19.03.1973
Efri deild: 71. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2583 í B-deild Alþingistíðinda. (1970)

30. mál, leigunám hvalveiðiskipa

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég skal ekki fara að hefja deilur um þetta mál, en ég vil undirstrika það, að leigunámsheimildin var nauðsynleg, til þess að samningar gætu tekizt. Samningar náðust ekki án þess að þessi brbl. væru sett um leigunámsheimildina. Þá og þá fyrst reyndist unnt að ná samningum, þannig að það var út af fyrir sig full nauðsyn á því að æfa þessi brbl. út, þó að svo vel tækist til á eftir, að samkomulag yrði um leigukjörin.

Ég þarf ekki að endurtaka það, sem ég sagði áðan, að það er ekki ætlunin, ef unnt er að komast hjá því, að framlengja þennan leigusamning, en hins vegar er ekki hægt að fullyrða um það í dag og þess vegna sjálfsagt að hafa heimildina.

Hvað sem því líður, þá veit ég, að hv. síðasti ræðumaður er svo þingvanur og skilningsgóður á eðli brbl. og afstöðu stjórnvalda til þeirra, að honum hlýtur að skiljast, að það liti dálítið einkennilega út, ef ríkisstj. hefði gefið út brbl. um leigunám, sem hún fengi svo ekki staðfest á Alþ. Það er þess vegna alveg óhjákvæmilegt og liggur í hlutarins eðli, að ríkisstj. hlýtur að fara fram á þá viðurkenningu, sem felst í því, að brbl. séu staðfest, því að annars mætti túlka það svo, eins og hv. síðasti ræðumaður, hv. þm. Magnús Jónsson, lét að liggja, að e. t. v. hefðu þessi brbl. verið gefin út að nauðsynjalausu. Þess vegna er alls ekki um það að ræða, eins og hann tæpti á, að það sé réttmætt undir þessum kringumstæðum að fresta afgreiðslu þessa máls.