15.03.1973
Sameinað þing: 59. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2551 í B-deild Alþingistíðinda. (1954)

126. mál, endurskoðun fræðslulaga

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Till. þessi á þskj. 180 um framkvæmd og endurskoðun fræðslulaga var flutt hinn 15. des. s. l. 1. flm. till., Halldór Blöndal kennari, sat þá á Alþ., en á ekki sæti hér nú, svo að það kemur í minn hlut sem 2. flm. að mæla fyrir till. Till. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um, að eftirtalin atriði verði tekin til athugunar við þá endurskoðun fræðslulaga, sem nú stendur yfir:

1. Skólaskyldan verði ekki látin ná til eldri aldursflokka en nú er og árlegur námstími ekki lengdur. Skóla- og námskostnaður skal greiddur með sama hætti úr ríkissjóði á skyldunámsstigi og í 3. og 4. bekk gagnfræðaskóla.

2. Áherzla sé lögð á að framkvæma lögákveðna skólaskyldu í öllu landinu.

3. Ráðstafanir séu gerðar til þess að velja verkefni við hæfi þeirra nemenda, sem enga getu eða vilja hafa til að tileinka sér kennsluna eða hrökklast úr skóla á skyldunámsstigi. Skal það m. a. gert með því að auðvelda foreldrum að koma börnum sínum í skóla í öðru umhverfi og með því að útvega unglingum hagnýt störf í þjóðfélaginu undir eftirliti fræðsluyfirvalda.

4. Því fólki, sem ekki hefur lokið nauðsynlegu námi fyrir sérskóla, sé auðveldað að öðlast sérstök inntökuréttindi með sérstökum námskeiðum.

5. Námsefni í skyldunáms- og framhaldsskólum skal eftir föngum tengja atvinnuvegunum og gefa því þannig nýjan tilgang.“

Síðan till. þessi var flutt, sem var, eins og áður sagði, 15. des. s. l., hafa verið lögð fram hér á hv. Alþ. frv. til l. um skólakerfi og frv. til l. um grunnskóla. Þessi frv. hafa nú verið allmikið rædd, og er kannske ekki ástæða fyrir mig að hafa hér langa framsögu fyrir þessari till. Það er þó rétt að gera sér grein fyrir því, að þegar till. var flutt, var ekki vitað, á hvaða stigi endurskoðun grunnskólafrv. væri, og var till. ætlað að koma til athugunar hjá þeirri n., sem hafði endurskoðun grunnskólafrv. og frv. um skólakerfi með höndum. Með hliðsjón af því, sem fram hefur komið síðan, vænti ég, að till. verði tekin sem innlegg í þær umr., sem fram fara um þessi mál, og tekin til athugunar af hv. menntmn., sem nú hefur frv. um grunnskóla til meðferðar, enda þótt henni verði vísað til hv. allshn., eins og efni standa til hér í Sþ.

Í till. kemur fram, að flm. eru algerlega andvígir lengingu skólaskyldunnar og lengingu skólaársins, eins og nú er stefnt að með flutningi frv. um grunnskóla og skólakerfi. Flm. líta þannig á, að lenging skólaskyldunnar sé ekki til bóta og sé stórlega varhugaverð, m. a. að því leyti, eins og fram kemur í grg. með till., að með því sé enn verið að stefna í þá átt að auka á námsleiða nemenda, sem lýsir sér í því, að þeir rækja skólastarfið illa, meðan þeir eru undir skyldukvöðinni, en skipta svo gjarnan um, eftir að skyldunámi lýkur. Þá rækja þeir námið betur, vegna þess að þá er það sótt af eigin hvötum og unnið samkv. því að því að ná þeim árangri, sem til þarf til þess að afla þeirrar menntunar, sem stefnt er til. Það er athyglisvert, að mjög margir og sennilega flestir skólastjórar og kennarar á gagnfræða- og miðskólastigi eru andvígir lengingu skólaskyldunnar. Þetta eru þeir menn, sem þekkja þennan hluta fræðslukerfisins bezt. Þeir hafa reynslu af að kenna unglingum á þessu aldursskeiði, og reynsla þeirra segir þeim, að eftir að skyldunámi sleppir, eru nemendur betri nemendur og rækja nám sitt af meira kappi en áður, og reynsla þeirra er einnig slík, að meðan skyldukvöðin hvílir á nemendum, ber meira á því en ella, að hins svokallaða námsleiða gæti, og einnig, að þar leynist undirrót þeirrar uppreisnargirni, sem verður vart í skólunum og hefur bersýnilega farið vaxandi á undanförnum árum.

