13.03.1973
Sameinað þing: 57. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2501 í B-deild Alþingistíðinda. (1907)

298. mál, sjálfvirk radíódufl í íslenskum skipum

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Það er upphaf þessa máls, að hinn 16. maí 1972 ályktaði Alþ. að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir því, að sett yrðu inn í reglugerð um eftirlit með skipum ákvæði um, að öll íslenzk skip skuli hafa um borð sjálfvirk radíódufl til neyðarkallssendinga. Þetta mál var í byrjun júnímánaðar sent til frumathugunar hjá Siglingamálastofnun ríkisins. Umsögn Páls Ragnarssonar aðstoðarsiglingamálastjóra barst rn. 12. júní þess árs, og er þar bent á ýmis vandkvæði, sem séu á framkvæmd þál., aðallega vegna mikils kostnaðar, sem slíkt hefði í för með sér fyrir útgerðina. Páll taldi, að líklegur kostnaður af þeim duflum, sem að gagni mætti koma, væri um 96 þús. kr. eða fyrir allan flotann 185 millj. kr. Þetta átti við, ef keypt yrðu japönsk dufl, en af annarri gerð, brezkri, sem til greina kom, mundi kostnaður verða alls, fyrir allan íslenzka flotann, 431 millj. kr. Í bréfi frá Páli persónulega, dags. 12. júlí s. á., sem fylgdi með umsögn stofnunarinnar, sagði hann m. a.:

„Meðan skipaeigendur eru svo til daglegir gestir á skrifstofu siglingamálastjóra til að sækja um fresti og undanþágur á algengustu viðgerðum skipa sinna vegna féleysis, sýnist mér harla óraunhæft að ætlast til þess, að þeir kaupi umrædd dufl. Á þetta sérstaklega við um eigendur minni bátanna, en þar mundi slíkra dufla helzt vera þörf.“

Rn. lét ekki hér við sitja, heldur sendi 1. ágúst fyrra árs málið og þ. á m. bréf Siglingamálastofnunarinnar til Landssambands ísl. útvegsmanna, Sjómannasambands Íslands, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Félags ísl. botnvörpuskipaeigenda. Var óskað umsagnar allra þessara aðila um málið. Umsagnir hafa nú borizt frá öllum þessum aðilum, og skiptast þær í tvö horn, eins og búast mátti við. Samtök útgerðarinnar mæla gegn framkvæmd breytingarinnar, aðallega sakir kostnaðar, en samtök sjómanna og farmanna mæla með breytingunni. Á s. l. hausti komu til viðtals í samgrn. fulltrúar japanska fyrirtækisins, sem framleiðir sjálfvirk radíódufl af hinni svonefndu SOS-gerð, sem talin voru koma til greina sem fullnægjandi samkv. þál., sem að framan getur. Japanirnir staðfestu, að verðið, sem tilgreint er í bréfi Siglingamálastofnunarinnar, væri nokkuð nærri lagi, þó væri um að ræða tvær tegundir og væri verð þeirrar minni 775 Bandaríkjadollarar, en hinnar stærri 1175 Bandaríkjadollarar. Japanirnir kváðu skipum í sínu heimalandi vera skylt að hafa dufl af þessari gerð, en viðurkenndu hins vegar að japönskum skipum væri almennt ekki skylt að hafa talstöðvar eins og íslenzkum skipum.

Málið hefur þannig verið athugað frá báðum hliðum, og er nauðsynlegt að taka fljótlega ákvörðun um skref í þessu efni, en sem sé, skoðanirnar eru alveg andstæðar. Ég held, að það sé rétt, ef tíminn leyfir, að grípa ofan í umsagnir aðila frá báðum hliðum, og er þá fyrst Landssamband ísl. útvegsmanna. Í bréfi þess segir:

„Vér viljum í upphafi umsagnar vorrar láta í ljós það álit, að vér erum fylgjandi því, að íslenzk fiskiskip verði ávallt búin þeim öryggisbúnaði, sem á hverjum tíma er talinn beztur, og vísum í því sambandi til mjög jákvæðra undirtekta útvegsmanna við óskum opinberra aðila um öryggisbúnað. Útvegsmenn eiga því rétt á því, að raunhæft mat sé lagt á gildi nýrra öryggistækja, sem til álita getur komið að setja um borð í skip. Ekki munu þess dæmi í nálægum löndum, að eigendur skipa hafi verið skyldaðir til að hafa radíódufl um borð í skipum. Öryggi skipverja hefur þótt betur tryggt með því að skylda útvegsmenn til að hafa annað tveggja neyðarsenda fyrir gúmmíbjörgunarbáta eða radíódufl, og hafa neyðarsendarnir undantekningarlítið verið teknir fram yfir radíóduflin, því að þeir hafa verið taldir veita sjómönnum meira öryggi. Íslenzkum útvegsmönnum hefur verið gert skylt að hafa neyðarsenda fyrir gúmmíbjörgunarbáta á skipum. Til viðbótar því öryggi, sem felst í að hafa talstöðvar í skipum og neyðarsenda í gúmmíbáta, hefur nýlega verið komið á fót tilkynningarskyldu hjá íslenzkum fiskiskipum, þar sem áhöfn er gert skylt að gera vart um ferðir sínar oft á sólarhring. Hefur kerfi þetta gengið vel og er orðið mjög vinsælt af aðstandendum sjómanna, sem nú geta fengið fréttir af ferðum skipa með einu símtali:

