20.03.1973
Sameinað þing: 60. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2594 í B-deild Alþingistíðinda. (1984)

196. mál, opinberar framkvæmdir í Reykjaneskjördæmi

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Fsp. hv. þm. Ólafs G. Einarssonar sendi ég áætlanadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins, og hefur mér borizt frá henni svohljóðandi svar, dags. 19. marz 1973, sem ég nú mun lesa, með leyfi forseta:

„Forsrn. Reykjavík. — Varðandi fsp. Ólafs G. Einarssonar alþm. til forshrh. á þskj. 373 um gerð áætlunar um opinberar framkvæmdir í Reykjaneskjördæmi skal tekið fram eftirfarandi:

1. Þál. var samþ. 16. maí 1972, svo hljóðandi: „Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta gera áætlun um opinberar framkvæmdir í Reykjaneskjördæmi. Verk þetta skal unnið í samráði við sveitarstjórnir í kjördæminu og byggt m. a. á þeim athugunum, sem unnið hefur verið að á vegum Samtaka sveitarfélaga í Reykjanesumdæmi um framtíðarþróun þessa svæðis:

2. Þál. var send Framkvæmdastofnun með bréfi forsrn., þar sem segir: „Væntir rn. þess, að framkvæmdastofnunin taki þessi verkefni til meðferðar, eftir því sem ástæður leyfa.“ Til skýringar er rétt að skjóta inn, að það voru fleiri þál. um áætlanir, sem fóru í einu lagi. — Síðan segir: „Sökum óhjákvæmilegs forgangs annarra verkefna á sviði byggðaáætlana hefur stjórn stofnunarinnar enn ekki gert samþykkt um, að þetta verkefni skuli tekið fyrir. Með tilliti til þess hefur orðið að ráði milli Samtaka sveitarfélaga í Reykjaneskjördæmi og Framkvæmdastofnunarinnar, að þýðingarmestu þættir þessarar áætlanagerðar yrðu teknir til sérstakrar rannsóknar, einkum alhliða aðstaða sjávarútvegs á svæðinu, og þá sérstaklega með áherzlu á hafnargerð og aðstöðu til fiskmóttöku, fiskflutnings o. s. frv. Hefur SAS, IR, Samtök sveitarfélaga í Reykjaneskjördæmi hafið athugun þessa, og er ætlunin, að hún verði framkvæmd í nánu samráði við Framkvæmdastofnunina, hafnarmálastjóra og aðra hlutaðeigandi aðila.

Virðingarfyllst,

Framkvæmdastofnun ríkisins,

Áætlanadeild,

Bjarni Bragi Jónsson.“

Frekari upplýsingar varðandi fsp. get ég ekki gefið.