14.03.1973
Efri deild: 69. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2521 í B-deild Alþingistíðinda. (1929)

3. mál, bygging og rekstur dagvistunarheimila

Frsm. (Ragnar Arnalds) :

Herra forseti. Menntmn. hefur haft til athugunar frv. til l. um hlutdeild ríkisins í byggingu og rekstri dagvistunarheimila. N. hefur fengið um það margar umsagnir og mælir nú með samþykkt frv. með tilteknum breytingum, en einstakir nm. áskilja sér allan rétt til að fylgja öðrum brtt. eða flytja þær sjálfir.

Meginefni þess frv., sem hér er um að ræða, er að hvetja og styrkja sveitarfélögin og aðra aðila, sem þar geta komið til greina, til að byggja og koma upp dagvistunarheimilum af ýmsum tegundum. Við undirbúning þessa máls var gert ráð fyrir, að þar kæmu fyrst og fremst þrenns konar dagvistunarheimili til greina: 1) Dagheimili, sem væru ætluð börnum allt frá 3 mánaða aldri til skólaskyldualdurs, og að börnin væru þar a. m. k. 5 stundir á degi hverjum. 2)Leikskólar, sem væru fyrst og fremst ætlaðir börnum frá 2 ára aldri til skólaskyldualdurs og þá til nokkuð styttri dvalar á hverjum degi, eða 3–4 stundir. 3) Skóladagheimili, þar sem starfsemin væri með líku sniði og á dagheimilunum, en börnunum væri þar veitt hjálp við námið, ef ástæða þætti til, þannig að þau gætu sótt skólann frá skóladagheimilinu og dvalizt þar jafnan 5–6 klst. á degi hverjum.

Aðstoð ríkisins, sem er raunverulegt nýmæli í okkar kerfi, er samkv. frv. fólgin í því, að ríkinu er ætlað að greiða 50% af áætluðum stofnkostnaði, þegar um er að ræða dagheimili og skóladagheimili, en 25% af áætluðum stofnkostnaði, þegar um er að ræða leikskóla. Rétt er að undirstrika, að það eru ekki aðeins sveitarfélög, sem hugsanlega geta fengið slíkan styrk, heldur og aðrir aðilar, ef viðkomandi sveitarfélag mælir með því.

Annar megintilgangur frv. er sá, að ríkið eigi sinn þátt í því að lækka daggjöldin á heimilum af þessu tagi með því að taka þátt í rekstrarkostnaðinum. Er gert ráð fyrir því, að ríkið greiði til dagheimila og skóladagheimila allt að 30% af rekstrarkostnaði og til leikskóla allt að 20%. Jafnframt er gert ráð fyrir því, að þessu fylgi sú kvöð, að aðstandendum barna verði ekki gert að greiða meira en 30% af heildarrekstrarkostnaði dagheimilanna og skóladagheimilanna og ekki meira en 50% af rekstrarkostnaði leikskólanna. Þarna er að sjálfsögðu staðfest þátttaka ríkisins í rekstrarkostnaðinum og skylda heimilanna til að takmarka greiðslur aðstandenda barnanna við svo lágar prósentutölur.

Ég leyfi mér að vísa til ágætrar grg., sem fylgir þessu frv., um efni þess að öðru leyti og sé ekki ástæðu til að fara nánar út í þá sálma.

N. hefur sent ýmsum aðilum frv. til umsagnar, og skal þeirra getið hér.

Fóstrufélag Íslands hefur sent n. umsögn sína og gerir þar nokkrar athugasemdir, en mælir hins vegar eindregið með samþykkt frv. N. hefur haft þær aths., sem gerðar eru af hálfu Fóstrufélags Íslands, til athugunar.

Frv. var einnig sent Félagsmálaráði Reykjavíkurborgar. Þar komu fram öllu ákveðnari aths. en frá Fóstrufélaginu, en þar var bent á, að til greina kæmi, að þátttaka ríkisins í stofnkostnaði yrði verulega aukin frá því, sem frv. gerir ráð fyrir, en þátttaka ríkisins í rekstrarkostnaði félli algerlega niður. Sú till. var raunverulega byggð á því, að tekjustofnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga yrði senn breytt sveitarfélögunum meira í hag en áður var. En röksemdir fyrir þessu sjónarmiði voru þær, að þetta væri málefni sveitarfélaganna og væri óeðlilegt, að bæði ríki og sveitarfélög ættu hlut að rekstrarkostnaði.

Frv. var einnig sent Sambandi ísl. sveitarfélaga, og án þess að fara að rekja hér þá ítarlegu grg. og umsögn, sem barst frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, þá er óhætt að segja, að þar komu fram svipuð sjónarmið, þ. e. a. s., að það hefði verið stefnt að nánari verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og væri því óeðlilegt, að báðir þessir aðilar yrðu aðilar að rekstri þessara heimila. Væri því að mörgu leyti eðlilegra að skera þarna á milli, þannig að ríkið tæki hugsanlega meiri þátt í stofnkostnaðinum, en engan þátt í rekstrarkostnaðinum.