Flm. líta svo á, að það sé mjög vafasamt, að lenging skólaársins sé framkvæmanleg í strjálbýli, enda hefur það að nokkru verið viðurkennt í þeim umr., sem fram hafa farið um þessi efni á undanförnum vikum. En flm. líta einnig svo á, að lenging skólaársins og lenging skólaskyldunnar hafi vandkvæði í för með sér fyrir þéttbýli landsins og nemendur úr þéttbýli. Við lítum sem sé svo á, að það sé hverjum unglingi nauðsynlegt að fá tækifæri til að kynnast atvinnulífinu til sjávar og sveita af eigin raun, og það megi vera einhverju af fjármunum ríkisins til þess, að svo megi verða. Í þessum efnum vitum við til þess, sem fram kom í samþykktum fjórðungsþings Norðlendinga á Akureyri á s. l. hausti, þar sem lengingu skólaársins var algerlega hafnað. Það er augljóst mál, að ef svo fer, að unglingum frá 7–16 ára aldurs verður gert að skyldu að sækja skóla 9 mánuði á ári hverju, þá styttist mjög sá tími, sem þetta unga fólk hefur til að kynnast atvinnuháttum þjóðarinnar. Það styttist sá tími, sem það hefur í efri bekkjum á þessu aldursskeiði til þess að afla sér nokkurra tekna og létta þannig undir með foreldrum sínum að kosta skólanámið, og margt fleira mætti telja, sem líta má á sem vandkvæði í þessum efnum.

Ég skal ekki fara um þetta efni mjög mörgum orðum til viðbótar. Þetta hefur verið rætt töluvert hér á Alþ. nú undanfarið. En í sambandi við lengingu skólaskyldunnar og hvort hennar sé þörf, þá vil ég ítreka, að fræðsluskylda, sem ríki og sveitarfélög rækja í öllum landshlutum, er nauðsynleg. Hún hefur það fram yfir skólaskylduna, að hún veitir nemendum réttinn til að afla sér þeirrar menntunar, sem hugur þeirra stendur til, án þess að þeir séu þvingaðir til þess, og það ættu allir að vita, sem eitthvað hafa kynnzt börnum og unglingum, að á þessu tvennu er mikill munur. Í þeim miklu umr., sem fram hafa farið um þessi efni á undanförnum vikum, hefur komið fram hjá hæstv. menntmrh., að fræðsluskylda sé ekki fullnægjandi, a. m. k. ekki í strjálbýli, vegna þess að ríki og sveitarfélög, þ. e. opinberir aðilar, muni ekki leggja fram fjármuni til þess að byggja skólamannvirki, nema unnt sé að segja fyrir um það, hve margir nemendur muni sækja þessa skóla. Það er vitaskuld góðra gjalda vert, of unnt er að skipuleggja skólasókn með slíkum ágætum fram í tímann. En með sama hætti mætti þá segja, að opinberir aðilar yrðu að skipuleggja fæðingar í hverju skólahverfi með hliðsjón af því rými, sem skólar þess skólahverfis hafa að bjóða. Þetta er álíka röksemdarfærsla og fær ekki staðizt, ef hún er skoðuð til hlítar.

Það er vert að vekja athygli á því, að fræðslul. frá 1946 eru enn ekki komin til framkvæmda eftir meira en aldarfjórðung. Flm. þessarar till. leggja á það áherzlu, að þessi fræðslulög verði framkvæmd um land allt, en ekki sé svo mikið misrétti látið viðgangast sem raun er á eftir landshlutum í framkvæmd fræðslulaga. Ef horfið hefði verið að því á síðustu árum að gæta þess, að fræðslul. yrðu framkvæmd, hefði verið leiðrétt mikið misrétti, sem viðgengist hefur um langan tíma. Því miður er það svo, að enda þótt ný fræðslulög tækju gildi, þá má búast við með hliðsjón af fyrri reynslu, að þau yrðu ekki nema pappírsgagn eitt og framkvæmd þeirra drægist áratugum saman. Þess vegna er ekki allt fengið með setningu laga, ef þeim er ekki framfylgt, og verðugt verkefni og nærtækara hefði verið að framkvæma gildandi fræðslulög án undantekninga heldur en stefna að þeirri lengingu skólaskyldunnar og lengingu skólaársins, sem nú eru uppi till. um.

