14.03.1973
Efri deild: 69. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2527 í B-deild Alþingistíðinda. (1931)

3. mál, bygging og rekstur dagvistunarheimila

Auður Auðuns:

Herra forseti. Ég hef eins og aðrir nm. í menntmn. mælt með samþykkt þessa frv. og áskilið mér rétt til að flytja brtt., auk þeirra till., sem ég stend að ásamt öðrum nm.

Ég hef svo flutt brtt. við frv. á þskj. 370, en áður en ég vík að þeim, vil ég segja hér nokkur orð almennt í sambandi við þetta mál.

Ég get tekið undir það, sem hér hefur komið fram áður við umr., að rekstur og bygging dagvistunarheimila er í rauninni dæmigert sveitarstjórnarverkefni, því að við vitum, að þarfir sveitarfélaganna fyrir þessar stofnanir eru svo gerólíkar. Í strjálbýli er vart um þörf á slíkum stofnunum að ræða, en í þéttbýlinu er aftur aðra sögu að segja. Og ég get líka tekið undir það, að þegar þátttaka ríkisins er talin eðlileg, a. m. k. í byggingarkostnaði eða stofnkostnaði, þá byggist sú afstaða mín að verulegu leyti einnig á því, að það er búið að þrengja svo að tekjumöguleikum sveitarfélaganna í tíð núv. hæstv. ríkisstj., að ef þau eiga að geta sinnt þessu verkefni af einhverjum myndarskap, þá neyðast þau til, satt að segja, að sækja á önnur mið til að fá til þess fjármuni og stuðning. Dagvistunarheimili eru, eins og við öll vitum, talin ómissandi í nútímaþjóðfélagi. Sífellt aukast kröfur um, að þessar stofnanir séu fyrir hendi, og þær kröfur haldast í hendur við aukna sókn kvenna út fyrir veggi heimilisins, út í atvinnulífið, og aukið þéttbyli. Alls staðar í okkar nágrannalöndum er sáran kvartað yfir skorti á þessum stofnunum, og þykir konum, að ekki sé nóg að gert. Fallegar tölur, sem standa í lögum, segja í rauninni ekki nema hálfan sannleikann í þessum efnum. Sannleikurinn er sá, að hemillinn á þetta er sá mikli kostnaður, sem þessum stofnunum er samfara, bæði stofnkostnaður og geysimikill rekstrarkostnaður, því að þegar rekstrarkostnaður á barn á dagheimili fer kannske hátt í 100 þús. kr., þá sjáum við, að það er ekkert smáverkefni að sjá öllum börnum fyrir vistun á slíkum stofuunum, — ja, ekki segi ég þó: öllum börnum, vegna þess að ekki mundu öll heimili óska þess að setja börn sín á dagheimili, en fjöldinn er vaxandi og það þýðir ekkert annað en horfast í augu við þróunina og reyna, eftir því sem viðráðanlegt og hyggilegt er talið, að koma til móts við kröfurnar, en á því verður einmitt kostnaðurinn áreiðanlega alltaf hemill.