Þetta var úr umsögn Landssambands ísl. útvegsmanna. Það heldur áfram, með leyfi hæstv. forseta:

„Helst virðist þörf á að hafa umrædd radíódufl í litlum bátum, sem ekki eru búnir talstöðvum eða gúmmíbátum, en fyrirferð þess er hins vegar svo mikil, að ómögulegt er að koma því þar fyrir. Með tilvísun til þess öryggis, sem felst í öryggisbúnaði fiskiskipa nú þegar, leyfir stjórn Landssambands ísl. útvegsmanna sér að mæla eindregið gegn því, að skylda verði að hafa radíódufl í skipum, enda ekkert dæmi um, að þau mundu hafa komið að gagni við björgun mannslífa, eftir að tilkynningaskyldan tók til starfa og skyldað var að hafa neyðarsenda í gúmmíbátum. Er hér einnig um svo gífurlega fjárfestingu að ræða eða um 185 millj. kr., að með öllu er útilokað, að útgerðin geti undir risið:

Hér endar bréf Landssambands ísl. útvegsmanna. Umsögn Sjómannasambands Íslands er örstutt og er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta :

„Sjómannasambandið hefur móttekið heiðrað bréf rn., dags. 1. ágúst s. l., ásamt þál. um sjálfvirk radíódufl í íslenzkum skipum og afrit af bréfi Siglingamálastofnunar ríkisins þar um. A fundi stjórnar sambandsins 21. þ. m. var samþykkt að mæla með því, að flýtt verði framkvæmd máls þessa eins og möguleikar eru á.

Virðingarfyllst,

f. h. Sjómannasambands Íslands,

Jón Sigurðsson.“

Umsögn Farmanna- og fiskimannasambandsins er líka örstutt, og er efni þeirrar umsagnar á þessa leið:

„Sem svar við bréfi hv. samgrn., dags. 1. ágúst 1972, viljum við segja eftirfarandi:

Farmanna- og fiskimannasamband Íslands mælir eindregið með því, að í reglugerð um eftirlit með skipum verði sett ákvæði um notkun sjálfvirkra radíódufla til neyðarkallssendinga. Meðal nágrannaþjóða vorra eru slík dufl fyrirskipuð í a. m. k. öll skip yfir 30 tonn að stærð. Við getum fallizt á álit Siglingamálastofnunarinnar um, að nokkurn tíma þurfi til undirbúnings reglugerðar.

Virðingarfyllst,

f. h. Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, Ingólfur Stefánsson:

Með leyfi hæstv. forseta, tek ég hér efni úr umsögn Félags ísl. botnvörpuskipaeigenda. Þar segir:

„Oss barst í dag bréf hins háa rn., dags. í gær, þar sem ítrekuð er ósk um umsögn félags vors um framkvæmd þál. um sjálfvirk radíódufl í íslenzkum skipum. Vér biðjum velvirðingar á því, að vér höfum ekki formlega gert grein fyrir afstöðu vorri til þessa máls, en skýringin er sú, að félag vort er meðlimur í Landssambandi ísl. útvegsmanna og á 4 fulltrúa í stjórn þess. Landssambandi ísl. útvegsmanna bárust samhljóða tilmæli frá hinu háa rn. og afgreiddi þau á stjórnarfundi 29. ágúst s. l. á þann hátt, sem fram kemur í bréfi Landssambands ísl. útvegsmanna til hins háa rn., dags. 30. ágúst s. l. Fulltrúar vorir í stjórn L. Í. U. stóðu einhuga að afgreiðslu málsins, og var það þar með afgreitt af félagi voru. Oss láðist að óska þess, er bréf L. Í. Ú. var ritað, að þess væri einnig getið, að félag vort væri því samþykkt. Afrit af bréfi L. Í. Ú. fylgir hér með.“

Félag ísl. botnvörpuskipaeigenda vísar þannig algerlega til umsagnar Landssambands ísl. útvegsmanna.

Þannig stendur málið að öðru leyti en því, að ég fékk nýlega, fyrir örfáum dögum, upplýsingar um það, að til mundi vera norsk gerð af radíóduflum, sem að áliti þess aðila, sem við mig ræddi, gæti komið hér til greina, og hann taldi, að mundi henta vel íslenzkum aðstæðum og vera mun ódýrari en jafnvel japönsku duflin.

Ég vildi svo að fengnum þessum svörum ganga úr skugga um það, hvort ríkisstj. teldi gerlegt að fyrirskipa þessa breytingu á reglugerð, leggja útgerðinni það á herðar. Var sú ákvörðun tekin fyrir alllöngu að gera það ekki að sinni. En málið er áfram til athugunar, og verður þá náttúrlega að leggja dóm á það, hvort við eigum að bæta þessari skyldu við til frekara öryggis og hvort menn telja þessi tæki svo mikils virði, að þau bæti verulega um öryggi íslenzkra farmanna og fiskimanna í viðbót við þau tæki, sem þegar eru fyrirskipuð í íslenzk skip.