13.03.1973
Sameinað þing: 57. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2519 í B-deild Alþingistíðinda. (1924)

301. mál, menningarsjóður félagsheimila

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. skýr og greinargóð svör varðandi fsp. mína. Ég lagði einmitt aðaláherzlu á það, að fé og kröftum yrði varið til þess að efla hvers kyns menningarstarfsemi hjá félagsheimilunum, og mér sýnist, að þarna hafi nokkuð áunnizt hvað snertir annan liðinn. Ég vil alveg sérstaklega fagna því, hvað þarna hefur verið vel af stað farið hvað snertir menningarstarfsemi einmitt í félagsheimilum eystra. Ég sé, að þau eru þarna mjög drjúg. Félagsheimilin hafa í raun og veru fengið það orð á sig að vera fyrst og fremst til dansleikjahalds og reyndar af lakari gerðinni, þó að ég hef reyndar ekki séð mun á þeim samkomum og þessum svokölluðu siðmenningarsamkomum hér í höfuðborginni. En hvað sem því líður, þá er áreiðanlega aldrei nóg að gert til að efla hvers konar félags- og menningarstarfsemi í félagsheimilunum, svo að þau kafni ekki undir nafni.

Mér þykir það miklu miður, að engar umsóknir skuli hafa á árinu borizt um það frá félagsheimilunum sjálfum, að þau eða aðilar, sem að félagsheimilunum standa, efni sjálfir til dagskrárflutnings. Ég hygg, að þetta hafi verið mikið fyrir það, að stjórnir félagsheimilanna hafi litið svo á, að þessi menningarsjóður væri í rauninni eingöngu til þess að fá aðfengið skemmtiefni og þá auðvitað af hámenningarsvæðinu hér í höfuðborginni. Ég álít hins vegar, að aðalverkefni sjóðsins í raun og veru, annað aðalverkefnið a. m. k., sem á að hafa fullkomlega jafnan aðgang að þessum sjóði, séu þau verkefni, sem félagsheimilin sjálf taki að sér eða einstakir aðilar innan þeirra, eins og t. d. leikfélög, sem eru oft virkasti aðilinn í félagsmálastarfsemi hvers staðar, og sjóðurinn eigi alveg sérstaklega að styrkja þessa aðila og vekja þá hreint og beint til lífsins með að efla þessa starfsemi sína, því að að öðrum kosti tel ég hann ekki gegna því hlutverki, sem hann á að gegna.