Það eru orðin mikið breytt viðhorf til þessara stofnana frá því, sem áður var. Áður fyrr var af mörgum litið á þær með tortryggni. Nú má segja, að þær hafi almennt verið viðurkenndar, og örlar þó jafnvel á oftrú á þessar stofnanir, því að við skulum gera okkur ljóst, að þær koma aldrei í stað heimilis fyrir barnið. Í því sambandi er sjálfsagt rétt að gefa gaum að og hafa í huga þær niðurstöður, sem sálfræðingar hafa látið í ljós, einmitt varðandi tengsl barns við foreldri eða þann, sem gengur barni í móðurstað. Sú skoðun sálfræðinga, að það að rjúfa að verulegu leyti tengslin milli barns og foreldris eða þess, sem gengur barni í móður stað, fyrstu 2–3 aldursárin geti haft óbætanleg áhrif á sálarlíf og þroska barnsins um alla framtíð er margra ára gömul. Það er sjálfsagt misjafnt, hve mikið sérfræðingar leggja upp úr þessu, en almennt mun þetta vera viðurkennt. Það má draga úr hugsanlega neikvæðum áhrifum, eftir því sem tekst að gera stofnanir betur úr garði og gera þeim betur kleift að sinna uppeldis- og fóstrunarhlutverki því, sem þeim er ætlað, en það er eðlilegt, að samt setji að manni nokkurn ugg, þegar hugsað er til þess, hvað þeir vísu sérfræðingar segja. Í því sambandi kemur mér það í hug, að ég rakst nýlega á það í dönsku blaði, að sagt var frá bók eftir konu, sem er háskólalektor í því, sem Danir kalla Udviklingpsykologi, — ég veit satt að segja ekki, hvaða íslenzkt nafn væri yfir það, hvort hægt er að tala um sálarþroskafræði, — og hefur um áraraðir fengizt við rannsóknir á sálarlífi ungbarna. Ég man ekki, hvort ég nefndi nafnið, en þessi kona heitir Inge Bernth. Hún hefur nýlega gefið út bók, þar sem hún birtir niðurstöður sínar, og nefnist þessi bók Institutionsbörn og hjemmebörn, eða Stofnanabörn og heimilabörn. Þar skýrir hún frá niðurstöðum af rannsóknum sínum og samanburði á þroskaferli barna, sem hafa hlotið uppeldi á stofnunum að verulegu leyti, og hins vegar börnum, sem hafa dvalið alfarið á heimilunum. Þessi kona telur, að niðurstöður sínar bendi til þess, að barninu sé hagstæðast að alast upp á eigin heimili. Hún leggur á það áherzlu, að það sé skaðlegt að rjúfa tengsl við svona ungt barn, kannske frá morgni og þangað til seint að deginum. Það stangast á við það, sem margir foreldrar og margar konur — og reyndar ekki aðeins konur — hafa haldið fram, að það sé nóg, ef foreldrið eða foreldrar eða sá, sem gengur barni í móður stað, sé í samvistum við það í nokkrar klst. úr sólarhring.

Ég nefni þetta til þess að víkja aðeins að því, sem hafa ber í huga um hugsanlega vankanta á ofnotkun slíkra dagvistunarheimila. Hitt er annað mál, að við vitum, að ekki verður umflúið, að þau séu til staðar, og þau í mörgum tilfellum alger nauðsyn. Í sambandi við rannsóknir þessarar dönsku konu kemur mér það í hug, að dönsk þingkona, fyrrv. þm. Vinstri flokksins danska, sem heitir Merete Björn-Hansen, sem hefur lagt til, að mikill hluti af fjölskyldubótunum, eða „börnebidrag“, sem Danir kalla, og getur einnig tekið til meðlags, sé greiddur fyrstu aldursár barnsins til þess að gera móðurinni fjárhagslega kleift að vera heima og annast barn sitt fyrstu aldursár þess.

Ég skal nú ekki fara lengra út í þá sálma, vangaveltur um hugsanleg neikvæð áhrif á þroska barnsins og þroskaferil með stofnanauppeldi, en sný mér aftur að sjálfu frv. Hv. formaður menntmn. og frsm. drap lauslega á þær umsagnir, sem hafa borizt menntmn. um frv., sem var sent ýmsum aðilum, og fór þar fljótt yfir sögu. Ég ætla að leyfa mér að kynna hv. þdm. dálítið ítarlega það, sem í þessum umsögnum fólst.

Þá vil ég fyrst nefna til umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga, þar sem minnzt er á verkefnaskiptingu sveitarfélaganna og ríkisins. Þeir segja orðrétt í umsögn sinni, með leyfi hæstv. forseta, m. a. svo: „Svo sem nánar er frá greint í téðu riti,“ — þ. e. a. s. grg. um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, sem áður er minnzt á í umsögninni,“ — var talið óumflýjanlegt, að nokkrir málaflokkar yrðu áfram sameiginleg verkefni ríkis og sveitarfélaganna, m. a. skólar á skyldunámsstigi og hafnamál. Talið var eðlilegt, að ríkisvaldið eitt hefði með höndum ýmis verkefni, sem varða alla landsmenn nokkurn veginn jafnt og ekki kölluðu á staðarþekkingu eða bein náin tengsl við borgarana. Með sama hætti var talið eðlilegt, að sveitarfélögin ein hefðu með höndum verkefni, sem væru mismunandi í hinum ýmsu sveitarfélögum, verkefni, sem væru staðbundin, og verkefni, þar sem bein náin tengsl við borgarana væru nauðsynleg og eðlileg. Meðal slíkra verkefna voru talin ýmiss konar félagsmál, svo sem umönnun borgaranna á öllum aldri, barnaverndarmál, dagvistunarstofnanir, æskulýðsstarfsemi, heimilishjálp og umönnun fyrir aldraða, þ. á m. bygging og rekstur elliheimila, félagsstarfsemi fyrir aldraða og heimilishjálp fyrir aldraða: Síðan segja þeir, að stjórnin sé mótfallin þeirri meginstefnu, sem fram komi í framangreindu frv., þ. e. a. s. að bygging og rekstur þessara stofnana verði sameiginlegt verkefni ríkis og sveitarfélaganna, og telur sveitarstjórnarsambandið ýmis vandkvæði á slíkri skipan og að frv., eins og það liggur fyrir muni stofna til óþarflega flókinna samskipta ríkis og sveitarfél. En meðan tekjustofnaskipting ríkis og sveitarfélaga sé ekki komin í viðeigandi horf að dómi sambandsins, telur stjórnin þó rétt, að ríkið taki verulegan þátt í stofnkostnaði þessara stofnana, — stofnkostnaði, segja þeir, — aukinn frá því, sem frv. gerir ráð fyrir, en telur, að þátttaka ríkisins í rekstrarkostnaði horfi til aukinnar skriffinnsku og með henni sé hætta á, að stofnað verði til ágreinings milli ríkis og sveitarfélaga í sambandi við uppgjör. Síðan vill sveitarstjórnasambandið láta taka frv. allt til endurskoðunar í samræmi við þau sjónarmið, sem það hefur sett fram.