Aðrar umsagnir, sem bárust, voru frá Kvenfélagasambandi Íslands, Barnavinafélaginu Sumargjöf, og stjórn Kvenréttindafélags Íslands. Ég get leyft mér að segja, að allar þessar umsagnir voru eindregið jákvæðar um meginefni frv.

Eins og ég hef nú getið, voru helztu ágreiningsefni, sem fram komu í umsögnum um frv., einmitt þau, að það var sjónarmið ýmissa, að ríkið ætti ekki að taka þátt í rekstrarkostnaðinum. Ég get leyft mér að fullyrða, að einmitt þetta atriði hefur verið talsvert ítarlega rætt innan n., og því miður hefur ekki náðst samkomulag um þetta efni. Ein af þeim hugmyndum, sem þar komu fram, var sú, að gerð yrðu skýrari verkaskil milli ríkis og sveitarfélaga hvað þessi dagvistunarheimili snerti með því, að ríkið tæki aðeins að sér að greiða launakostnaðinn, en sveitarfélögin bæru ábyrgð á rekstrarkostnaðinum að öðru leyti, þannig að þessu yrði þá farið með líkum hætti og er um rekstur skóla. Þessi hugmynd var ítarlega skoðuð, en að athuguðu máli var ekki talið fært að fara þessa leið, enda hefði það óhjákvæmilega leitt til þess, að hlutur ríkisins hefði orðið enn hærri en frv. gerir ráð fyrir. Það var yfirleitt ekki skoðun manna, að það væri eðlilegt, að hluti ríkisins yrði meiri en hér er gert ráð fyrir.

Aðalsjónarmiðið, sem liggur til grundvallar því skipulagi, sem frv. gerir ráð fyrir, er, eins og ég rakti hér áðan, að verið er að fá ríkið til að stuðla að því, að aðstandendum barna sé ekki gerð, að greiða allt of stóran hluta af rekstrarkostnaði þessara heimila, þannig að sem allra flestir geti átt þess kost að njóta þessarar þjónustu. Þetta sjónarmið er á bak við þá afstöðu meiri hl. n. að láta þetta ákvæði standa óhreyft. Afgreiðsla n. var, eins og ég hef áður rakið, að mæla með samþykkt frv., þó með þeim fyrirvara, að einstakir nm. áskilji sér rétt til að fylgja eða flytja brtt.

N. í heild flytur nokkrar brtt. á þskj. 359, sem ég skal víkja hér lítillega að.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því, að 2. mgr. 3. gr. falli niður, og það er í tengslum við 4. lið brtt. n., ákvæði til bráðabirgða, þar sem gert er ráð fyrir því, að sú hugsun, sem fólgin var í 2. mgr. 3. gr., verði orðuð á nokkuð annan veg. Það er talið óeðlilegt, að það verði einfaldlega skipt þannig á milli, að þau dagheimili, sem væru fullbyggð, fengju engan stuðning frá ríkinu, en þau, sem kannske ættu eftir að ljúka 5–10% byggingar, gætu fengið styrk að fullu, þarna væri eðlilegt að hafa nokkurn tröppugang og ekki eins skörp skil og fælust raunverulega í þessu ákvæði, eins og það er í frv. Þess vegna er gert ráð fyrir að setja ákvæði til bráðabirgða, eins og hér segir, þannig að það yrði á valdi rn. að kveða á um, að hve miklu leyti byggingar, sem þegar eru hafnar, fengju styrk.

N, var einnig sammála um að breyta 17. gr. frv., þar sem minnzt er á fóstrunarstörf og fóstrunarmenntun, í samræmi við niðurstöðu þá, sem fékkst í atkvgr. hér í Ed. ekki alls fyrir löngu, þar sem d. felldi till., sem hljóðaði á þá leið, að skóli, sem á að annast menntun þeirra, sem þessum störfum gegna, yrði nefndur Fóstrunarskóli í frv. Till. kom fram um, að hann yrði annaðhvort nefndur Fóstraskóli eða Fóstrunarskóli, og báðar brtt. voru felldar. Við teljum því rétt, að Alþ. dragi þá rökréttu ályktun af þessu að samræma orðin, eins og þau birtast í þessu frv. En ég tek það fram, að þessi brtt. er af hálfu n. tekin til baka til 3. umr., þar sem okkur þykir rétt, að málið verði fullfrágengið í Nd., áður en þessi breyting er gerð.

Í þriðja lagi gerir n. í heild brtt. við 2. mgr. 18. gr., þar sem bætt er við setninguna, þar sem segir, að tengja skuli sálfræði- og ráðgjafaþjónustu við slíka þjónustu skólanna, að hún geti einnig tengzt slíkri þjónustu á vegum félagsmálastofnana, eftir því sem við á í hverju sveitarfélagi.

Fleiri brtt. flytur n. ekki í heild sinni.

Á þskj. 361 flytjum við Steingrímur Hermannsson tvær brtt., sem mér þykir rétt að gera hér grein fyrir í leiðinni.

