þess, að hv. Alþ. beri gæfu til að samþykkja þessa till. einnig sem allra fyrst.