15.03.1973
Sameinað þing: 59. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2556 í B-deild Alþingistíðinda. (1956)

126. mál, endurskoðun fræðslulaga

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson) :

Herra forseti. Erindi mitt í ræðustól er síður en svo að efna á ný til almennra umr. um frv. þau, sem fyrir Nd. liggja um grunnskóla og skólakerfi. Aðeins vildi ég segja nokkur orð vegna eins atriðis í ræðu hv. 6. landsk. þm. Að sjálfsögðu fagna ég mjög eindregnum stuðningi, sem hann lýsti við þau mál, sem hér hefur verið á drepið, en í einu atriði gætti misskilnings í máli hans. Hann kvaðst hafa heyrt, — ég held ég hafi tekið rétt eftir, að hann hefði það eftir öðrum, — að grunnskólanum. hefðu tilhneigingu til að líta á frv., sem þeir gerðu úr garði, sem biblíu, þar sem engum stafkrók mætti hagga. Vegna þess að mér er málið nákunnugt, vil ég ekki láta slíku ómótmælt. Ég benti á það þegar í framsöguræðu minni í hv. Nd., að strax á því stigi, þegar hálfnuð var fundarumferð grunnskólanm. um landið að kynna frv., tóku þeir undireins til greina þó nokkrar ábendingar, sem komið höfðu fram í fundahöldunum, og breyttu frv. í nokkrum atriðum, a. m. k. tveim allveigamiklum. Nú er fundaferð grunnskólanm. lokið, henni lauk um síðustu helgi, og áður en þeim fundi lauk og nú allra síðustu daga hafa grunnskólanm. setið við að ganga frá till. um breytingar á þessum frv., sem þeir munu bera undir mig og koma síðan á framfæri við hv. menntmn. Nd., einmitt breytingum í samræmi við sjónarmið, sem þeir hafa orðið varir við, og ábendingar, sem komið hafa fram á nær tveim tugum funda í öllum landshlutum. Þetta mál er að sjálfsögðu eins og önnur, annars vegar stefnumótun, þar sem hvað bindur annað að verulegu leyti, hins vegar fyrirkomulagsatriði, sem lengi má athuga og umbæta.