19.03.1973
Efri deild: 71. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2592 í B-deild Alþingistíðinda. (1980)

183. mál, lögreglustjóri í Hafnarhreppi í Austur-Skaftafellssýslu

Tómas Árnason:

Herra forseti. Án þess að vilja lengja þessar umr., vil ég þó leggja örfá orð í belg út af þessu máli.

Ég vil sérstaklega fagna því, að slíkt frv. hefur nú verið lagt fram hér á hv. Alþ., því satt bezt að segja hefur réttarstaða þess fólks, sem býr þarna austur frá, hvað snertir aðgang að sýslumannsembættinu, vegna fjarlægðar og erfiðleika á samgöngum verið á þann hátt, að það hefur verið algerlega óviðunandi. Víðast hvar á landinu er það svo, að menn geta með tiltölulega lítilli fyrirhöfn haft samband við sýslumannsembætti með því að koma á staðinn. Í viðkvæmum málum er erfitt fyrir fólk að fjalla um þau gegnum síma eða með öðrum hætti, með bréfaskriftum eða á annan hátt. Ég veit dæmi til þess, að það hefur í raun og veru ekki aðeins komið sér illa, heldur í raun og veru verið mjög bagalegt að fólk hefur ekki haft aðstöðu til þess nema með dýrum ferðalögum að geta hitt sýslumann að máli. Nú má enginn skilja það svo, að ég sé á þennan hátt að neinu leyti að deila á sýslumannsembættið. Það vil ég ekki gera og tek það alveg skýrlega fram, heldur eru aðstæður þannig, að það verður svo erfitt í framkvæmdinni fyrir íbúana að hafa aðgang að embættinu, sem þó er nauðsynlegur í fjölmörgum tilfellum og oft fyrirvaralítið.

Nú er þetta að sumu leyti dálítið öndvert, að það skuli þurfa að fjölga embættum, en þó verður að gæta þess, að þar sem háttar til eins og hér um ræðir, þá er það alveg óumflýjanlegt. Ég minnist þess í sambandi við málefni íbúa þarna austur frá, svo sem eignaskipti eða hin ýmsu viðkvæmari málefni, að það horfir raunverulega oft til verulegra vandræða fyrir fólk að fá afgreiðslu með eðlilegum hætti. Þar á ég við það að geta komið á skrifstofu embættisins og hitt embættismenn að máli með litlum fyrirvara. Það gefur auga leið, að ekki er hægt að stefna sýslumanni um langa vegu til þess að afgreiða einstök mál, sem þó eru í eðli sínu þannig, að nauðsynlegt er, að menn geti talað saman augliti til auglitis. Mér hefur oft runnið það til rifja í raun og veru, hve fólk þarna býr að þessu leyti við miklu lakari aðstöðu en almenningur yfirleitt annars staðar á landinu, að ég ekki tali um þéttbýlið, þar sem menn fyrirvaralaust geta fengið afgreiðslu mála sinna hjá hliðstæðum embættum. Þess vegna fagna ég þessu frv. og vonast til þess, að það fái sem fljótast framgang.