13.03.1973
Sameinað þing: 57. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2512 í B-deild Alþingistíðinda. (1916)

300. mál, rannsókn á jafnrétti þegnanna í íslensku þjóðfélagi

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þegar ég fór að hugleiða þáltill., sem samþ. var á Alþ. um rannsókn á jafnrétti þegnanna í íslenzku þjóðfélagi, komst ég fljótlega að þeirri niðurstöðu, að þetta væri svo víðtæk rannsókn og umfangsmikil, að ekki væru tök á því fyrir rn. að framkvæma hana, og fór því að hugleiða, hvaða aðila hægt væri að fá til þess að takast hetta verkefni á hendur. Mér kom þá í hug að leita til námsbrautar í almennum þjóðfélagsfræðum við Háskóla Íslands og fara þess á leit við þá deild háskólans, að hún tæki þessa rannsókn að sér. Ég fékk við þessu jákvæð svör, og rn. ákvað að taka á sig að greiða kostnað af slíkri þjóðfélagsrannsókn. Ég vil því hér í svari mínu vísa til þeirra bréfaskipta, sem fram hafa farið um þetta, og er þá fyrst bréf frá dr. Ólafi Ragnari Grímssyni, svo hljóðandi:

„Með bréfi, dags. 25. maí s. l., fól félmrn. námsbraut í almennum þjóðfélagsfræðum við Háskóla Íslands að annast rannsókn á jafnrétti þegnanna í íslenzku þjóðfélagi samkv. þál., sem samþ. var á Alþ. 5. apríl 1971. Námsbraut í almennum þjóðfélagsfræðum hefur framkvæmt þessa rannsókn á eftirfarandi hátt:

Undir umsjón lektora námsbrautarinnar hefur Guðrún Sigríður Vilhjálmsdóttir safnað margvíslegum heimildum um jafnrétti þegnanna. Þessar heimildir snerta einkum menntun, laun, félagslega þátttöku og ýmis trúnaðarstörf. Söfnun þessara heimilda og úrvinnsla úr þeim hefur reynzt vera mun umfangsmeiri en búizt var við í upphafi. Vegna almennra vetraranna við námsbrautina hefur því ekki unnizt tími til að fullgera skýrslu um niðurstöður rannsóknarinnar, en þegar vetrarönnum lýkur, mun Guðrún Sigríður Vilhjálmsdóttir ásamt lektorum einbeita sér að skýrslugerðinni og skila rn. niðurstöðum fyrir næsta haust.

Með þessu bréfi fylgir skýrsla Guðrúnar Sigríðar Vilhjálmsdóttur um störf hennar fram til þessa.

F. h. lektora við námsbraut í almennum þjóðfélagsfræðum,

Ólafur Ragnar Grímsson.“

Hér er svo örstutt skýrsla frá Guðrúnu Sigríði Vilhjálmsdóttur, og segir þar:

„Í júlímánuði s. l. var mér falið að gera rannsókn á jafnrétti þegnanna í íslenzku þjóðfélagi, einkum með tilliti til menntunar, launa og félagslegrar þátttöku karla og kvenna. Þann 1. ágúst hóf ég þessa rannsókn, og vann ég samfellt að henni til 10. sept. Á þessum tíma leitaðist ég við í fyrsta lagi að afla þeirra kannana, sem þegar hafa verið gerðar og snerta jafnrétti þegnanna á einhvern hátt, í öðru lagi að safna nýjum upplýsingum og gera kannanir á sviði menntunar, launa og félagslegrar þátttöku þegnanna og í þriðja lagi að vinna úr þessum gögnum. Vegna gagnasöfnunarinnar hef ég þurft að leita til margra aðila, bæði opinberra aðila og einkaaðila, og hafa viðkomandi aðilar nærri undantekningarlaust verið reiðubúnir að greiða götu mína.

Eftir 10. sept. hef ég verið önnum kafin við nám í þjóðfélagsfræðum við Háskóla Íslands, en jafnframt haldið áfram gagnasöfnun og úrvinnslu, þegar tími hefur gefizt til þess.

Hér á eftir fer yfirlit yfir þau atriði, sem aflað hefur verið upplýsinga um.

Guðrún Sigríður Vilhjálmsdóttir.“

Hér með hefur hún svo gefið mér yfirlit yfir byrjunarstarf sitt að þessu víðtæka verkefni, og sýnist mér, að hún komi þar víða við og afli margvíslegra gagna. Mér sýnist því allt stefna í þá áttina, að merk ritgerð komi frá hendi þessarar ungu konu um þetta efni. Ég hygg, að hv. fyrirspyrjandi hafi mestan áhuga á því að sjá, hvernig verkið er grundvallað, og mun ég því afhenda það fskj., sem hér er, um byrjun þessarar rannsóknar. Það gefur til kynna, á hvaða grundveili þetta rannsóknastarf er byggt, og sýnir okkur, á hvaða vegi það er, þó að það sé langt frá því, að því sé lokið.