Í fyrsta lagi er brtt. við 11. gr., þar sem segir:

„Sé fallizt á umsókn“ — um styrk frá rn. eða ríkinu — „gerir rn. grein fyrir væntanlegum till. sínum um fjárframlög vegna fjárlagagerðar á fyrirhuguðu framkvæmdartímabili.“ Án þess að skýra þetta miklu nánar, skal þess einungis getið, að við yfirlestur frv. fannst nm., að þessum orðum væri hér ofaukið, þau væru aðallega til þess fallin að rugla menn í ríminu og hefðu enga efnislega þýðingu og væri því eðlilegra, að þau féllu niður. Mér er næst að halda, að n. öll hafi verið þessarar skoðunar. En vegna þess að okkur láðist að taka sameiginlega afstöðu til þessa atriðis á nefndarfundi, taldi ég ekki rétt að hafa hana með í sameiginlegum till. n. Við flytjum þetta þess vegna á sérstöku þskj., þó að ég geri að vísu ráð fyrir, að allir nm. séu sammála um þessa niðurfellingu.

Í öðru lagi gerum við till. við 15. gr., að hún verði umorðuð og þá fyrst og fremst tvær síðustu mgr. gr., en þar er fjallað um, við hvað skuli miðað, þegar ríkisframlag er greitt. Í gr., eins og hún er í frv., er talað um, að ríkisframlagið skuli miðað við byggingarkostnað og verðlag á þeim tíma, sem áætlunin er gerð. Nú vita allir, að um langt skeið hefur verið í landi okkar ákaflega ör verðbólguþróun. Menn gera sér því grein fyrir því, að orðalag á þessari gr. er ekki fyllilega eðlilegt, miðað við það, að langur tími líði frá því, að áætlunin er gerð, og þar til verkið er framkvæmt. Því hefur í till. okkar verið hætt við gr., og hljóðar þá niðurlag hennar þannig:

„Í áætlun þessari skal miða við byggingarkostnað og verðlag á þeim tíma, sem áætlunin er gerð, og miðast ríkisframlag við áætlaða fjárhæð“ — og við höfum þá bætt við: „að viðbættri vísitölu byggingarkostnaðar á byggingartíma.“ Síðan er þarna aðeins hagræðingaratriði, sem enga efnislega þýðingu hefur, að 6. mgr. fellur niður.

Minni hl. n. hefur flutt brtt. á þskj. 364 og þskj. 370, en þessar brtt. fjalla allar um þau atriði, sem ég hef áður gert að umtalsefni, þ. e. a. s. þau miða að því að hækka hlutdeild ríkisins í stofnkostnaði, en fella niður hlutdeild ríkisins í rekstrarkostnaði, þó með nokkuð mismunandi hætti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þessar till. sem slíkar. Eins og ég gat hér um áðan, er auðvitað enginn vafi á því, að þessi tilhögun gæti vel komið til greina og er ekki í sjálfu sér neitt fráleit. Það varð samt niðurstaða meiri hl. n. að fallast ekki á þessar hugmyndir, heldur standa við frv. óbreytt, eins og það er. Ég skal fúslega viðurkenna, að bæði ég og margir aðrir getum fallizt á þá skoðun, að nú sem stendur sé brýnast að leggja höfuðáherzlu á, að sem flest dagvistunarheimili séu byggð. Að mörgu leyti væri æskilegt, að fjármagnið gæti gengið til þeirra nota. En við höfum rekið okkur á, að það er einnig mikil þörf á því að reyna að halda rekstrarkostnaðinum niðri, að sem allra flestir geti notið þessarar þjónustu. Nú síðustu dagana hef ég m. a. fengið upplýsingar um það, að ýmis starfsmannafélög og húsfélög, sem hafa á síðustu missirum sett í gang sameiginlega þjónustu af þessu tagi, hafa einmitt bundið ríkar vonir við, að frv. yrði að 1. í þeim búningi, sem það birtist hér í þinginu, og hafa miðað áætlanir sínar við það, að ríkið taki þátt í rekstri þessara nýju dagvistunarheimila, sem að sjálfsögðu eru að einhverju leyti bráðabirgðafyrirbæri, meðan svo erfitt er að koma börnum á dagvistunarheimili sem raun ber vitni hér í Reykjavík. Forsendur væru raunverulega brostnar fyrir því, að hægt væri að reka þessi heimili, ef rekstrarkostnaðarákvæðið væri fellt niður. Með hliðsjón af þessu og eins með hliðsjón af hinu, að ekki tókst að ná samkomulagi í n. um neina aðra skipan þessara mála, hefur það orðið niðurstaðan hjá okkur, sem skipum meiri hl. n., að halda þessum ákvæðum óbreyttum.

Ég held, að ég hafi ekki fleiri orð um þetta frv. Ég vil aðeins að lokum undirstrika það, að hér er tvímælalaust stórmerkilegt mál á ferðinni, enda eitt merkasta stefnuskráratriði í málefnasamningi núv. ríkisstj., sem þarna er verið að koma í framkvæmd, og vil ég eindregið skora á hv. þm. að veita þessu frv. brautargengi.