14.03.1973
Neðri deild: 64. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2537 í B-deild Alþingistíðinda. (1944)

25. mál, dvalarheimili aldraðra

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. þm. Sverri Hermannssyni nú við 3. umr. að flytja nokkrar brtt. við þetta frv. Þannig stóð á, að þegar frv. var til 1. umr., var ég við störf í opinberri þágu erlendis og síðan veðurtepptur úti á landi ásamt meðflm. mínum, þegar 2. umr. var hér í d., þannig að ég vil nú bæði þakka hæstv. ráðh. og meðdm. mínum fyrir þá biðlund, sem þeir hafa haft með, að lokameðferð málsins í d. væri frestað að okkar ósk.

Ég tel ekki ástæðu til að ræða málið efnislega á þessu stigi, nema það komi fram í sambandi við brtt. mínar. Ykkur er öllum kunnugt um, að málið á langan aðdraganda. Það var sýnt alþm. á síðasta þingi, lagt þá fram og rætt nokkuð og svo aftur í byrjun þings, og í millitíðinni höfðu fjölmargir aðilar fengið frv. til umsagnar. Mér er tjáð, að mjög margir aðilar hafi sent inn umsagnir sínar um frv. og tjáð sig um það, einnig hafi margir aðilar, þ. á m. þeir, sem hafa kannske hvað mest afskipti haft af þessum málum hér á landi um síðustu áratugi bent á ýmsar breytingar, sem þeir töldu, að væru til bóta fyrir frv. Hins vegar hefur engin þeirra verið tekin til greina í meðferð n., og þess vegna höfum við meðflm. minn viljað freista þess nú við 3. umr. að benda á nokkrar þeirra, ef vera mætti, að dm. hugsuðu öðruvísi en hæstv. ráðh. og hv. n., sem með málið hafði að gera.

1. brtt. okkar er við 2. gr. frv., á þá leið að fella niður úr 2. gr., eins og þar stendur nú, að ekki sé heimilt að gera breytingar á húsakynnum og starfsemi slíkra stofnana, á þann veg, að slíkt bann gildi aðeins fyrir þær byggingar, sem styrktar hafa verið úr ríkissjóði. Ég fæ ekki séð, að það þurfi endilega að fá ráðherraleyfi til breytinga á húseignum þeim, sem eru fyrir hér á landinu og eru annaðhvort í einkaeign, í eign sjálfseignarstofnana eða í eign opinberra aðila eins og sveitarstjórna, ef ekki koma t. d. fram jafnframt kröfur um breytingar á daggjaldi. Mér finnst hér vera um óþarfa skriffinnsku að ræða, og við leggjum því til, að þessi breyting verði gerð, enda eru margs konar önnur ákvæði í frv., sem hafa algeran hemil á öllum afleiðingum, sem gætu fylgt slíkum breytingum.