Þá vil ég leyfa mér að lesa úr umsögn félagsmálaráðs Reykjavíkurborgar. Undir félagmálaráð falla dagvistunarstofnanir, og eins og eðlilegt er og allir vita, er Reykjavíkurborg langöflugasti aðilinn á þessu sviði og með langsamlega mest umsvif og meiri en allt landið samanlagt utan borgarinnar. Þetta ráð hefur því mjög góða yfirsýn yfir þessi málefni, bæði rekstur og eins framkvæmdir. Í umsögn félagsmálaráðs segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ráðið hefur haft tækifæri til að kynna sér umsögn stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga um frv. og hefur í meginatriðum sömu skoðun um þá verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, sem þar er gerð grein fyrir. Þá telur félagsmálar., að ákvæði 15. gr. frv. séu til þess fallin að draga fremur úr en stuðla að byggingu þessara mjög svo nauðsynlegu stofnana, og bendir á, að ríkisframlag samkv. gr. á að miða við áætlun, sem gerð er áður en framkvæmdir hefjast, en á að greiðast á 4 árum, en slíkt verður að teljast mjög óhagstætt fyrir þá, sem dagvistunarstofnanir reisa. Að óbreyttum reglum um tekjustofnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga telur ráðið þó óhjákvæmilegt, að ríkið taki þátt í raunverulegum stofnkostnaði dagvistunarstofnana, þar sem einstök sveitarfélög hafa ekki bolmagn til að mæta síaukinni þörf fyrir dagvistunarstofnanir. Í því sambandi kæmi til greina, að þátttaka ríkisins í stofnkostnaði verði verulega aukin frá því, sem frv. gerir ráð fyrir, en þátttaka ríkisins í rekstrarkostnaði falli niður:

Í framhaldi af þessu hafa komið fram brtt. við frv., sem miða mjög í rétta átt, að því er snertir að auka þátttöku ríkisins í stofnkostnaðinum. Þær ganga að vísu misjafnlega langt.

Ég er flm. að einni þeirra brtt. og skal víkja að henni síðar. Það kemur fram í umsögnum, m. a. frá sveitarstjórnasambandinu, að bent er á þá leið að auka stofnkostnaðarframlagið, en fella þá niður rekstrarframlag ríkisins.

