20.03.1973
Sameinað þing: 60. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2595 í B-deild Alþingistíðinda. (1985)

196. mál, opinberar framkvæmdir í Reykjaneskjördæmi

Fyrirspyrjandi (Ólafur G. Einarsson) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir svörin við fsp. mínum. Ég hlýt þó að láta í ljós vonbrigði yfir því, að lítið hefur verið gert í þessum málum, og mér sýnist, að hlutur Framkvæmdastofnunar ríkisins sé þar nánast enginn. Þetta gefur vissulega tilefni til að spyrja, hvernig ástatt sé með aðrar áætlanir, en eins og kom fram í máli hæstv. ráðh., voru samþ. hér á síðasta þingi nokkrar aðrar þál., hliðstæðar þessari, fyrir aðra landshluta. Ég ætlast að sjálfsögðu ekki til, að hæstv. forsrh. svari því hér, hvernig tekizt hefur til með þær áætlanir, en það kom fram hjá hæstv. ráðh., að aðrar áætlanir hafi forgang fram yfir Reykjanesáætlunina. Mér er kunnugt um, að það, sem gert hefur verið í áætlanagerð fyrir Reykjanes, og það á reyndar líka við um Suðurland, hefur verið unnið af viðkomandi landshlutasamtökum sveitarfélaga að öllu leyti. Allt hefur það þó verið unnið með vitund Framkvæmdastofnunar ríkisins, en ég held, að lengra nái það samstarf ekki. Í Reykjaneskjördæmi hefur, auk þess sem gert hafði verið fyrir daga Framkvæmdastofnunar ríkisins, verið unnið að hafnamálakönnun. Það verk hefur verið unnið í samvinnu við bæði Samtök sveitarfélaga í Suðurlandskjördæmi og Reykjavíkurborg. Þetta er könnun á aðstöðu sjávarútvegsins á svæðinu frá Eyrarbakka og Stokkseyri um Reykjanes til Reykjavíkur: Mér er ekki kunnugt um, að Framkvæmdastofnunin hafi tekið neinn þátt í þessu verki.

Ef farið hefði verið að ályktun Alþ. frá því í fyrra um gerð áætlana fyrir hina ýmsu landshluta, átti það að vera verkefni Framkvæmdastofnunar ríkisins, sbr. það, sem ég sagði hér áðan og vísaði til 8. gr. l. um Framkvæmdastofnunina, og verkið hefði þá átt að vera unnið á kostnað áætlanadeildar. Ég bendi líka á 31. gr. l., sem heimilar stjórn byggðasjóðs að greiða landshlutasamtökum sveitarfélaga af fé sjóðsins, sem svarar 3/4 af árslaunum starfsmanns hjá landshlutasamtökum, enda vinni hann þá að gerð áætlana fyrir viðkomandi landshluta í samvinnu við áætlanadeild. Ég læt í ljós þá von, að framkvæmdastofnunin sinni því verkefni, sem Alþ. hefur falið henni.

Fyrir Reykjaneskjördæmi er mikilvægt, að lokið verði við áætlun um úrbætur í hafnamálum, en þar hefur raunar þegar verið unnið mikið verk, eins og ég sagði áðan, af sveitarfélögunum. Þeirri áætlun þarf síðar að fylgja eftir með raunverulegum fjárveitingum frá Alþ. Þarna er ekki um að ræða hagsmuni Reykjaneskjördæmis eingöngu, heldur varðar þetta alla þjóðina, svo mikilvægar sem fiskihafnirnar á Suðurnesjum eru. Þá er ekki síður mikilvægt fyrir Reykjaneskjördæmi, að skriður komist á áætlanir um hitaveitu, og á það bæði við um hitaveitu fyrir Suðurnes og eins hér á þessu svæði.