13.03.1973
Sameinað þing: 57. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2505 í B-deild Alþingistíðinda. (1909)

298. mál, sjálfvirk radíódufl í íslenskum skipum

Fyrirspyrjandi (Jónas Árnason) :

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svör hans, en verð þó að segja eins og er, að sú yfirlýsing, að ríkisstj. hafi ákveðið að framkvæma ekki þá þál., sem hér er til umr., er hneykslanleg. Ég er engu síður hneykslaður yfir þessu en hv. þm. Pétur Sigurðsson og kannske þeim mun hneykslaðri sem ég er nú einu af stuðningsmönnum hæstv, ríkisstj.

Ástæðan fyrir því, að ríkisstj. hefur ákveðið að verða ekki við þeirri áskorun, sem fólst í þessari þál., skilst manni, að sé sú, að útgerðarmenn bera sig illa vegna peningaleysis. Þeir kveinka sér undan því að borga 90 þús. kr. á skip til þess að koma þessum radíóduflum fyrir í skipunum. Þeir tala ekkert um það aukna öryggi, sem af þessu fengist. Þeir barma sér einvörðungu undan því að borga 90 þús. kr. á skip, og svo fá þeir út tröllaukna summu með því að leggja svo og svo oft saman 90 þús., komast þá eitthvað yfir 400 millj. Ég verð að segja, að að mínum dómi var það lítill greiði við íslenzka útgerðarmenn að fara að lesa upp úr áliti þeirra hér á þingi og verður sannarlega ekki til þess að auka hróður þeirra. En þetta er ekki álit hæstv. ráðh., þetta er álit þeirra. Hitt er verra, að ráðh. og ríkisstj. öll virðast ætla að verða við þeim tilmælum, sem fólgin eru í kveinstöfum útgerðarinnar, að fylgja ekki fram þessu nauðsynjamáli.

Í áliti frá siglingamálastjóra eða aðstoðarsiglingamálastjóra segir, að meðan skipaeigendur séu daglegir gestir á skrifstofunni til þess að fá undanþágur varðandi alls konar öryggismál, sé það alveg út í bláinn, skilst manni, að ætlast til þess, að þeir setji þessi öryggistæki í skipin. Táknar þetta, að verið sé að veita íslenzkum skipum 3 stórum stíl undanþágur varðandi kannske nauðsynlegustu öryggismál? Ef svo er, þá sýnist mér, að hér sé annað hneyksli á ferðinni öllu meira en það, sem ég nefndi áðan.

Landssamband ísl. útvegsmanna talar um það, að meðan ekki hafi fengizt nein raunhæf reynsla að því er varðar gildi þessara radíódufla, sé ekki ástæða til þess að kaupa þau. L. Í. Ú. virðist ekki hafa kynnt sér álit Slysavarnarfélags Íslands, þess aðila, sem að sjálfsögðu veit bezt um þessi mál, en það álit eða glefsa úr því var birt í nál. allshn. í fyrra. Slysavarnarfélagið hafði einmitt gert tilraunir með þetta öryggistæki, og það var í framhaldi af þeim tilraunum og niðurstöðum af þeim, sem þessi till. var flutt.(Forseti: Hv. þm. hefur talað í 5 mínútur.) Mætti ég aðeins fá leyfi til að lesa upp þennan örstutta kafla? — Þessi kafli úr áliti Slysavarnarfélags Íslands er svohljóðandi:

„Hvað þessa till. snertir er félagsstjórninni ánægja að mæla með henni til samþykktar á hinu háa Alþ. Slysavarnarfélagið telur, að hér sé um þýðingarmikið öryggismál að ræða. Eins og dæmi sanna, gefst oftast lítill fyrirvari til að kalla á hjálp á neyðarstundu, ef bátar verða fyrir alvarlegu áfalli. Slysavarnarfélagið hefur gert tilraunir með slík radíódufl og eins kynnt þau fyrir sjómönnum. Notagildi tækjanna er rétt lýst í grg. með till.