Við 3. gr. leggjum við til, að það verði gerð nokkur breyting á 2. málsl. 1. mgr. og hann orðist eins og segir í okkar brtt. Persónulega tel ég, að ákvæðið í frv. sé óraunhæft með öllu. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir því, sem þarna er ætlazt til, t. d. á löngum byggingartíma, á löngum undirbúningstíma, þá er ekki hægt að gera grein fyrir fjárhagsástæðum eða gera fullkomna starfsáætlun, um stjórn, starfsfólk og rekstrarfyrirkomulag. Virðist vera nokkuð vel í tímann lagt að ætla sér að gera þetta. Ég tel hins vegar, að sú hugsun, sem þarna komi fram, sé fyllilega réttmæt, að aðilar, sem hyggjast hefja slíkan rekstur, verði að gera ítarlega grein fyrir fjárhagsástæðum og auðvitað um leið skýrslu um stjórn þá, sem við völd er, þegar bygging er hafin, hverjir fari með stjórn byggingarinnar, og þá væntanlega áætlun um starfið sjálft. Ég held, að það sé ekki hægt að ganga lengra í þessu. Hitt gæti skapað allt of mikla skriffinnsku og tog milli aðila. En ég er fyllilega samþykkur meginhugsun þessarar gr., að áhugasömum bjartsýnismönnum, sem fara út í slíkar byggingar, sem í dag eru mjög dýrar, verði gert skylt, þegar þeir óska eftir slíkum styrk sem frv. gerir ráð fyrir, að skila mjög ítarlegum áætlunum. Það má líka við þetta bæta, að það eru opinberir aðilar, sem mest áhrif hafa á rekstrargrundvöll slíkra heimila og allra annarra heilbrigðisstofnana. T. d. má geta ákvörðunar pólitískra aðila, Alþ. t. d., um stórstyttingu á vinnutíma og stórhækkuð laun og samningsákvæða annarra aðila en ráða slíkum stofnunum um 5 daga vinnuviku. Þetta þýðir stórbreytingu fjárhagslega fyrir öll slík heimili, þannig að segja má, að það séu þessir aðilar, sem helzt geta sagt um, hvernig hagur heimilanna verði, eftir að þau eru komin í starf.

Við 4. gr. gerum við þá till., að gr. orðist eins og þar segir. Tel ég þar nógu langt gengið, því að satt að segja skil ég ekki, hvað við er átt í 4. gr. frv., eins og það er, að heilbrigðisyfirvöld skuli ætíð eiga greiðan aðgang að stofnunum. Ég veit ekki, hvort það á að vera þannig, að þau komi að nóttu eða degi, kanni, hvort starfsmenn séu til staðar, hvort skrifstofufólk sé við vinnu, eða þau geti kallað út starfsfólk stofnana, sem eru að reyna í sparnaðarskyni að halda sér frá aukinni yfirvinnu. Á að vera hægt að vekja þetta fólk upp um miðja nótt og krefjast þess, að það komi og opni allar hirzlur og annað? Ég held, að þetta sé heldur langt gengið. Hins vegar þurfa þessir aðilar af ýmsum orsökum að eiga ætíð greiðan aðgang að reikningum viðkomandi stofnana og svo öllum upplýsingum frá stjórnendum þeirra. Það verður auðvitað að vera þarna ekki aðeins einhliða ákvörðun, heldur tvíhliða á milli þessara aðila, því að alla vega er þó ekki ætlazt til, að ríkið leggi nema 1/3 af kostnaði til þessara bygginga, en hins vegar aðrir aðilar það, sem á vantar.

Við 5. gr. leggjum við til, að felldur verði niður síðasti málsl.: „svo og um starfslið dvalarheimilis.“ Á það var bent í einni umsögn, sem n. barst, að samkvæmt því, sem á undan kæmi, svo og ákvörðun daggjaldanefndar og annarra yfirvalda, sem hafa með hina opinberu hlið slíks rekstrar að gera, væri að mestu leyti ákvarðað um fjölda vistmanna, þannig, eins og er um fleiri greinar, að ég skil ekki hugsunina, sem á bak við þetta er hjá flm., enda kemur engin skýring þar um fram í frv. Það er sagt, að það þurfi ekki skýringa með. Ég get hins vegar fyllilega fallizt á, að það þurfi að koma fram í reglugerð, eins og það gerir og ákveðið er í frv. sjálfu og reyndar þegar tiltekið í reglugerð, að það eigi að veita ákveðna þjónustu. Það ákvæði eitt ákvarðar auðvitað, hvað þurfi af starfsliði. En ég fæ ekki skilið, að það sé endilega meinað stjórnendum á slíku heimili, sem vilja reyna að spara, t. d. með ýmsum hagræðingarákvörðunum, auka framleiðni stofnunarinnar, auka vélbúnað, svo að hægt verði að fækka starfsliði, þá þurfi einhver reglugerð frá ráðh. að kveða á um, að fólkið eigi að vera fleira. Þetta rek ég helzt hornin í. Ég þykist hins vegar skilja, að með þessu eigi hæstv. ráðh. við, að þarna eigi að koma fram fyrst og fremst skilyrðislausar kröfur um ákveðna þjónustu og starfsfólk til þess að veita þá þjónustu. Ég held hins vegar, að bæði aðrar gr. og orðalag í þessari gr. nái fullkomlega því marki, sem að er stefnt. En ég held, að til þess að fyrirbyggja misskilning, sem gæti orðið, eins og ég hef bent á í orðum mínum varðandi þessa gr., þá ætti að breyta gr. og fella niður síðasta málsl.

