19.03.1973
Efri deild: 71. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2584 í B-deild Alþingistíðinda. (1971)

30. mál, leigunám hvalveiðiskipa

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég held, að þeir, sem hlýddu á ræðu mína áðan, ef ég hef ekki komizt því klaufalegar að orði, hljóti að hafa tekið eftir því, að ég fullyrti ekkert um það, að þessi brbl. kynnu ekki á sínum tíma að hafa leitt til þess, að samningar náðust, Það vildi ég ekkert fullyrða um, ég veit það ekki, þannig að það var ekki verið út af fyrir sig að deila á brbl. sem slík. En þau hafa hins vegar komið að fullum notum. Það þurfti ekki að beita þeim nema þá með óbeinum hætti, eins og hæstv. forsrh. vill halda fram, að þau hafi verkað, og því er á þessu stigi málsins a. m. k. þarflaust að gera ráð fyrir því, að til þessara heimilda þurfi að grípa, og ástæðulaust að hafa slíka svipu yfir mönnum með þessum hætti, þegar allt virðist horfa í þá átt, eins og ég vitnaði áðan í fyrri ræðu hæstv. forsrh., að samkomulag muni takast nú varðandi sumarið í sumar, annaðhvort með framhaldandi leigu á þessu skipi eða þá að skipið verði afhent, ef Hvalur getur ekki útvegað sér skip eða málið verður leyst með öðrum hætti. Auðvitað má vel hugsa sér að taka einhver önnur skip til landhelgisgæzlustarfa heldur en endilega þetta skip, sem hér um ræðir.

Um hitt atriðið, sem hæstv. forsrh. lagði megináherzlu á, að það mundi eða gæti skoðazt sem fylgisskortur, skulum við segja, við hæstv. ríkisstj. varðandi setningu þessara brbl., ef þau eru ekki staðfest, þá veit ég, að honum er mætavel kunnugt um það sjálfum, að það hefur hvað eftir annað komið fyrir, að brbl. hafa ekki verið samþ. eða staðfest af Alþ., og hefur engum dottið í hug að túlka það á þann hátt, að með því væri verið að lýsa vantrausti á þá lagasetningu eða vanþóknun þingsins á henni, heldur hefur hitt verið staðreynd málsins, að lögin hafa þegar á þeim tíma gert sitt gagn, alveg eins og þessi lög hafa gert sitt gagn, ef þurft höfum á þeim að halda. Um það atriði er ég ekkert að deila við hæstv. forsrh. Það er því alger misskilningur hjá honum, að þó að þessi lög verði ekki staðfest hér á hinu háa Alþ., eins og málum er háttað nú, þá sýni það einhverja vanþóknun á brbl.-setningu út af fyrir sig á sínum tíma. Hitt vil ég leggja áherzlu á, að staðfesting þeirra nú kynni frekar að verka til leiðinda, að vera yfir mönnum með svipu sem þessa og það með ótímabundinni lagasetningu, sem er mjög óeðlilegt að gera, veita ríkisstj. slíka heimild ótímabundið. Eins og ég gat um áðan og vitnaði til ræðu hæstv. forsrh., hefur orðið samkomulag um að fresta til næstu mánaðamóta samningum um endanlega ákvörðun varðandi notkun þessa skips eða skipa Hvals, og mér sýnist það a. m. k. ekki gera hið minnsta til og vera ósköp sanngjörn málamiðlun að sinni, að fallizt yrði á það af hæstv. forsrh., að frv. yrði ekki knúið fram til atkvgr. í gegnum þingið, áður en séð er, hvort þarf á slíkum heimildum að halda, ef endanleg ákvörðun verður um það tekin um næstu mánaðamót. Alþ. mun þá áreiðanlega verða að störfum, og þá ætti að grípa til þess að staðfesta brbl, ef það sýnist vera æskilegt að fá þá heimild áfram, sem hér um ræðir, enda falla lögin ekki úr gildi, fyrr en þá er þingi lýkur, þannig að það sýnist ekkert vandamál, að ríkisstj. geti gert það, sem henni þóknast í þessu efni, hvað sem þeirri staðfestingu líður, sem nú er lögð áherzla á af hálfu hæstv. forsrh., að eigi sér stað nú þegar.

Ég vil þess vegna skjóta því að hæstv. forsrh., hvort hann geti ekki fallizt á þá málamiðlunarósk, að málið yrði látið bíða fram yfir mánaðamót, og ef hann telur nauðsynlegt að hafa þessa svipu á lofti, þá er það í fullu gildi og er þá hægt að afgreiða það hér með mjög skjótum hætti, þar sem þetta er í seinni d. Mér finnst það sanngirnisósk. Verði ekki hægt að sinna þeirri ósk, hljótum við í minni hl. n. að standa við þá skoðun okkar, að rétt sé að samþykkja ekki frv., og leggja til, að það verði fellt, þar sem staðfesting þessi er þarflaus.