20.03.1973
Sameinað þing: 60. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2596 í B-deild Alþingistíðinda. (1986)

196. mál, opinberar framkvæmdir í Reykjaneskjördæmi

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins með fáum orðum nota tækifærið í sambandi við þessar umr. um áætlanagerð, landshlutaáætlanir, og upplýsa hæstv. ríkisstj. um það, á hvaða stigi áætlanagerð fyrir Suðurland er. Það vantar fjármagn til þess að greiða þann kostnað, sem þegar er áfallinn í sambandi við hana. Samtök sveitarfélaga á Suðulandi samþykktu fyrir sitt leyti að beita sér fyrir áætlanagerð, eftir að þál. hafði verið samþ. hér á hv. Alþ. á s. l. ári. Af hálfu samtakanna var strax hafizt handa um undirbúning verksins. Á fundum, sem framkvæmdastjóri samtakanna ásamt starfsmanni átti með framkvæmdaráði og forstöðumanni áætlanagerðar Framkvæmdastofnunarinnar í sept. og okt. 1972, kom fram, að Framkvæmdastofnunin hefði ekki yfir að ráða nægum mannafla til að sinna þessu verki, en Stofnunin væri hins vegar reiðubúin að greiða götu Samtaka sveitarfélaga í Suðurlandskjördæmi og láta í té gögn, sem tiltæk væru. Á fundunum voru af hálfu samtakanna kynnt og rædd vinnubrögð og efni væntanlegrar áætlanagerðar, svo og tímasett áætlun um vinnuhagræðingu. Þessi atriði fengu góðar undirtektir hjá Framkvæmdastofnuninni.

Í samræmi við vinnuáætlun voru haldnir svæðafundir með sveitarstjórnarmönnum og fleiri aðilum. Fundirnir voru haldnir að Hellu, Vík, Stokkseyri og Vestmannaeyjum. Auk starfsmanna að áætluninni, heimamanna og annarra gesta mættu fulltrúar frá Framkvæmdastofnuninni á fundunum, og gerðu þeir grein fyrir hennar þætti að áætlanagerð samkvæmt lögum um stofnunina. Fundargerðir voru sendar framkvæmdaráði að fundum loknum.

Eftir því sem verkunum hefur miðað áfram, hafa Framkvæmdastofnuninni verið sendir einstakir kaflar til umsagnar, og á fundum með starfsmönnum hafa athugasemdir verið ræddar. Áherzla var á það lögð af hálfu beggja aðila, að þessum hluta, sem nú er í vinnslu, er ætlað að vera almenn úttekt á stöðu Suðurlands, einkum opinbera þættinum. (Forseti: Ræðutíminn er búinn.) Ég verð þá að stytta mál mitt, herra forseti. En ég vil minna á, að kostnaðurinn nemur 2,6 millj. kr. og eftir er að greiða 1.4 millj. Verð ég að ræða við hæstv. ríkisstj. við annað tækifæri um, hvenær vænta megi greiðslu þess fjár, sem í gjalddaga er fallið.