Við 6. gr. leggjum við til nokkrar breytingar. Við leggjum til, að á eftir orðunum „fundum stjórnarinnar“ í 2. málsl. bætist: þegar rædd eru mál, sem varða vistfólkið sérstaklega“. Enn fremur, að á eftir þessum málsl. komi nýr málsl., sem orðist svo: „Sama gildir um starfsfólk stofnunar, ef ekki er til staðar samningur um samstarfsnefnd.“ Þarna þekki ég til af langri reynslu við stjórnun slíkrar stofnunar, að það getur t. d. verið ákaflega erfitt að hafa það skilyrðislaust í lagaákvæðum, að gamla fólkið eigi fulltrúa í stjórn, og ég bendi á það eitt sem dæmi, ef fyrir þarf að taka í stjórn t. d. agaspursmál, sem oft koma upp á slíkum stofnunum, þá getur verið ákaflega erfitt að hafa fulltrúa frá þeim hinum sama, sem getur skaðað viðkomandi einstakling kannske meira með orðum sínum. Í þessu eru ekki nein ákvæði um skilyrðislausa þagnarskyldu, eins og sjálfsagt væri, um það, sem fram fer, né heldur hægt kannske að krefjast þess. Þetta er eitt dæmi, sem ég bendi á, og ég gæti bent á fleiri, en ég tel þetta nægja. Auk þess tel ég vegna þess mikla tals, sem hefur farið fram í sölum hv. Alþ. og margir menn haft orð á um langa hríð, að það væri auðvitað sjálfsagt að gera þarna þá till. og samþykkja hana að þegar það á við, eigi starfsfólkið sinn fulltrúa í stjórn. Í slíkum stofnunum verður það æ meira tíðkað, að þær komi á móti sínu starfsfólki utan samninga með ýmiss konar fyrirgreiðslu, jafnvel komi á móti félögum þeirra með byggingu orlofshúsa og sitthvað fl., auk þess sem oft þarf að ræða sérstaklega um ákveðin vandamál innan viðkomandi stofnunar, þar sem kannske er ekki rétt að blanda stéttarfélaginu í, en viðkomandi aðilar, fulltrúar þeirra, sem vinna á staðnum, gætu komið þar fyrir þeirra hönd á þessum vinnustað, þannig að ég tel sjálfsagt, að ákvæði um þetta sé sett í lögin.

Við gerum þá brtt. einnig, að í stað 3. og síðasta málsl. komi, að stjórnin ráði stjórnendur heimilisins, eins og þar segir. Það má kannske segja, að það sé að bera í bakkafullan lækinn að taka fram „forstöðumann eða konu“, því að konan er manneskja eins og hinn aðilinn. En við vildum láta koma rækilega fram, að auðvitað eru konur sízt óframbærilegri til slíkra starfa heldur en karlmenn, og kannske er ágætt, að það komi skýrt fram. En ég er ekki á því, að ef um hreint vistheimili sé að ræða, þá eigi að vera skilyrðislaus skylda að hafa fastráðinn lækni. Það getur komið upp og hefur þegar komið upp og hefur sýnt sig á slíkum heimilum, að þess á ekki að þurfa. Það getur verið margvíslegur og mikill sparnaður fyrir stofnunina, ef læknisþjónustan verður að hætti heimila, einstaklinga eða fjölskyldna, á þann veg þó, að það séu alltaf bæði heimilislæknar og sérfræðingar til staðar til þess að koma, þegar kallað er eftir, auk fastra viðtalstíma á staðnum. En ég held, að hæstv. heilbrmrh. geri sér kannske fyrst og fremst grein fyrir því og kannske fyrrv. heilbrmrh. líka, að þetta er ekki orðinn mjög ódýr liður í landi voru. Ég held, að það þurfi líka að hafa nokkuð í huga, um leið og kannske er verið að gera gamla fólkinu í landi okkar gyllivonir um einhverjar kóngaíbúðir í framtíðinni, þá verði líka nokkuð að taka til greina, hvernig er hægt að reka slík heimili fjárhagslega.

