15.03.1973
Sameinað þing: 59. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2561 í B-deild Alþingistíðinda. (1960)

144. mál, atvinnulýðræði

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Eins og síðasti ræðumaður fagna ég mjög fram kominni till. Alþfl.-þm. um atvinnulýðræði, að ríkisstj. verði falið að skipa n. til að semja frv. til l. um atvinnulýðræði, þar sem launþegum verði tryggð áhrif á stjórn fyrirtækja og hlutdeild í rekstri þeirra. Þetta er, eins og kom fram hjá frsm., löngu tímabært, og við getum dregið góða lærdóma af nágrannalöndum okkar og ekki sízt af þeim þjóðum, sem einna næst okkur standa í lífsviðhorfum.

Ég ætla ekki að vera langorður um þetta, bara lýsa yfir stuðningi mínum og fullri þörf, að hafizt sé nú þegar handa. En ég vil benda á eitt í þessu sambandi, sem mér fannst ekki koma fram nógu rækilega hjá þeim tveim hv. þm., sem töluðu hér á undan, og það eru einmitt ríkisfyrirtæki. Ríkið rekur nokkur stórfyrirtæki, þar sem auðvelt er að koma á nokkurs konar atvinnulýðræði með því að veita starfsliðinu hlutdeild að stjórn þeirra. Þetta eru fyrirtæki eins og áburðarverksmiðjan, Sementsverksmiðjan, Landssmiðjan. Ég vil líka tala um fyrirtæki eins og Ríkisútvarpið. Þar er hið eðlilega, að a. m. k. einn starfsmaður hljóðvarps og einn starfsmaður sjónvarps sitji í útvarpsráði. Hér er vettvangur til að kanna þessi mál og hefja brautryðjendastarfið.

Hins vegar vil ég benda á, að ég tortryggi dálítið þá ræðumenn, sem töluðu hér á undan, að því leyti, hvort flokkarnir vilja missa spón úr aski sínum. Mér sýndist vera þannig, þegar kosið var hér fyrir áramót í stjórn Áburðarverksmiðju og Sementsverksmiðju, að það væri svo mikið hjartans mál flokkanna að fá einhvern fulltrúa í stjórn þessara stofnana, að það væri fjarri lagi, að þeir væru reiðubúnir til þess að missa af þessum fulltrúum sínum. Ég tek ekki ræðumenn flokka alvarlega, nema þeir sýni í verki, að þeir séu reiðubúnir til þess að missa þessa fulltrúa sína í stjórnum þessara fyrirtækja. Þeir geta talað um atvinnulýðræði einhvers staðar á atvinnumarkaðinum, þar sem það snertir flokkana ekki neitt. Það er auðvelt. En ég trúi ekki á málstað þeirra, fyrr en þeir eru reiðubúnir til að sjá til þess, að flokksmenn þeirra víki úr ýmsum meiri háttar ríkisstofnunum og aðrir einstaklingar komi inn, jafnvel starfsmenn þessara fyrirtækja. Þá fyrst veit ég, að hugur fylgir máli.

Ég vil að lokum beina því til ríkisstj., að hún taki þegar fyrir ríkisfyrirtækin og gefi starfsfólkinu tækifæri til að fá aðild að stjórn þeirra, og það eru þessi fyrirtæki, sem ég taldi upp, og vafalaust einhver fleiri. Síðan má fara út á hinn frjálsa vinumarkað. En á meðan ríkisstj. heldur að sér höndum, pólitísku flokkarnir glamra um atvinnulýðræði, en vilja ekki missa neinn spón úr aski sínum, verður ekki tekið mark á þeim, hreint ekki. Það er þetta atriði, sem ég vil minna á. Það á að byrja hjá ríkisvaldinu, þar sem auðvelt er að koma á einhvers konar atvinnulýðræði, og þá gæti það orðið til fyrirmyndar fyrir hinn frjálsa vinnumarkað.