Varðandi rekstrarframlagið getur verið fróðlegt að athuga, hve örar breytingar verða og hve allt færist í hækkunarátt. Ég vil þá fyrst víkja að því, að á bls. 12 í grg. með frv. er sagt og reyndar víðar í grg., að í Reykjavík séu — og er þá miðað við 1970 — 580 börn á dagheimilum, en 1175 á leikskólum. Þróunin hefur verið það ör í þessum efnum, að í grg. með fjárhagsáætlun fyrir Reykjavíkurborg fyrir 1973, þ. e. fyrir yfirstandandi ár, er reiknað með dagheimilaplássum fyrir 737 börn. Það er sem sé töluvert mikið á annað hundrað börn, sem fjölgað hefur á þessum stofnunum. Og í leikskólunum, þar sem voru 1175 börn 1970, er reiknað með 1424 börnum á árinu 1973. Að vísu er eitt dagheimili, sem tekur ekki til starfa fyrr en væntanlega í maímánuði, og leikskóli, sem tekur ekki til starfa strax, ekki í byrjun árs. En þetta sýnir, hvert þróunin stefnir, og sýnir, hve útgjöldin aukast geysilega. Í þessari grg. með frv. að fjárhagsáætlun fyrir Reykjavíkurborg er rekstraráætlun dagheimilanna í borginni, og hún er að sjálfsögðu gerð í samráði við Sumargjöf, en Barnavinafélagið Sumargjöf sér um rekstur þessara heimila. Þar er áætlað, að rekstrarkostnaður dagheimila verði 68 millj. 526 þús. kr. og leikskóla 37 millj. 150 þús. Þetta er hvorki meira né minna en nærri 106 millj. kr. Ég hef ekki neinar tæmandi upplýsingar um rekstur þessara stofnana utan Reykjavíkur. Þó eru talin upp nokkur heimili á bls. 12 í aths. við frv. Að vísu eru það allt gamlar tölur eða frá árinu 1970, en búast má við, að börnum á stofnunum í þessum sveitarfélögum hafi einnig fjölgað. Í aths. eru dagheimilin utan Reykjavíkur talin tæpur hálfdrættingur við Reykjavík, að plássafjölda. Þótt við segðum, að plássafjöldi væri ekki nema 40% á móti Reykjavík og rekstrarkostnaður sambærilegur, þá væri þetta komið upp í 150 millj. fyrir landið, þ. e. 45 millj, kr. í rekstrarframlag samkv. 6. gr. þessa frv., ef það verður samþ. óbreytt. Út af því, að hv. frsm. n. minntist á, að rætt hefði verið í n., að ríkið borgaði launakostnað á þessum heimilum, þá hefði það orðið ljóta útkoman, því, að launakostnaðurinn á dagheimilunum er 76% af öllum rekstrarkostnaðinum og yfir 80% af leikskólunum. Ég held, að það sé alveg borin von að halda, að hægt sé að þrýsta þessum kostnaði mikið niður. Launakostnaður er langstærsti pósturinn þarna, og ég á eftir að sjá, að hægt verði að þrýsta niður launum starfsfólks eða þá fjölga börnum í deildum umfram þær reglur, sem almennt eru látnar gilda og talið, að gilda þurfi um fjölda barna í umsjá hverrar fóstru.

Ég skal þá ekki víkja frekar að kostnaðarmálunum, en það er eins gott að gera sér grein fyrir, að kostnaðurinn er geysilegur af þessum stofnunum og þess vegna er kannske erfitt fyrir dreifbýlisþm., sem vita, að þeirra umbjóðendur munu að ákaflega takmörkuðu leyti njóta góðs af þessu frv., ef að lögum verður, að kyngja þessum geysilega háu tölum. Þó verður að vona, að a. m. k. stofnkostnaðarframlög fái byr almennt hjá þm. Ég skal þá, enda orðin nokkuð langorð, reyna að stytta mál mitt og víkja að brtt., sem ég flyt á þskj. 370.

1. brtt. er um hækkun á styrk til byggingar leikskóla, að í stað þess, að hann er í frv. áætlaður 25%, verði hann áætlaður 50% og þá 50% áætlaðs stofnkostnaðar fullbúins húsnæðis. Í frv. er ekki talað um fullkomið húsnæði og þá líklegt átt við bygginguna uppkomna, áður en hún er búin húsgögnum.