Við 8. gr. gerum við till. um nokkra breytingu. Við gerum þá till., að sjúkragjöld, sem greidd eru af Tryggingastofnun ríkisins, greiðist fjórum sinnum á ári. Það er ákaflega erfitt eins og er fyrir stórar stofnanir að fá þetta aðeins tvisvar á ári, ég tala nú ekki um, þegar dýrtíð fer mjög vaxandi, þá getur þetta komið sér mjög illa, og þegar almennur lánsfjárskortur er samhliða, þannig að ég held, að þetta sé atriði, sem verði að telja sjálfsagt að samþykkja. Við leggjum einnig til, að ársreikningar, — það er ekki ákvæði um það í frv., — að ársreikningar slíkra dvalarheimila verði endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda og ætið sendir rn.

Ég hef aðeins hlaupið yfir. Við skulum halda okkur við 7. gr., en þar er meginbrtt., sem við leggjum til, og hún er sú, að þessi skilyrðislausi styrkur verði ekki eingöngu bundinn við sveitarfélag, heldur einnig við viðurkennda aðila. Persónulega hef ég þá í huga aðila, sem hafa sýnt þessum málum áhuga og gjarnan vildu koma til starfs til að hjálpa til í þeirri miklu þörf, sem er á þessu sviði. Ég á þar t. d. við verkalýðshreyfinguna í heild, Alþýðusambandið, þjóðkirkjuna íslenzku. Rauði kross Íslands hefur sagzt vilja styrkja slíkt málefni. Stéttarsamband bænda hefur byggt stórt hótel hér í Reykjavík. Það hefði kannske verið hugsanlegt, að næst mundi það byggja dvalarheimili fyrir aldraða bændur. Þannig mætti lengi telja. En ég tel ekki, að það eigi að vera undir ráðh. komið, hvort þessir aðilar, sem hljóta strax, þegar nöfnin eru nefnd, að teljast viðurkenndir aðilar í þessu þjóðfélagi, eigi að fá þetta, heldur eigi þeir að fá þetta ekki síður en sveitarfélögin. En eins og annars staðar segir, þá verður auðvitað að hafa fulla gát á, hvernig í þetta er farið, og það verður — og það tek ég fullkomlega undir — að vera á valdi ráðh. og um leið fjvn. Alþ., hvað hratt í þetta er farið og hvernig að þessu eigi að standa. Það er auðvitað fjárhagur ríkissjóðs, sem þar segir til um.

