19.03.1973
Efri deild: 71. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2590 í B-deild Alþingistíðinda. (1979)

183. mál, lögreglustjóri í Hafnarhreppi í Austur-Skaftafellssýslu

Frsm. (Björn Fr. Björnsson) :

Herra forseti. Allshn. hefur athugað þetta frv. og mælir einróma með samþykkt þess. Ég vil leyfa mér að fara nokkrum orðum um frv. að öðru leyti, enda þótt hæstv. dómsmrh. hafi gert því rækileg skil út af fyrir sig, þegar hann mælti fyrir frv.

Íbúar í Austur-Skaftafellssýslu hafa lengi óskað þess, að þeir fengju sýslumann að Höfn eða í Austur-Skaftafellssýslu eða a. m. k. lögreglustjóra í Hafnarhreppi. Vitnar um það fjöldi samþykkta félaga og hreppsnefnda innan sýslunnar. Svo sem kunnugt er, er aðstaða fyrir sýslumann í Skaftafellssýslu, sem hefur aðsetur í Vík í Mýrdal, hin erfiðasta að annast nauðsynleg störf í eystri sýslunni, þ. e. Austur-Skaftafellssýslu. Og fyrir Austur-Skaftfellinga er það oft og tíðum og kannske oftast ógerningur að fara til Víkur til embættismannsins þar með málefni sín. Í Höfn í Hafnarhreppi hefur fólksfjölgun verið mjög ör undanfarin ár og er nú þar yfir 1000 manns. Þar er athafnalíf með mesta blóma og óvíða meiri eða ábatasamari útgerð en t. d. þar. Mannfjöldinn í allri sýslunni var 1. des. 1971 1630 manns. Þar af voru í Hafnarhreppi, þ. e. a. s. Höfn, 964. En í vestri sýslunni voru á sama tíma 1368 manns, þar af í Vík í Mýrdal 378. Það má segja, að hér sé á ferðinni eitt gleggsta dæmi um óhagkvæma skipan lögsagnarumdæma í landinu. En víðar en þarna eru dæmi ekki ólík þessu. Ég vildi aðeins benda á þetta, en það er ekki staður hér né stund til þess að ræða nánar um umdæmaskipun í okkar landi, enda mun það mál nú vera sem lengi fyrr í endurskoðun.

Til þess að ráða bót á þessu sérstaka vandamáli á þessum slóðum, sem svo mjög lengi hefur verið til athugunar, hefur með því frv., sem hér liggur fyrir, nánast verið farin millileið. Ég vil taka það fram í sambandi við þetta mál, að þrátt fyrir það, að brúargerð verði á Skeiðarársandi til fulls framkvæmd á sínum tíma og innan ekki langs tíma, þá eru samt vegalengdir á milli t, d. Víkur og Hafnar miklar. Ég hygg, að þær séu nánast 300 km eða öllu meir, ég tala ekki um úr eystri hluta Austur-Skaftafellssýslu. Þannig er það fyrir Austur-Skaftfellinga langurinn uppi að sækja þjónustu til Víkur, þrátt fyrir það að brýr komi á nefndu svæði, þar sem Skeiðará rennur.

Efni frv. er í stuttu máli það, að lögreglustjóri skal vera í Hafnarhreppi. Enn fremur á hann að annast öll dómsstörf í hreppnum og svo auðvitað lögreglustjórn, tollgæzlu, einnig alla innheimtu á ríkissjóðstekjum og margt fleira. En í frv. er getið um það, að reglugerð verði síðar og þegar til kemur samin um starfssvið og störf lögreglustjórans.

Við í allshn, höfum talið rétt að taka sérstaklega fram tvö atriði til ábendingar, þegar til framkvæmda kemur. Í fyrra lagi álítur allshn. alveg einstætt, að þessi lögreglustjóri hafi jafnframt á hendi umboðsstörf eða fulltrúastörf fyrir sýslumanninn í Vík í Mýrdal að því er varðar aðra hreppa en Hafnarhrepp innan Austur-Skaftafellssýslu, Í öðru lagi telur allshn. sjálfsagt, að til athugunar komi, eftir að breyting hefur farið fram, hvort þörf sé á óbreyttum starfsmannafjölda við embættið í Vík. Það segir sig sjálft, að þegar breyting hefur farið fram, minnkar athafnasvið sýslumannsins í Vík í Mýrdal mjög verulega, og þess vegna er þessi aths. fram komin.

Eins og ég sagði áður, hefur þetta mál lengi verið til athugunar og m. a. í dómsmrn., og á þeirri athugunarleið hafa komið fram ýmsar till., hvernig leysa ætti þennan vanda, sem ljóslega er á ferð, og nú hefur það verið gert að lokum með þessum hætti. Ég ætla, eins og ég hef áður sagt, að þetta sé nánast millileið. Og ég tel, að þegar tímar og þeir ekki langir hafa liðið, muni við umdæmaskiptingu í landinu verða hér á breyting enn fremur. En eins og sakir standa tel ég og við í n. efni frv. á þá lund, að það sé nauðsynlegt að samþykkja það.