19.03.1973
Efri deild: 71. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2587 í B-deild Alþingistíðinda. (1975)

113. mál, fjölbrautaskóli

Frsm. (Ragnar Arnalds) :

Herra forseti. Menntmn. hefur haft til athugunar frv. til l. um heimild til að stofna fjölbrautaskóla. Efni þessa frv. er það, að menntmrn. og Reykjavíkurborg er heimilað að stofna tilraunaskóla, sem beri það heiti, er fram kemur í frv., fjölbrautaskóli. Þessi skóli á að vera sérstaklega fyrir nemendur, sem hafa lokið skyldunámi, og hann á að veita þeim tiltekin réttindi til sérnáms í framhaldsskólum eða háskóla, svo og menntunarþjálfun í ýmsum starfsgreinum. Þetta er sem sagt tilraunastarfsemi, sem hér er farið á flot með, og að öðru leyti eru ákvæði um skólann að því leyti frábrugðin ákvæðum um byggingu annarra skóla, að ríkissjóður greiðir í þessu tilviki, sbr. 4 gr. frv., 60% af stofnkostnaði skólans á móti 40% frá Reykjavíkurborg, í stað þess að samkv. almennum reglum um þetta efni greiðir ríkissjóður 50% af stofnkostnaði skóla, ef ekki er um að ræða heimavistarskóla eða aðra sérstakar tegundir skólabyggingar.

Þetta frv. var lagt fyrir Alþ. á s. l. þingi og var þá ekki útrætt, en nú er það borið fram á nýjan leik og þá með þeirri viðbót, sem felst í 6. gr. frv., að menntmrn. sé heimilt að stofna til slíkra skóla í samvinnu við önnur sveitarfélög en Reykjavíkurborg.

Menntmn. hefur leitað umsagnar nokkurra aðila um frv. Í fyrsta lagi borgarráðs Reykjavíkurborgar og borgarstjórans í Reykjavík, í öðru lagi Sambands ísl. barnakennara og í þriðja lagi fræðslumálastjóra, og er þar skemmst frá að segja, að þessir þrír aðilar mæla mjög eindregið með því, að frv. verði samþ. óbreytt. Einnig leitaði n. umsagnar stjórnar Landssambands framhaldsskólakennara, og umsögn sambandsins er á þessa leið, með leyfi forseta:

„Stjórn Landssambandsins telur sig ekki geta tekið afstöðu til téðs frv., fyrr en séð verður, hverja afgreiðslu frv. um skólakerfi og grunnskóla hljóta í meðförum hins háa Alþ. og hvaða tengsl verða milli grunnskólans annars vegar og framhaldsskólanna hins vegar.“

Eftir að þetta mál var rætt, taldi n. sig ekki geta fallizt á nefnda ábendingu stjórnar Landssambands framhaldsskólakennara, og n. mælir sem sagt einróma með því, að frv. verði samþ. óhreytt.