Í samræmi við þetta leggjum við til, að í 2. málsl. falli niður orðin „en sveitarfélög“. En við leggjum einnig til, að við gr. bætist liður þess efnis, að frágangur lóðar, girðingar og skreytingar listaverka á lóð og húsakynnum teljist til byggingarkostnaðar, þannig að ríkið yrði samkv. þessu að styðja það að 1/3 og þó með hliðsjón af því, sem hér segir, að síðast nefnda framkvæmdin, þessi sem sagt, skuli þó háð sérstöku samþykki rn. Þetta er orðið viðurkennt í sambandi við opinberar byggingar, að það skuli tekið tillit til slíkra skreytinga, skreytinga listaverka. Þarna er nokkuð lengra gengið, enda má segja, að það sé ekki hægt að telja slíkt heimili fullbyggt, fyrr en frá lóð er gengið. Þá leggjum við einnig til, að það sé tekið skýrt fram, hvenær þessi ríkisframlög skuli greidd. Ef ráðh., sem situr í sæti sem pólitískur fulltrúi síns flokks eða sinna stuðningsflokka, ákveður og gefur leyfi til slíkrar byggingar, þá teljum við, að í lögum þurfi að vera ákvæði um það, að við ákveðið byggingarstig verði þessi styrkur greiddur. Við teljum, að með þessu t. d. verði dregið úr ofurkappi sýndarmennsku og annars slíks, sem við teljum ekki eiga heima í sambandi við þessi mál, og er ég þó ekkert að væna hæstv. ráðh. um það, hann hefur sýnt þessu máli verðugan áhuga, gert sitt til þess, að það næði fram. En ég held, að í framtíðinni og strax þurfi slík ákvæði að vera fyrir hendi, þannig að fjárveitingarvaldið og viðkomandi ríkisstj. og ráðh. hafi fulla gát á, þegar áætlun er gerð um, hvaða framkvæmdir eigi að taka fyrir. Ég er ekki frá því, að það mætti breyta orðalagi í þessum síðasta lið þessarar tillgr. okkar, hvort sem það yrði gert hér, eða ef það verður fellt, þá kannske verður það tekið upp í Ed., þar sem það fer til n., og mætti lagfæra það, en ég held, að mjög nauðsynlegt sé að hafa ákvæði þessa efnis í sambandi við þessa grein.

Ég var búinn að ræða um brtt. við 8. gr. um að greiða vistgjöldin fjórum sinnum á ári, og einnig er það um 8. gr., að í henni segir nú í frv.: „Ársreikningar dvalarheimila skulu ætíð sendir rn.“ En við viljum orða það þannig, að þeir séu „endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda og ætíð sendir rn.“, sem sé komi þarna inn ákvæði um löggilta endurskoðendur.

Við 9. gr., það virðist kannske ekki mikil breyting, en við leggjum til, að þar bætist við: „eða inntökunefndar“. Við gerum þetta af því sérstaka tilefni, að það geta verið margir aðilar, sem standa að stjórnun slíks beinlínis. Það geta staðið að því mörg sveitarfélög og margir aðrir aðilar, og þá þurfa þeir að koma sínum sjónarmiðum að. En þetta hefur ekkert að segja, ef okkur tekst að byggja það hratt, að við komumst nokkuð fyrir þá miklu þörf, sem nú ríkir í þessum málum hjá okkur. En ef hins vegar svo verður ekki á næstu árum, þá tel ég rétt að hafa skýr ákvæði í lögum, til þess að það sé þá ekki einhliða ákvörðun þeirra, sem sitja í æðstu stjórn heldur komist að fleiri sjónarmið, ef á þarf að halda, og er þetta að fenginni reynzlu.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta á þessu stigi. Eins og ég tók fram áðan og hef reyndar áður gert í umsögn, sem send var frá samtökum, sem ég á sæti í, þá fögnum við, að þetta frv. skyldi koma fram, töldum það tímabært. Ég hef nokkuð lesið þær umr., sem fram fóru við 1. umr. málsins, og tel að sumt af því, sem þar var sagt, hefði betur mátt kyrrt liggja, ekki aðeins hjá óbreyttum dátum, hv. þm., heldur og hjá hæstv. ráðh. Ég vil hins vegar láta það koma hér fram. að ég fagna því mjög, að þetta frv. er komið fram og að lög verði sett um þetta. Þótt ekki hafi tekizt að ákvarða ákveðna fjárveitingu nú þegar á þessu ári, þá veit ég hins vegar, að það er mikill meiri hl. fyrir því hér á hv. Alþ., að það verði gert við afgreiðslu næstu fjárlaga.