Þá flyt ég þá brtt. við 9. gr., að sú gr. falli niður. Ég er andvíg því, að það sé loku skotið fyrir það, að foreldrar greiði meira en 30% af þessum mikla kostnaði fyrir að koma börnum sínum á dagheimili. Það er nú í dag þannig áreiðanlega annars staðar á landinu eins og hér í Reykjavík, að meðan ekki er hægt að anna eftirspurninni, verða að hafa forgang þeir foreldrar, — það eru þá aðallega mæður, sem eru einar að baslast með sín börn, — sem geta ekki stundað vinnu sína nema eiga kost á því að koma barninu í gæzlu að deginum. Þetta er yfirleitt fólk, sem hefur ekki mikil fjárráð. Enda er það svo, að Reykjavíkurborg greiðir mjög mikinn hluta af rekstrarkostnaði þessara stofnana. Árið 1971 borgaði borgarsjóður 58%, foreldrar 42% af rekstrarkostnaði dagheimilanna, en af rekstrarkostnaði leikskóla borgaði borgarsjóður 31% og foreldrar 69%. Þá segir einnig í 9. gr. frv., að foreldrar eða aðstandendur greiði ekki meira en 50% af rekstrarkostnaði leikskóla. Ég get ekki heldur fellt mig við þetta. Mér finnst, að möguleiki eigi að vera á því, að fólk, sem á kost á, að barnanna sé gætt, og losnar þannig við þann kostnað, sem það ella hefði, ef það fengi t. d. ungling til að gæta barnsins, borgi meira en helminginn af rekstrarkostnaði, en börnin dvelja ekki í leikskólum nema annaðhvort fyrir hádegi eða eftir hádegi. Ég tel, að þrátt fyrir það, sem tíðkast í okkar nágrannalöndum og ég er ekkert ginnkeypt fyrir því öllu saman, eigi þessi gr. ekki að standa í lögum. Þróunin gengur í þá átt, hvort sem mönnum líkar betur eða verr, að konan sæki af heimilinu út í atvinnulífið og þá kemur auðvitað upp vandamálið með börnin. Ég er ekki á því, að það eigi endilega að ýta undir þessa þróun með því að bjóða stofnanauppeldi á stórkostlega niðurgreiddu verði. Við eigum að hjálpa þeim, sem verður verulega tilfinnanlegt fyrir fjárhagslega að borga fyrir börn sín á slíkum stofnunum og eru tilneyddir að hafa þau þar, en hitt á að mínu viti ekki að gera. Það má vel vera, að þar ráði nokkru um það, sem ég áður vék að, að ég er óneitanlega dálítið uggandi út af því, sem sérfræðingarnir, sálfræðingarnir, segja um hugsanleg áhrif þessa stofnanauppeldis á börnin.

Þá er næsta brtt. mín, sú 3., við 14. gr. og er nokkuð tengd brtt. minni við 15. gr. Breytingin, sem í þessari till. minni felst, er fyrst og fremst sú, að þar sem í frv. stendur í niðurlagi 14. gr., að rn. heimili, „að hafin verði tæknilegur undirbúningur“, þá legg ég til, að rn. heimili, að framkvæmdir verði hafnar. Þá er 2. mgr. í minni brtt., hún er tekin út úr 15. gr., eins og hún er í frv., því að ég legg til, að sú gr. orðist um. Brtt. mín við 15. gr. felur í sér þá breytingu frá því, sem í frv. er, að þegar rn. hefur séð um samningsgerð og heimilað, að framkvæmdir verði hafnar, þá þurfi ekki að bíða líka eftir fjárveitingu, en hins vegar sé ríkið ekki skylt til þess að greiða það, sem því ber að greiða í stofnkostnaðinum, fyrr en á 4 næstu árum eftir að fyrsta fjárveiting er samþykkt. Ég verð að segja, að þetta er líka nokkuð tengt ákvæðum frv. um reksturinn, sem ég hef tilhneigingu til, að sé dregið úr eða honum fórnað á kostnað aukins styrks í stofnkostnaði. Ef á að borga rekstrarkostnað, sem lauslega áætlað gæti orðið milli 40 og 50 millj. kr. á ári og á að koma strax, er ég hrædd um, að Alþ verði kannske ekki allt of fúst til þess að samþ. jafnframt háa styrki til byggingarframkvæmda. Ég er alveg sannfærð um það, að styrkur til byggingarframkvæmda mun gjalda rekstrarstyrks, sem bersýnilega mun verða 40–50 millj. kr. á ári. Ég hef að vísu ekki flutt brtt. um að fella alveg niður III. kaflann, kaflann um rekstrarstyrkina, nema 9. gr. En ég verð að segja samt, að ég hef mikla tilhneigingu til þess að hallast að þeirri brtt., sem fram er komin og gengur í þá átt.

Um brtt. við 15, gr. að öðru leyti þarf ég ekki að fara fleiri orðum. Ég ætla, að hún skýri sig sjálf. Og eins og ég áðan sagði, eru komnar fram úr þrem áttum brtt., sem allar horfa til bóta á 15. gr., þó að ég telji, að brtt. mín, sem óneitanlega gengur lengst, muni verða til þess að greiða mest fyrir framkvæmdum. Eins og kom hér fram við fyrri umr., munu þær hömlur, sem í frv. eru settar á það, að hefja megi framkvæmdir án þess þó að brjóta af sér allan rétt til þess að fá byggingarstyrki, fyrirsjáanlega draga úr framkvæmdum, sem við öll viðurkennum sjálfsagðar og eru mjög aðkallandi í þéttbýlinu.