30.10.1972
Neðri deild: 7. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 418 í B-deild Alþingistíðinda. (191)

Umræður utan dagskrár

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Í tilefni af upplýsingum hv. 5. þm. Vesturl. og síðan ræðu hæstv. forsrh. ætla ég að víkja aðeins að ágalla á opinberri fréttaþjónustu af störfum Landhelgisgæzlunnar, sem fram kom í fréttum útvarps og sjónvarps í gærkvöld og síðan í dag í fréttaskeytum Associated Press, fréttaskeytum Reuters og fréttaskeytum United Press af atburðunum við Ísafjarðardjúp núna óveðursdagana.

Í gærkvöld var sagt frá því í fréttatíma útvarps og sjónvarps eftir Landhelgisgæzlunni, að varðskip hefði í gær skotið púðurskotum að brezkum togurum, sem leitað hefðu vars undan Grænuhlíð í hafróti. Haft var eftir forstöðumönnum Landhelgisgæzlunnar, að tilgangurinn með púðurskotunum hefði verð sá að reka togarana út aftur, en það hefði ekki tekizt. Þetta var síðan haft eftir forstöðumönnum íslenzku Landhelgisgæzlunnar í erlendum fréttastofufregnum í dag, að varðskip okkar hefðu skotið púðurskotum að brezku togurunum, sem lágu í landvari undan Grænuhlíð í hafróti í gær, til þess að stugga þeim út aftur. Þessi frétt Landhelgisgæzlunnar var síðan leiðrétt í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í dag. Þar var frá því sagt, að gerð hefði verið tilraun til þess að koma varðskipsmönnum á gúmbáti um borð í breskan togara, hinir togararnir, sem þarna lágu, hefðu þyrpzt umhverfis þann, sem taka átti, og komið í veg fyrir, að hægt væri að setja menn um borð í hann, og þá hefði verið skotið púðurskotum. Ég er ekki alveg viss um, að menn geri sér nógu ljósa þýðingu þess, að erlendar fréttastofur fái glöggar og skjótar fréttir af athöfnum íslenzku Landhelgisgæzlunnar til þess að koma þeim á framfæri, áður en þær neyðast til þess að nota þær heimildir, sem þeim eru fengnar í hendur úti í brezku togarabæjunum. Og nú vil ég beina þeirri spurningu til hæstv. forsrh., hvernig á því standi, að íslenzkum fréttamönnum blaða og útvarps og fréttamönnum nokkurra valinna erlendra fréttastofa er ekki leyft að fylgjast með störfum Landhelgisgæzlunnar um borð í varðskipunum?