Ég skal taka það fram, að þess hefur orðið vart í umr. um þessi mál, að lenging skólaskyldu og skólaársins sé meira gagnrýnd af fulltrúum strjálbýlismanna heldur en þeirra, sem búa í þéttbýli, og þetta kann að vera rétt að vissu marki. Ég vil taka það fram, að ég lít svo á, að það megi alls ekki setja lög, sem gefa fólki úr strjálbýli minni rétt en fólki úr þéttbýli, og þess vegna sé höfuðatriði, að nemendur eigi sama rétt, hvar sem þeir búa á landinu. Að öðru leyti sýnist mér, að gagnrýni á lengingu skólaskyldunnar og skólaársins sé nokkuð samhljóma um land allt, þegar tekið er tillit til þeirra sterku radda, sem koma fram hjá skólamönnum um þessi efni. Ég vil þar enn vitna til samþykktar skólastjóraþings gagnfræðastigsins á Reykjum í Hrútafirði, sem haldið var 1971. Þar var lengingu skólaskyldunnar algerlega hafnað.

Í till. er vikið að því, að auðvelda þurfi þeim nemendum, sem af einhverjum orsökum hverfa út úr skólakerfinu á einhverju stigi þess, að komast inn í skólakerfið aftur, þegar hugur þeirra stendur til frekara náms. Þetta má gera með námskeiðum, sérbekkjum fullorðinna og ýmsum fleiri atriðum, og leggjum við flm. á það ríka áherzlu. Það er alls ekki réttmætt að koma fræðslul. og fræðslukerfi svo fyrir í landinu, að það sé ófrávíkjanleg krafa, að fræðslubrautin sé óslitin. Við verðum að hafa augun opin fyrir því, að af ýmsum orsökum detta einstakir nemendur út úr fræðslukerfinu í vissum tilvikum. Þetta mun fara svo, hvað sem líður setningu laga um grunnskóla, og þessu fólki þarf að gefa gætur. Það þarf að gefa því kost á að afla sér þeirrar menntunar, sem það fær áhuga á, kannske 1–2 árum seinna, eftir að það hefur leitað annarra starfa um hríð og aflað sér á þann veg aukins þroska, og þetta fólk má ekki verða út undan, heldur verður að gefa því kost á því að komast síðar inn í fræðslukerfið, annað hvort í sérskólana eða í menntaskólana, þegar hugur þess stendur til.

Í þessu efni er auðvitað hægt að minna á það, að nokkuð hefur verið gert að slíku á síðustu árum. T. d. má minna á menntadeild við Hamrahlíðarskólann, sem starfaði á síðasta vetri. Einnig var á s. l. ári haldið námskeið við Gagnfræðaskóla Austurbæjar hér í Reykjavík fyrir 18 ára og eldri, og sóttu það þá um 100 manns og milli 40 og 60 manns nú í vetur. Á fleiri stöðum hafa slík námskeið verið haldin, og þau hafa sannað, að fólk, sem orðið hefur útundan á einhverju stigi fræðslukerfisins, en kemur inn í það að nýju, hefur þroska, getu og vilja til að afla sér þeirrar menntunar á tiltölulega skömmum tíma, sem þarf til að geta orðið fullgildir nemendur á síðari stigum fræðslukerfisins.

Ég hygg, að það sé ekki ástæða til þess fyrir mig að hafa um þetta öllu fleiri orð. Svo virðist sem það mikill ágreiningur sé um frv. um skólakerfi og grunnskóla hér á hinu hv. Alþ, og utan þess, að þess sé naumast að vænta, að þessi frv. verði a. m. k. afgreidd á þessu þingi, og gefst þá nægilegt ráðrúm til þess að taka til greina við framhaldsathugun þær röksemdir, sem fluttar eru í þeirri þáltill., sem ég hef hér mælt fyrir. Eru þar þó miklu fleiri atriði, sem þarf að taka til rækilegrar athugunar. En það má ekki að mínu mati móta skólakerfi og fræðslulög einvörðungu af því sjónarmiði, sem virðist gæta hjá hluta fólks í sumum þéttbýlissveitarfélögum, að það sé þægilegt, að skólarnir verði eins konar gæzlustofnanir fyrir börn sem mestan hluta ársins. Það er miklu eðlilegra að veita fjármunum í þjóðfélaginu til þess að finna börnum og unglingum viðfangsefni nokkurn tíma á ári hverju, sem gætu aukið þroska þeirra meira en vistun í slíkum gæzlustofnunum eins og skólarnir mundu verða, ef 9 mánaða skólar yrðu algild regla á 7–16 ára aldursskeiði. Ég legg á það áherzlu, að með námskeiðum í beinum tengslum við atvinnulífið mætti verja fjármunum betur til þess að auka þroska unglinganna á þessu aldursskeiði heldur en með slíkri lengingu skólaársins.